Fréttasafn



24. ágú. 2015 Iðnaður og hugverk

Ungur iðnaður með framtíðina fyrir sér

Kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi er ungur iðnaður sem fer ört stækkandi. Ótrúlega mikið hefur áunnist á fáum árum varðandi fagmennsku, gæði og þekkingu í framleiðslu fjölbreyttra verkefna. Erlendu verkefnin sem hingað hafa komið vegna laga 43/1999 um 20% endurgreiðslu á framleiðslukostnaði hefur veitt fólki í iðnaðinum tækifæri til að læra af öflugum erlendum fyrirtækjum sem hafa viðamikla reynslu af kvikmyndagerð. Þar að auki hafa þessi erlendu verkefni margvísleg markaðsleg áhrif út í hinum stóra heimi, en kannanir sýna að um 20% ferðamanna eru hingað komnir vegna áhrifa sem þeir urðu fyrir þegar þeir sáu landið okkar fagra í kvikmynd, sjónvarpi, auglýsingum eða heimildarmynd. Þetta gera um 200.000 manns á hverju ári.

Mikil samkeppni er á milli landa sem vilja laða til sín kvikmyndaverkefni, en fjölmörg lönd bjóða upp á sambærilegar eða mun hærri endurgreiðslur en hér er gert. Endurgreiðslan hefur gefið góða raun enda hafa helstu samkeppnislönd okkar heldur verið að hækka slíkar ívilnanir undanfarin ár. Erlend framleiðslufyrirtæki nefna þrjár ástæður fyrir að mynda á Íslandi; hæft starfsfólk, endurgreiðslan og ósnortin náttúra.

Nú er uppi umræða um að óvinsælar íslenskar kvikmyndir séu styrktar um tugi milljóna og að þær ívilnanir sem kvikmyndaiðnaðurinn fái skili sér ekki til baka. Í þessari umræðu er mikilvægt að gerður sé skýr greinarmunur á 20% endurgreiðslunni annars vegar og styrkjum frá Kvikmyndamiðstöð hinsvegar.

20% endurgreiðsla

Með endurgreiðslunni, sem ætti í raun að vera kölluð afsláttur, er verið að hvetja erlenda aðila til að mynda hér. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta er „afsláttur“ af þjónustu sem erlendir aðilar eru þegar búnir að greiða fyrir á Íslandi. Af því njóta fjölmargir aðilar góðs af, bílaleigur, hótel, veitingastaðir o.s.frv. Þetta kerfi laðar að dýrmætan erlendan gjaldeyri til landsins og skapar að auki fjöldamörg störf.

Áhrif  endurgreiðslunnar eru jákvæðar fyrir ríkissjóð samkvæmt greiningu sem Sagafilm gerði að beiðni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrr á árinu. Verkefnin skiluðu til ríkissjóðs umfram það sem þau greiddu þegar allt er talið. Þess fyrir utan eru jákvæð markaðsleg áhrif sem eru hér ekki reiknuð inn, en mætti eflaust telja í hundruðum milljóna þvert yfir iðnaðinn.

Stuðningur við kvikmyndamenningu

Kvikmyndasjóður, sem er undirstaða íslenskrar kvikmyndamenningar, hefur átt undir högg að sækja síðastliðin ár. Á sama tíma og Viðskiptablaðið gerir neikvæða úttekt á íslenskri kvikmyndagerð þann 30.07.2015 ákveður Media, eða kvikmyndaáætlun ESB (Creative Europe – Media) að styrkja  íslenska kvikmyndagerð myndarlega. Styrkirnir nema meira en 100 millj. á þessu ári eingöngu. Sagafilm fékk styrk til þróunar á fjórum leiknum verkefnum og einni heimildarmynd, einnig fékk Ófærð styrk sem og Yarn the Movie. Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins kemur eftirfarandi fram: „Af heildarúthlutuninni... fá ofangreind íslensk fyrirtæki 12% í sinn hlut og er það fáheyrður árangur eins lands, þrátt fyrir höfðatölu“. Þessi stuðningur sýnir glögglega það brautargengi sem íslensk kvikmyndagerð er að fá innan Evrópu.

Það er rétt að framleiðsla kvikmynda, sjónvarpsþátta og heimildarþátta er dýr. Hinsvegar er framleiðslukostnaður á Íslandi fyrir hvert verkefni eingöngu brot af því sem gerist erlendis og það vekur oft furðu erlendra kvikmyndagerðamanna hve mikið er gert hér fyrir lítinn pening. Samkeppnin við erlent efni sem framleitt er fyrir miklu stærri markaðssvæði er vissulega erfið. Reikna má gróflega með að tíu þátta sjónvarpssería hér heima sé framleidd fyrir svipaðar upphæðir og einn þáttur víða erlendis. Það er nánast óvinnandi vegur að framleiða íslenskt efni án aðkomu Kvikmyndasjóðs, jafnvel þótt að styrkur Kvikmyndasjóðs nemi ekki meira en 10-30% af heildarfjármögnun verksins. Kvikmyndagerð á Íslandi getur því miður ekki þrifist án styrkja á meðan ekki eru fleiri einkaaðilar tilbúnir að koma að fjármögnun verkefna. Sú hugmynd að kvikmyndagerð á Íslandi sé að einhverju leyti atvinnubótavinna fyrir kvikmyndaáhugamenn finnst mér hinsvegar ákaflega móðgandi. Kvikmyndagerð á Íslandi er erfiður bransi þar sem fólk þarf að vinna langa daga við erfiðar aðstæður til að láta hlutina ganga upp fyrir mjög takmarkaða fjármuni.

Það er hinsvegar mikilvægt að gæta vel að því hvernig úthlutuðu fjármagni er varið. Styðja þarf betur við þróun verkefna, svo hægt sé að fínpússa þau og bæta áður en tökur, sem eru langtum dýrasti hluti framleiðslunnar, fara af stað. Það skilar sér í betri gæðum og betri kostnaðarstjórnun. Einnig þarf að gæta þess að styrkjunum sé úthlutað til aðila sem eru þekktir fyrir að klára og standa skil á sínu. Auðvitað þarf að vera öflug nýliðun í bransanum en það þarf að beina þeim í sem öruggastan farveg og fá inn reynda framleiðendur eins og Kvikmyndamiðstöð er í auknu mæli að leggja til.

Ekki má gleyma að styrkir Kvikmyndasjóðs laða einnig að sér erlent fjármagn frá sjóðum eins og Media, Nordisk Film and TV Fund og Eurimages svo eitthvað sé nefnt.

Því hefur verið haldið fram að kvikmyndagerðin hljóti ívilnanir umfram aðrar atvinnugreinar en þegar hlutirnir eru skoðaðir í stærra samhengi stenst það ekki. Hvað með landbúnað? Erum við tilbúin að sleppa því að borða íslenskt lambakjöt af því að framleiðslan þarf á styrkjum að halda? Hvað með kvótakerfið? Eru það ekki ívilnanir? Hvað með bankakerfið? Hvað höfum við þurft að greiða sem þjóð til að halda því uppi? Erum við virkilega tilbúin að sætta okkur við það að horfa eingöngu á erlent efni? Viljum við ekki sem þjóð halda í okkar eigin menningararfleifð, spegla okkar eigin sögur og hlusta á okkar fallega tungumál í gegnum íslenska sjónvarpsþætti, kvikmyndir og heimildarþætti?

Guðný Guðjónsdóttir, framkvæmdarstjóri Sagafilm, stjórnarmaður SÍK og er með MBA með áherslu á alþjóðleg viðskipti

Birt í Morgunblaðinu 22. ágúst 2015