Fréttasafn



11. maí 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Tekjur íslenskra arkitekta hæstar í alþjóðlegum samanburði

Góðar umræður sköpuðust á fundi Samtaka arkitektastofa, SAMARK, sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins í vikunni þar sem rætt var um menntamál og stöðu greinarinnar. Í upphafi fundarins flutti fundarstjóri Jón Ólafur Ólafsson, formaður SAMARK, ávarp þar sem hann kom m.a. inn á mikilvægi menntunar. 

Hefja meistaranám í LHÍ 2019

Sigrún Birgisdóttir, deildarstjóri hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, flutti erindi sem bar yfirskriftina Að nema arkitektúr við Listaháskólann. Sigrún fór yfir uppbyggingu námsins í Listaháskólanum og ræddi um afdrif nemenda að loknu BA-námi. Í erindi Sigrúnar kom m.a. fram að 65% af þeim sem hafa útskrifast með BA-gráðu í LHÍ hafa lokið meistaranámi. Þetta þykir hátt hlutfall ef miðað er við nemendur heilt yfir í skólum í Evrópu. Þá sagði hún frá fyrirhuguðu mastersnámi sem nú er í undirbúningi og stefnt er að því að hefja haustið 2019 í Listaháskólanum.
Hér er hægt að nálgast glærur Sigrúnar.

Uppbygging náms í LBHÍ

Helena Guttormsdóttir, lektor/námsbrautarstjóri við Landbúnaðarháskóla Íslands, flutti erindið Höfum við gengið til góðs?. Helena fór yfir uppbyggingu námsins í LBHÍ og ræddi um afdrif nemenda að loknu grunnnámi. Þá kom hún m.a. inn á aðdragandann að stofnun námsbrautarinnar í LBHÍ.

Hæstu tekjur arkitekta hér á landi í alþjóðlegum samanburði

Vilhjálmur Hilmarsson, sérfræðingur í greiningum hjá Samtökum iðnaðarins, hélt erindi um stöðu greinarinnar. Í erindi Vilhjálms kom m.a. fram að samanborið við tekjur viðskiptahagkerfisins og tekjuvísitölu hefur greinin búið við mjög miklar sveiflur. Mikill fjöldi launþega starfa hjá arkitektastofum en gríðarleg aukning varð þar á á árunum 2003-2007 fram að algjöru hruni 2009. Árið 2016 var ekki enn búið að ná fyrri umsvifum. Vilhjálmur bar saman fjölda arkitekta á hverja 1.000 íbúa hér á landi m.v. önnur Evrópulönd og skoðaði tekjur í alþjóðlegum samanburði. Fjöldi arkitekta á hverja 1.000 íbúa er 50% meiri hér en Evrópumeðaltalið og hér voru árið 2016 hæstu tekjur á arkitekt í aljóðlegum samanburði. Þá sagði Vilhjálmur að 2% líkur væru á því að vélar mundu leysa arkitekta af hólmi í framtíðinni til samanburðar við 94% líkur á að endurskoðandi væri leystur af hólmi og 45% líkur á að vélar leysi hugbúnaðarverkfræðinga af hólmi.

Hér er hægt að nálgast glærur Vilhjálms.

Img_1390

Jón Ólafur Ólafsson, formaður SAMARK.

Img_1395

Sigrún Birgisdóttir, deildarstjóri hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands.

Img_1399

Helena Guttormsdóttir, lektor/námsbrautarstjóri við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Img_1415_1526042525046

Vilhjálmur Hilmarsson, sérfræðingur í greiningum hjá Samtökum iðnaðarins.