Fréttasafn



23. sep. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Hugverkaiðnað þarf að setja í forgang á næsta kjörtímabili

Ný ríkisstjórn þarf að setja hugverkaiðnað og áframhaldandi fjárfestingu í nýsköpun í algjöran forgang á næsta kjörtímabili. Uppskeran af því verður ríkuleg fyrir alla landsmenn til langrar framtíðar og mun skapa eftirsótt og verðmæt störf á Íslandi fyrir framtíðarkynslóðir. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í grein í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni Við erum í dauðafæri.

Hún segir að ef rétt sé á málum haldið muni hugverkaiðnaður halda áfram að vaxa og dafna. Festa þurfi hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar í sessi í lögum. Þá þurfi að liðka verulega fyrir ráðningu erlendra sérfræðinga enda sé aðgangur að sérfræðiþekkingu á ýmsum sérhæfðum sviðum takmarkaður hér á landi og sé hindrun í vegi vaxtar fyrirtækja í hugverkaiðnaði. Sigríður segir að eitt stærsta efnahagsmálið sé að ryðja hindrunum úr vegi á þessu sviði. 

Hugverkaiðnaður orðin fjórða stoðin í útflutningi

Þá segir Sigríður í greininni að við stöndum frammi fyrir sögulegu tækifæri til að efla lífskjör hér á landi til langrar framtíðar. Hugverkaiðnaður hafi fest sig í sessi sem fjórða stoðin í útflutningi þjóðarbúsins. Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar námu 160 milljörðum króna á síðasta ári, í miðjum heimsfaraldri og tilheyrandi efnahagsóvissu. Aukinn útflutningur á þessu sviði sé ekki tilviljun. Aukningin sé afsprengi áræðinna frumkvöðla og markvissra aðgerða stjórnvalda. Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hafi aukist jafnt og þétt og tvöfaldast frá árinu 2013. Það sé kominn nýr keppandi í hagkerfið og hann sé í eðli sínu ólíkur öðrum útflutningsstoðum Íslands.

Nær ótakmörkuð vaxtatækifæri á alþjóðamörkuðum

Í greininni kemur fram að hugverkaiðnaður sé fjölbreyttur; tölvuleikjagerð, hugbúnaðarþróun, hátæknibúnaður fyrir matvælaframleiðslu, gagnavinnsla, líftækni, þróun lyfja og heilbrigðistækni. Sigríðu rsegir að það sem fyrirtæki innan hugverkaiðnaðar eigi sameiginlegt sé að þau byggjast upp á fjárfestingu í rannsóknum og þróun og þau hafa nær ótakmörkuð vaxtatækifæri á alþjóðamörkuðum. Lausnir við áskorunum í heilbrigðiskerfinu og loftslagsvandanum felist meðal annars í fjárfestingu í rannsóknum og þróun, nýsköpun og nýrri tækni. Græn tækni og heilbrigðistækni geti þannig á sama tíma átt þátt í lausn þessara stóru áskorana og skapað verðmæti fyrir þjóðarbúið og stækkað fjórðu stoðina.

Hugverkaiðnaður getur aukið stöðugleika

Jafnframt kemur fram í greininni að skattahvatar vegna rannsókna og þróunar, sem hafi verið auknir verulega á síðustu þremur árum, leiki stórt hlutverk í þessari þróun. Þannig hafi réttar ákvarðanir stjórnvalda leitt hratt til aukinna fjárfestinga í nýsköpun. Sigríðu segir að hækkun á endurgreiðslum sem fest var í lög í maí 2020 hafði strax jákvæð áhrif. Fjölmörg dæmi séu um fyrirtæki í hugverkaiðnaði sem sóttu fram, fjölguðu starfsfólki og juku fjárfestingu á sama tíma og fyrirtæki í mörgum öðrum atvinnugreinum fækkuðu starfsfólki vegna efnahagsóvissu. Hugverkaiðnaður geti þannig sveiflujafnað hagkerfið og aukið stöðugleika sem hefur verið langþráð markmið.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Morgunblaðið, 23. september 2021.

Morgunbladid-23-09-2021