Fréttasafn



5. mar. 2021 Almennar fréttir

Vill einföldunarbyltingu á Íslandi

Dómur framtíðarinnar verður vonandi sá, að nú á síðastliðnum árum hafi orðið hér á landi hugarfarsbylting sem gerði Ísland að nýsköpunarlandi. Við þurfum að halda áfram að stuðla að því. Næsta bylting sem ég myndi vilja sjá eiga sér stað á Íslandi er einföldunarbylting. Við Íslendingar höfum því miður komið okkur upp alltof flóknu regluverki, sem er dálítið sérstakt með hliðsjón af því hvað við erum lausnamiðuð og viljum geta hreyft okkur hratt. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í ávarpi sínu á Iðnþingi 2021. Hún segir ferli og reglur séu vissulega nauðsynleg en á einhverjum tímapunkti hætti þær einfaldlega að bæta umhverfi okkar og byrja að spilla því. Ferli og reglur eigi að koma í veg fyrir að við hlaupum út í skurð, en þær megi ekki koma í veg fyrir að við getum hlaupið eða að við getum yfirhöfuð grafið skurði.

Sammála SI um nauðsyn þess að „hlaupa hraðar“

Í máli hennar kom fram að hún væri sammála Samtökum iðnaðarins um að nauðsynlegt væri að „hlaupa hraðar“ til að sækja þau tækifæri sem Ísland stæði frammi fyrir. „Fyrir um þrjátíu árum eða svo má segja að bylting hafi hafist á Íslandi sem leysti okkur úr mörgum gömlum viðjum. Hún er oftast kennd við frjálshyggju og gekk aðallega út á að draga ríkisvaldið út af mörgum sviðum þar sem það hafði verið alltumlykjandi, og auka frelsi einkaframtaksins til að eiga viðskipti og skapa verðmæti.“

Alltof íþyngjandi og umfangsmikið regluverk í byggingariðnaði

Hún segir samanburð við aðrar þjóðir vera ágætan mælikvarða á hæfilegt umfang regluverks. „Ég átti frumkvæði að því að fá OECD til liðs við okkur til að meta reglubyrði í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, til að varpa ljósi á samkeppnishæfni okkar hvað þetta varðar. Niðurstaðan var sláandi. Regluverkið er alltof íþyngjandi og umfangsmikið, ekki síst í byggingariðnaði. Við verðum að bæta úr þessu og að mínu mati vinna sambærilegar greiningar á fleiri sviðum samfélagsins. Við vitum vel að tækifærin til einföldunar eru víða, því að sums staðar virðumst við ekki lengur geta hlaupið fyrir regluverki,“ 

Í ávarpi sínu segir Þórdís Kolbrún meðal annars frá Græna dreglinum sem er samvinnuverkefni ráðuneytisins og Íslandsstofu sem ætlað er að greiða götu grænna fjárfestinga hér á landi, en skrifað var undir samkomulag um verkefnið í gær.

Hér er hægt að nálgast ávarp ráðherra í heild sinni. 

Hér er hægt að nálgast upptöku af ávarpi ráðherra:

https://vimeo.com/519853336

 

Si_idnthing_2021-7 

Si_idnthing_2021-9