Fréttasafn



17. okt. 2023 Almennar fréttir

Vegrún, pítsustund og jarðsetning tilnefnd í hönnunarverðlaunum

Tilkynnt hefur verið um þau þrjú verk sem hlotið hafa tilnefningu í Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Vegrun

Vegrún eftir Kolofon og co 

Rökstuðningur dómnefndar:
Vegrún er nýtt íslenskt merkinga- og leiðakerfi sem er opið öllum til notkunar og sérstaklega hannað til að falla vel að náttúru Íslands. Vegrún er kerfi sem tekur mið af ólíkum þörfum og aðstæðum á hverjum stað, hvort sem um er að ræða lifandi vöktunar- og upplýsingakerfi í Reynisfjöru, aðgangsstýringu að Kirkjufelli eða sveigjanlegar merkingar fyrir eldgosin á Reykjanesi. Vegrún er er gott dæmi um afrakstur þaulhugsaðrar hönnunar, samræmt merkingakerfi innblásið af litbrigðum íslenskrar náttúru og veðurfari, sem fellur vel að fjölbreytilegu umhverfi landsins. Letrið er íslenskt og sérhannað og leitast er við að nýta íslenskan efnivið eins og kostur er. Vegrún er umfangsmikið og mikilvægt verkefni, leyst á næman og faglegan hátt, þar sem hugað hefur verið að hverju smáatriði sem skilar sér í fallegri, sannfærandi og heildstæðri lausn.

Merkinga- og leiðakerfið Vegrún er þverfaglegt hönnunarverkefni unnið á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Verkið er unnið af hönnunarstúdíóinu Kolofon ásamt breiðum hópi hönnuða og sérfræðinga með það að markmiði að hvetja til góðrar umgengni við náttúru og auka öryggi ferðafólks með sveigjanlegu, samræmdu og gagnlegu leiðakerfi, sem er opið öllum til afnota alls staðar á landinu.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar.

Pitsustund

Pítsustund eftir Fléttu, Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Ýrúrarí, Ýr Jóhannsdóttur 

Rökstuðningur dómnefndar:
Pítsustund er verk, gjörningur og mjög áhugaverð tilraun sem sýnir hvernig hægt er með aðferðum hönnunar og á mjög skemmtilegan og eftirtektarverðan hátt að varpa ljósi á nýtingu afgangsafurða og verðmæti þeirra.

Pítsustund verk hönnunarstúdíósins Fléttu og textílhönnuðarins Ýrúrarí var fimm daga gjörningur haldinn á HönnunarMars 2023, þar sem hönnuðirnir þæfðu ullarpítsur úr afgöngum frá íslenskum ullariðnaði og seldu viðskiptavinum eins og um venjulegar pítsur væri að ræða. Sviðsmynd verksins var byggð í kringum nálaþæfingarvél sem var í hlutverki pítsuofns en hönnuðirnir brugðu sér í hlutverk bakara og afgreiðslufólks. Leikgleðin var allsráðandi í verkinu hvort sem það sneri að grafískri hönnun matseðla, klæðnaði, sviðsetningu eða vörunni sjálfri. Sýningarrýmið, búðarrými á miðjum Laugavegi var með stórum aðgengilegum gluggum sem gerði gestum kleift að fylgjast með öllu ferlinu, þannig að áhorfandinn fékk góða innsýn í framleiðsluna sem yfirleitt fer fram á bak við luktar dyr.

Með verkinu Pítsustund tókst hönnuðunum að skapa eftirminnilega upplifun og um leið áhugaverða félagslega tilraun, sem vakti mikinn áhuga og ánægju hjá gestum og gangandi. Ullarpítsurnar slógu í gegn, ruku út og langar biðraðir mynduðust við sýningarstaðinn. Svo fór að allt hráefni kláraðist og hönnuðirnir náðu ekki að anna eftirspurn á meðan á þessari mögnuðu fimm daga pítsustund stóð. 

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar.

Jardsetning

Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur, arkitekt 

Rökstuðningur dómnefndar:

Jarðsetning er margslungið verk sem segir einstaka sögu byggingar og hvernig væntingar og módernísk sýn á borgarþróun öðlast nýja merkingu þegar fram líða stundir. Byggingin missir tilgang sinn, það mistekst að finna henni nýtt hlutverk í samtímanum og hún er dæmd úr leik.

Höfundur miðlar efninu með gjörningi, innsetningu, kvikmynd og loks bók. Í kvikmyndinni mæta áhorfendur afli vélarinnar og horfa hjálparvana upp á niðurrif byggingarinnar og tilheyrandi sóun hráefna með hversdagslíf borgarinnar í bakgrunni. Endalok byggingar á endastöð hugmynda um einnota byggingar, jarðsetning.

Í bókinni fléttast frásögn af lífi og dauða byggingarinnar við sögu hugmynda og sögu höfundar. Höfundur fer inn í stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu og þaðan á vit hugmynda og drauma sem búa í hinu byggða.

Stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu reis á sjöunda áratugnum í anda alþjóðlegra framtíðarhugmynda en rúmlega hálfri öld síðar fær byggingin dóm um að víkja fyrir nýjum byggingum með annað hlutverk. Með Jarðsetningu hefur Anna María Bogadóttir, arkitekt náð að skapa einstakt og áhrifamikið verk sem hefur náð að skapa áhugaverðar umræður í samfélaginu og vekja fólk til umhugsunar um arkitektúr og hlutverk hans í nútímanum og þörf fyrir breyttar áherslur, líftíma bygginga, endurnýtingu, umhverfissjónarmið og hringrásarhugsun. Nálgunin er listræn og fagleg en á sama tíma persónuleg svo útkoman höfðar til mjög breiðs hóps.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar.

 

Í dómnefnd sitja Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður dómnefndar, Þorleifur Gunnar Gíslason, Eva María Árnadóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Halldór Eiríksson, Erling Jóhannesson, Margrét Kristín Sigurðardóttir og Tor Inge Hjemdal. Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.