Fréttasafn



26. nóv. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök leikjaframleiðenda

Starfsmönnum og fjárfestingum í tölvuleikjaiðnaði fjölgar

Vignir Örn Guðmundsson hjá CCP og formaður Samtaka leikjaframleiðenda, IGI, hélt erindi á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga um íslenskan tölvuleikjaiðnað. Yfirskrift fundarins var: Er leikjaiðnaður næsti vaxtargeiri Íslands? 

Í máli Vignis kom meðal annars fram að innan samtakanna væru 12 leikjafyrirtæki þar sem væru 94% starfsmanna í tölvuleikjaiðnaðinum hér á landi. Hann gerði grein fyrir helstu niðurstöðum  skýrslu sem samtökin unnu um íslenska leikjaiðnaðinn þar sem kemur meðal annar fram að þar eru starfandi 17 fyrirtæki með 345 starfsmenn og velti 8,3 milljörðum króna. Í máli Vignis kom fram að um 29% af starfsmönnum í tölvuleikjaiðnaðinum eru erlendir sérfræðingar.

Vignir sagði á fundinum að fjöldi starfsmanna hafi aukist í leikjaiðnaði á tímum COVID-19 og að uppsveifla væri í fagfjárfestingum í leikjaiðnaði með nýjum fjárfestingum á þessu ári hjá sex sprotafyrirtækjum. Hann sagði að ekki hefði meira verið fjárfest i leikjaiðnaðinum síðustu 7 ár að undanskilinni stórri fjárfestingu í CCP árið 2015. Þá kom fram hjá honum að fjöldi innlendra og erlendra fagfjárfesta hafi fjárfest í leikjaiðnaði á síðastliðnum áratug.

Í lok erindi síns stillti Vignir upp sviðsmyndum af íslenskum leikjaiðnaði árið 2030 þar sem iðnaðurinn væri í fullum blóma. 

Hér er hægt að nálgast glærur Vignis frá fundinum.

Picture1Stjórn Samtaka leikjaframleiðenda, IGI.