Matvælafyrirtæki

Matvælaiðnaður á Íslandi er ein af stærstu undirgreinum iðnaðarins með rúm 17% af heildarveltu í iðnaði. Þá er fiskvinnsla ekki talin með. Í matvælaiðnaði störfuðu á síðasta ári um 4000 manns sem nemur 12,7% af störfum í iðnaði eða 2,9% af heildarvinnuafli í landinu.

Fyrirtæki í matvælaiðnaði í Samtökum iðnaðarins eru um 90 talsins. Þar á meðal eru fyrirtæki í brauð- og kökugerð, framleiðslu tilbúinna rétta, kaffiframleiðslu, kjötiðnaði, kornvöruvinnslu, krydd- og bragðefnaframleiðslu, mjólkuriðnaði, niðursuðuiðnaði, pasta- og salatgerð, samlokugerð, sultu- og smjörlíkisgerð, sælgætis- og drykkjarvöruiðnaði, snakk- og kartöfluvinnslu. Langstærsti hópurinn eru bakarí sem eru um 40 talsins.

Öllum matvælafyrirtækjum í Samtökunum eru send boð bæði um fyrirtækjaheimsóknir og almenna fundi og öllum eru sendar fundargerðir. Fyrir utan almenna fundi eru haldnir fundir með undirgreinum matvælaiðnaðarins eftir því sem tilefni gefast.

Starfsgreinahópur í matvælaiðnaði hittist á almennum fundum nokkrum sinnum á ári. Fundarefni eru ýmist málefni sem eru ofarlega á baugi og snerta matvælaiðnaðinn eða heimsóknir í fyrirtæki innan hópsins. Í stjórn hópsins sitja fulltrúar u.þ.b. 10 fyrirtækja sem taka þátt í að móta starf hópsins og ákveða fundarefni fyrir reglulega fundi. Fulltrúum í stjórn er fjölgað eða fækkað eftir því hve margir sýna starfinu áhuga.

Bakarar eru í sérstöku félagi, Landsambandi bakarameistara, sem er með eigin stjórn og fjárhag. 

Tengiliður hjá SI: Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI,  gunnar@si.is.