Fréttasafn



24. ágú. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Fjölga á leiguíbúðum þvert á vilja fólksins í landinu

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í hádegisfréttum Bylgjunnar þar sem hann segir að núverandi áætlanir fjölgi leiguíbúðum þvert á vilja þjóðarinnar. Hann skorar á innviðaráðherra að taka forystu í málaflokknum. Í frétt á Vísis segir að í greiningu SI segi að líklegt sé að leiguíbúðum með opinberum stuðningi muni fjölga meira en íbúðum fyrir séreignamarkað miðað við áherslur stjórnvalda í húsnæðismálum. Sigurður segir um 80% fólks búa í eigin húsnæði á móti 20% í leiguhúsnæði. „En ef við skoðum vilja fólks sem er í leiguhúsnæði, og sömuleiðis veltum fyrir okkur fjárhagslegri getu, þá sjáum við að markaðurinn væri í jafnvægi einhverstaðar í kringum 85/15. Vandinn er sá að miðað við stefnu stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, þá erum við að fara akkúrat í hina áttina á næstu 10 árum.“ Þá segir að of lítil áhersla sé lögð á uppbyggingu séreignahúsnæðis í rammasamkomulagi stjórnvalda um uppbyggingu 35 þúsund íbúða fram til ársins 2032. Gert sé ráð fyrir að fram til þess tíma muni leiguíbúðum með aðkomu hins opinbera fjölga um 85%, að þær fari úr 9.500 í 17.600. „Og það er bara einfaldlega þvert á vilja fólksins í landinu.“

Uppbygging verði í takt við þarfir og vilja landsmanna

Í fréttinni kemur jafnframt fram að sveitarfélög hafi greitt götu uppbyggingar á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. „Við skiljum það auðvitað að einhverju leyti, en á sama tíma hafa einkaaðilar, verktakar sem vilja byggja íbúðir og selja, fengið verri móttökur hjá sveitarfélögunum. Ríkið ætti að horfa meira til hlutdeildarlána heldur en stofnframlaga. Hlutdeildarlánin hjálpa fólki að eignast sitt eigið húsnæði, á meðan stofnframlögin miða að því að byggja upp félagslegt leiguhúsnæði. Ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin, með innviðaráðherra í fararbroddi, taki meiri forystu í húsnæðismálum og húsnæðisuppbyggingu, gagnvart sveitarfélögunum. Þannig að uppbyggingin verði raunverulega í takt við þarfir og vilja landsmanna.“

Vísir, 24. ágúst 2023.