Félag skrúðgarðyrkju­meistara

Félag skrúðgarðyrkjumeistara gerðist aðili að Samtökum iðnaðarins árið 2003. Félagið leggur áherslu á fagleg vinnubrögð og þjónustu við viðskiptavini ásamt fræðslu og endurmenntun fyrir félagsmenn.

Félag skrúðgarðyrkjumeistara

Félag skrúðgarðyrkjumeistara var stofnað 1967. Félagið var stofnað úr Garðyrkjuverktakafélagi Íslands í samvinnu við Félag garðyrkjumanna. Þessi félög höfðu þá unnið að því í sameiningu að fá skrúðgarðyrkju samþykkta sem lögfesta iðngrein. Erindi var tekið fyrir á iðnþingi 1966 og eftir miklar umræður varð niðurstaðan með 45 atkvæðum gegn 21 að samþykkja álit þess efnis að mælt yrði með því að skrúðgarðyrkja yrði löggild iðngrein. Ráðuneyti samþykkti svo umsókn félaganna um löggildingu fagsins 1967.

Í grein í Vísi 1968 er sagt frá stofnun félagsins og almenningur varaður við réttindalausum mönnum. Það er málefni sem Félag skrúðgarðyrkjumeistara hefur unnið að í gegnum tíðina, að sýna fólki kosti þess að versla við faglærða aðila.

Skrúðgarðyrkjumeistarar eru ýmist með eigin rekstur eða vinna hjá opinberum aðilum. Rétt til inngöngu í félagið hafa þeir sem lokið hafa meistaraprófi í skrúðgarðyrkju. Árið 2006 var ákveðið að gera sveinum einnig kleift að ganga í félagið og hafa nokkrir nýtt það tækifæri til að taka þátt í starfi félagsins. Í félaginu eru bæði einstaklingar og fyrirtæki og helsta markið þess er að hlúa að faginu og stuðla að fagmennsku.

Heimasíða félagsins: www.meistari.is
Tengiliður hjá SI: Elísa Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, elisa@si.is.

Hér er hægt að nálgast upplýsingar um Ábyrgðarsjóð Meistaradeildar SI.

Stjórn


Stjórn 2023

  • Snjólfur Eiríksson, formaður
  • Berglind Ásgeirsdóttir, ritari
  • Ingibjörg Sigurðardóttir, varaformaður
  • Jóhann B. Skúlason, varamaður
  • Ragnar Steinn Guðmundsson, gjaldkeri
Stjórn 2022

  • Heiðar Smári Harðarson, formaður
  • Ragnar Steinn Guðmundsson, gjaldkeri
  • Berglind Ásgeirsdóttir, ritari
  • Hjörtur Þórðarson, varamaður
  • Þórir Kr. Þórisson, varamaður

Lög

Samþykkt á aðalfundi 26. feb. 1994

Breytt á aðalfundi 13. maí 2006

Breytt á aðalfundi 31. mars 2007

1. grein

Félagið heitir Félag skrúðgarðyrkjumeistara. Félagssvæði þess er landið allt.

2. grein

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

3. grein

Tilgangur félagsins er að ná saman öllum starfandi meisturum í skrúðgarðyrkju í skipulagðan félagsskap og gæta hagsmuna þeirra. Auk þess að annast kaup og kjarasamninga vegna meðlima sinna.

4. grein

Rétt til inngöngu í félagið hafa allir skrúðgarðyrkjusveinar. Félag skrúðgarðyrkjumeistara er aðili að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd þeirra atvinnurekenda innan félagsins sem uppfylla skilyrði þessara samtaka um aðild.

5. grein

Félagið skal vinna að því að félagar þess reki alla sína starfsemi á heilbrigðum og faglegum grundvelli. Óheimilt er félagsmanni að ganga í verk eða hluta úr verki sem annar félagsmaður hefur skriflegan samning um eða hafið framkvæmd á, nema til komi fullt samþykki þess er verkið hafði í byrjun og skal slík tilfærsla staðfest af stjórn félagsins.

6. grein

Inntökubeiðnir skulu vera skriflegar og sendast formanni, sem leggur þær fyrir stjórnarfund svo fljótt sem verða má, til staðfestingar.

7. grein

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og sendast formanni og skal hún afgreiðast á sama hátt og inntökubeiðnir.

8. grein

Stjórn félagsins skipa þrír menn: formaður, ritari og gjaldkeri, og tveir varamenn, kosnir til eins árs í senn. Kosið skal sérstaklega um hvert embætti, en varamenn raðast eftir atkvæðamagni. Ritari skal annast allar bréfaskriftir og halda gjörðabækur félagsins. Gjaldkeri sér um innheimtu gjalda til félagsins, annast greiðslur fyrir hönd þess og færir reikninga þess.

9. grein

Árgjöld skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert og skal stjórnin leggja fram tillögur þar um. Hið sama gildir um inntökugjöld. Gjalddagi árgjalda er á aðalfundi, gjaldkeri félagsins setur nánari reglur um eindaga. Allir félagsmenn skulu vera skuldlausir við félagið um áramót.

10. grein

Félagssjóður stendur straum af almennum rekstrarkostnaði félagsins þó er aðalfundi heimilt að leggja tekjuafgang eða hluta af tekjuafgangi félagsins í sjóð, ef einfaldur meirihluti lögmæts aðalfundar samþykkir tillögu hér um.

11. grein

Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eigum og fjárreiðum félagsins, og er skylt að ávaxta sjóði þess í banka, sem hefur baktryggingu í Seðlabanka Íslands.

12. grein

Aðalfundur félagsins skal haldin eigi síðar en 1. apríl ár hvert og til hans boðað bréflega með minnst 14 daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Til almenns félagsfundar skal boða með tölvupósti eða sms með minnst þriggja daga fyrirvara og er hann þá lögmætur. Aðra fundi skal halda þegar stjórn félagsins þykir með þurfa samkvæmt fundarályktun eða þegar þess er krafist fyrir hönd minnst 1/3 hluta fullgildra félagsmanna, enda sé jafnframt tilgreint vegna hvers, fundar er krafist.

13. grein

Sérhverjum félagsmanna ber að hlýða lögum og öllum löglega gerðum samþykktum félagsins, enda telst engin fullgildur félagi fyrr en hann hefur með eigin hendi undirritað lög þess og er sú undirritun jafnframt fjárhagslega bindandi gagnvart félaginu. Þá ber hverjum og einum félagsmanni að upplýsa stjórn félagsins ef hann verður þess áskynja að annar félagsmaður brjóti lög og samþykktir félagsins. Félagsfundur skal ákveða hverju sinni viðurlög við lagabrotum.

14. grein

Til breytinga á lögum þessum skal leggja breytingatillögu fyrir aðalfund. Lagabreytingatilögur þurfa að hafa borist stjórn félagsins minnst 20 dögum fyrir aðalfund og skal stjórnin geta þeirra í aðalfundarboði. Lög þessi öðlast þegar gildi.