Fréttasafn



1. feb. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Orka og umhverfi

Vinnustofa um innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði

Vinnustofa um innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði sem var skipulögð af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Arkitektafélagi Íslands, Eflu og Grænni byggð, í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Reykjavíkurborg og FSRE fór fram í Grósu 19. janúar. Um fjörutíu aðilar úr allri virðiskeðju byggingariðnaðarins, frá fasteignafélögum, verktökum, verkfræðistofum, arkitektastofum, stofnunum og stjórnvöldum tóku þátt í vinnustofunni. Fulltrúar SI í vinnustofunni voru Halldór Eiríksson, formaður Samtaka arkitektastofa, og Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI. Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri hjá Eflu, og Sigríður Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Hornsteini, stýrðu vinnustofunni. 

Í tilkynningu segir að niðurstaða vinnustofunnar sé skýr: Ísland stendur nágrannaþjóðum að baki þegar kemur að innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði og brýn þörf er fyrir breytingar.

Hvað þarf að gera?

  • Nýjar leikreglur
  • Markaðstorg fyrir notaðar byggingarvörur
  • Öflugt rannsóknasetur byggingariðnaðar
  • Hanna nýjar byggingar með áherslu á endurnýtingu og sveigjanleika
  • Endurhanna og nýta eldri byggingar
  • Grænt hvatakerfi fyrir byggingariðnaðinn
  • Sterkt samstarf allra hagaðila

Í tilkynningunni segir jafnframt að það sé ljóst að mikil þörf er á markvissu samtali og samvinnu þvert á alla virðiskeðjuna. Á fundinum var mikill samhljómur þátttakenda um mikilvægi þess að allur geirinn sameinist um að virkja aðferðir hringrásar í byggingariðnaði þvert á hagsmuni. Nú þegar er verið að vinna í þessum málum víða í samfélaginu en öll keðjan verði að taka saman höndum til að tryggja árangur.

Í upphafi fundar fengu þátttakendur innblástur frá erlendum sérfræðingunum, Helle Redder Momsen, skrifstofustjóra Nordic Sustainable Construction frá Danmörku og Alexander van Leersum, forstöðumanni Build to Impact í Rotterdam, Hollandi sem miðluðu af reynslu sinni af innleiðingu hringrásar í byggingar verkefnum. Arnhildur Pálmadóttir arkitekt og Áróra Árnadóttir hjá Grænni byggð fjölluðu um nýleg dæmi um verkefni hér á landi þar og almennt um stöðu mála á Íslandi varðandi innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði

Myndir/Víðir Björnsson

HH57Halldór Eiríksson hjá T.ark, formaður Samtaka arkitektastofa.

HH32Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri hjá Eflu.

HH33Bjartmar Steinn Guðjósson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.