Fréttasafn



13. apr. 2021 Almennar fréttir

Ánægja með að fjármálum hins opinbera sé beitt

Á vef Fréttablaðsins er fjallað um umsögn SI við fjármálaáætlun ríkisins og þar segir að Samtök iðnaðarins lýsi ánægju sinni með að fjármálum hins opinbera sé markvisst beitt til að tryggja stöðugleika og skapa grundvöll fyrir efnahagsbata. Þá kemur fram í fréttinni að samtökin séu einnig ánægð með að áherslan sé á menntun, nýsköpun, efnislega innviði og starfsumhverfi. Með umbótum á þessum sviðum aukist framleiðni sem leiði til aukinnar hagsældar. Að sama skapi sé lagt til að auka samkeppniseftirlit með starfsemi opinberra fyrirtækja.

Í fréttinni kemur fram að samtökin segi að beita þurfi af fullum þunga fjármálum ríkis og sveitarfélaga til þess að skapa forsendur fyrir nýtt hagvaxtarskeið. „Nýta það svigrúm sem góð skuldastaða hins opinbera gefur til að reka hið opinbera með halla og örva þannig hagkerfið til vaxtar. Gæta að því að forgangsröðun sé rétt og að skuldasöfnun sé ekki umfram það sem mæta má með sjálfbærum hætti litið til framtíðar.“

Þá segir í fréttinni að Samtök iðnaðarins segi að gott og heilbrigt starfsumhverfi sé grunnforsenda þess að fyrirtæki dafni og styðji við efnahagslega velsæld íbúa. Með réttum aðgerðum á þessu sviði megi skapa störf og auka verðmæti. Þeim þykir mikilvægt að létta álögum af fyrirtækjum eins og kostur er, m.a. með lækkun tryggingagjalds og fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Það þurfi að beita tækjum peningastjórnunnar, lækka vexti og auka aðgengi fyrirtækja að fjármagni, enn frekar til þess að skapa skilyrði fyrir auknar fjárfestingar og vöxt í innlendri eftirspurn. Jafnframt kemur fram að það þurfi að vinna áfram að markvissri endurskoðun á gildandi regluverki með það að markmiði að einfalda regluverk og draga úr óþarfa reglubyrði og við setningu nýrra reglna skulu áhrif þeirra á atvinnulífið ávallt metin.

Frettabladid.is, 13. apríl 2021.