Samtök menntatæknifyrirtækja - IEI

Samtök menntatæknifyrirtækja vinna að hagsmunum og stefnumálum menntatæknifyrirtækja.

IEI_2Samtök menntatæknifyrirtækja voru  stofnuð 23. nóvember 2022. Í Samtökum menntatæknifyrirtækja eru fyrirtæki sem öll starfa í menntatækniiðnaði sem er á alþjóðavísu metinn á 24.000 milljarða króna með ríflega 16% stöðugan vöxt milli ára. Menntatækni er rótgróin iðngrein sem á sér áratuga sögu en á Íslandi er greinin tiltölulega ung. Með aukinni nýtingu á menntatækni er hægt að umbylta kennsluaðferðum og ná meðal annars betri árangri í læsi og stærðfræði.

Þessi nýju samtök hafa það að markmiði að vinna að hagsmunum og stefnumálum menntatæknifyrirtækja, ásamt því að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í heild sinni íslensku menntakerfi til framdráttar. 

Heiti samtakanna á ensku er Icelandic Edtech Industry, IEI.

Tengiliður hjá SI: Erla Tinna Stefánsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, erla@si.is.

Stjórn


Stjórn kosin 2024

Stjórn kosin 2022

  • Íris E. Gísladóttir, formaður, Evolytes
  • Eloise Freygang, Beedle
  • Jón Gunnar Þórðarsson, Mussila
  • Helgi S. Karlsson, Beanfee
  • Hinrik Jósafat Atlason, Atlas Primer

Starfsreglur


Starfsreglur Samtaka menntatæknifyrirtækja

1. gr.

Samtök menntatæknifyrirtækja - IEI, starfa innan Samtaka iðnaðarins sem starfsgreinahópur um málefni greinarinnar. Samtökin heita á ensku Icelandic EdTech Industry.

2. gr.

Markmið IEI er að vinna að hagsmuna- og stefnumálum menntatæknifyrirtækja.

3. gr.

Aðild að IGI geta aðeins átt fyrirtæki sem eru aðilar að Samtökum iðnaðarins. Sækja þarf sérstaklega um aðild að IEI og tekur stjórn IEI ákvörðun um aðild.

Miðað er við að fyrirtæki innan greinarinnar séu hlutafélög (hf.), einkahlutafélög (ehf.) eða samvinnufélög (sf.) og starfi í menntatækni á Íslandi.

4. gr.

Stjórn IEI skipa 5 fulltrúar aðildarfyrirtækja, formaður og 4 meðstjórnendur, auk tveggja varamanna sé þörf á. Formaður er kosinn sérstaklega til eins árs í senn, en tveir meðstjórnendur árlega til tveggja ára í senn, þannig að aldrei gangi fleiri en þrír úr stjórn. Varamenn eru kosnir til eins árs í senn. Heimilt er að endurkjósa stjórnar- og varamenn.

5. gr.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda í samráði við tengilið IEI innan Samtaka iðnaðarins svo oft sem þurfa þykir. Formaður skal þó boða stjórnarfund ef stjórnarmaður krefst þess.

6. gr.

Stjórnarfundir IEI skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en tvisvar á ári að meðtöldum aðalfundi. Boða skal stjórn til fundar með bréfi eða tölvupósti.

7. gr.

Aðalfundur skal haldinn árlega. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum IEI. Til aðalfundar skal boða skriflega með bréfi eða tölvupósti, með minnst 14 daga fyrirvara. Aðeins þeir félagar, sem senda fulltrúa á aðalfund eða veita öðrum fulltrúa skriflegt umboð fyrir atkvæði sínu, hafa atkvæðisrétt.

Tillögur, sem óskað er eftir að teknar verði fyrir fundinn, þurfa að hafa borist stjórn félagsins a.m.k. 7 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Þær skulu sendar félagsmönnum með ekki skemmri en 5 daga fyrirvara.

8. gr.

Dagskrá aðalfundar:

1. Fundarstjóri kjörinn.

2. Ritari fundarins kjörinn.

3. Formaður flytur skýrslu stjórnar og flytur tillögur að verkefnaskrá næsta starfsárs.

4. Breytingar starfsreglna, ef fyrir liggja.

5. Kosning stjórnar:

a) formaður til eins árs

b) tveir meðstjórnendur og tveir til vara til eins árs

6. Stjórnarkjöri lýst

7. Önnur mál

9. gr.

Við atkvæðagreiðslu á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti. Allir fullgildir aðilar að IEI hafa jafnan atkvæðisrétt á fundum félagsins, þ.e. hverju fyrirtæki fylgir eitt atkvæði.

10. gr.

Til aukaaðalfundar er hægt að boða ef 2/3 félagsmanna fara fram á það við stjórn félagsins. Þá verði hann haldinn eigi síðar en 30 dögum eftir að stjórnin fær beiðni þess efnis.

11. gr.

Stjórnin skal skipta með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund.

12. gr.

Aðalfundur hefur heimild til að breyta starfsreglum þessum, að því tilskildu að a.m.k. helmingur félagsmanna sé viðstaddur og a.m.k. 2/3 greiði breytingunum atkvæði sitt.

Samþykkt á stofnfundi IEI þann 23. nóvember 2022