Fréttasafn



4. júl. 2017 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Vegamálin mætt afgangi í fjárfestingum í samgöngum

Ingólfur Bender, hagfræðingur SI, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að fjárfestingar í samgöngum undanfarin ár hafi fyrst og fremst beinst að flugsamgöngum á meðan vegamálin hafi mætt afgangi. Fjárfesting í vegamálum sem hlutfall af landsframleiðslu hefur verið lítil undanfarin ár eða í kringum 0,9% og er það talsvert minna en áratugina á undan. Ingólfur sagði hlutfallið í fyrra vera mjög lítið í samanburði við það sem hafi sést á árum áður og væri mjög lítið miðað við þá þörf sem hefur byggst upp í kringum aukna vegaumferð.

Ingólfur bendir á að fjárfestingar hafi fyrst og fremst verið í flugsamgöngum og bifreiðum. Mun minni áhersla hafi verið lögð á sjálfa vegina. „Við þurfum ekki annað en að keyra vegi Reykjavíkur til að sjá það. Ef við förum út á land þá er mikið af viðhaldsþörf og fjárfestingaþörf, einbreiðar brýr og þröngir vegir og svo framvegis, sem koma niður á þjónustu okkar á þessu sviði.“ Hann bendir á að hér sé um brýnt öryggismál að ræða, bæði fyrir ferðamenn og almenning.

Í fréttinni er einnig rætt við vegamálastjóra, Hrein Haraldsson, sem tekur undir þetta.

Á vef Stöðvar 2 má sjá fréttina í heild sinni.