Fréttasafn



9. ágú. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Orka og umhverfi

Víðtækt samstarf mikilvægt til að draga úr losun mannvirkjagerðar

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins hafa birt myndband þar sem Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverk og formaður Mannvirkjaráðs SI, segir frá áformum til að draga úr losun í mannvirkjagerð en talið er að mannvirki og mannvirkjagerð séu ábyrg fyrir um 40% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Í vegvísinum er greint frá 74 tillögum að aðgerðum sem atvinnugreinin leggur til. 

Gylfi segir að það sé því afar mikilvægt að ráðast í markvissar aðgerðir til að draga úr losun í mannvirkjagerð. „Mannvirkjaiðnaðurinn og stjórnvöld hafa því tekið höndum saman og markað sér skýra stefnu og aðgerðarlista til að ná metnaðarfullum markmiðum um að draga úr losun. Markmið þessi og aðgerðir koma fram í „Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð“. Búið er að varða leiðina en verkefnið er stórt og við þurfum að hlaupa hratt.“

Breytt efnisval, betri orkunýting og endurnýting byggingarefna

Þá segir Gylfi frá því myndbandinu að til að árangur náist þurfi samstillt átak um að breytingar sem byggist á því að horfa á alla anga mannvirkjagerðar og skapa jákvæða hvata til umbreytingar efnisvals og breyttra aðferða. „Rannsóknir og upplýsingar eru þar lykilatriði og nauðsynlegir innviðir þurfa að vera fyrir hendi. Dæmi hafa sannað að með breyttu efnisvali, hönnun sem gerir ráð fyrir betri orkunýtingu og því að huga að endurnýtingu byggingarefna megi ná góðum árangri mjög hratt með litlum tilkostnaði.“

Í lok myndbandsins segir Gylfi að mannvirkjaiðnaður sé fjölbreyttur og hagaðilar bæði margir og ólíkir. „Lykillinn að árangri byggist á víðtæku samstarfi allra hagaðila. Verkefnið er stórt en okkur mun takast að ná þessum markmiðum saman.“

Hér er hægt að nálgast myndbandið: 

https://www.facebook.com/loftslagsvegvisar/videos/1348744366078273

Á vef Byggjum grænni framtíð er hægt að nálgast ítarefni.