Fréttasafn



11. jan. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Vöxtur í kortunum en ekki uppsagnir hér á landi

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að þveröfug staða sé uppi hér á landi í upplýsingatækniiðnaði en í fréttinni kemur fram að miklar uppsagnir síðasta árs í tæknifyrirtækjum í Bandaríkjunum haldi enn áfram. „Við sjáum engar vísbendingar um þetta sama hér á landi. Þvert á móti er einungis vöxtur í kortunum hér, í upplýsingatækni og hugverkaiðnaði heilt yfir.“ 

Skortur á mannauði hindrun 

Sigríður segir í ViðskiptaMogganum að skortur á mannauði sé hindrun fyrir áframhaldandi vöxt. „Við höfum lengi hvatt íslensk stjórnvöld til að greiða götu erlendra sérfræðinga til Íslands. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti aðgerðaáætlun þess efnis fyrir áramót, en það má enn gera betur og vinna þetta hraðar.“ Hún segir að uppsagnir hjá erlendum tæknifyrirtækjum geti skapað sóknarfæri fyrir Ísland. „Erlendir sérfræðingar sem missa vinnuna úti gætu komið hingað til starfa. Þetta er oft fólk sem er sveigjanlegt og vill kannski flytja til Íslands enda mörg áhugaverð tækifæri hér.“ 

Gríðarleg tækifæri í hugverkaiðnaði

Sigríður segir í ViðskiptaMogganum að stóra tækifærið sé að efla hugverkaiðnaðinn sem fjórðu útflutningsstoð Íslands og segir hún að það muni leiða til sjálfbærs hagvaxtar, hugverkaiðnaður geti orðið verðmætasta útflutningsstoðin í lok þessa áratugar, þar sé ekki um einhverja útópíska framtíðarspá að ræða. „En til að þetta verði að veruleika þurfum við níu þúsund manns inn í greinina á næstu fimm árum. Þetta er ákveðið lúxusvandamál.“ Í fréttinni kemur fram að 14 þúsund manns starfi í hugverkaiðnaði og sé hann um 16% af útflutningi Íslands. Sigríður nefnir einnig að of mörg dæmi séu um að hið opinbera taki til sín fólk úr upplýsingatækniíbeinni samkeppni við atvinnulífið. „Það er ekki gott fyrir verðmætasköpunina og útflutning. Ef sveitarfélag býr til dæmis til smáforrit eða nýjan hugbúnað verður það ekki selt úr landi með tilheyrandi margföldun verðmæta. Lífskjör okkar eru háð auknum útflutningstekjum og þar eru tækifærin í hugverkaiðnaði gríðarleg.“

ViðskiptaMogginn / mbl.is, 11. janúar 2023.

VidskiptaMogginn-11-01-2023