Clean Tech Iceland - Samtök fyrirtækja í grænni tækni
Clean Tech Iceland er samstarfsvettvangur fyrirtækja í grænni tækni og starfa samtökin sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Clean Tech Iceland hefur það að markmiði að auka vöxt fyrirtækja sem starfa að umhverfisvænum tæknilausnum.
Samtök fyrirtækja í grænni tækni - Clean Tech Iceland - voru stofnuð 1. júní 2010 og starfa sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Í samtökunum eru fyrirtæki sem vinna að þróun og markaðssetningu á grænni tækni. Þau eru vettvangur fyrir aðila í þessum geira til að koma saman og bera saman bækur sínar og læra hver af öðrum, byggja upp tengslanet og nýta sér tengslanet hvors annars um leið og mótuð er skýr ásýnd á græn fyrirtæki hér á landi. Áherslurnar liggja á mörgum sviðum einkum í markaðsmálum, menntamálum, varðandi fjármögnun, þátttöku í norrænu starfi og að vera stjórnvöldum til stuðnings við stefnumótun.
Tækniþróun er lykilorð í umhverfismálum. Það er kallað eftir umhverfisvænni tækni á öllum sviðum. Margar þjóðir líta á það sem nauðsyn að leggja fé í tækni og þróun á þessu sviði, til að sitja ekki eftir í nýrri tæknibylgju. Ríki heims keppast við að byggja upp hjá sér græna tækni m.a. á sviði orkumála, auðlindanýtingar og úrgangsmála. Endurnýjanlegir orkugjafar og orkunýtni eru áberandi, enda ljóst að ef markmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda eiga að nást verður að gera breytingar í orkumálum.
Nú er farið að fjalla um fyrirtæki sem vinna að því að þróa umhverfisvænni tækni sem atvinnugrein út af fyrir sig. Þetta er við fyrstu sýn sundurleitur hópur en það sem fyrirtækin eiga sameiginlegt er að þau vinna að tækni sem er umhverfisvænni en hefðbundnar lausnir. Orkumál eru fyrirferðamikil, enda stendur orkunotkun á bak við stóran hluta þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losnar vegna mannlegra athafna. Önnur fyrirtæki huga að úrgangsmálum eða bættri hráefnanotkun.
Tengiliður hjá SI: Lárus M. K. Ólafsson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði, larus@si.is.
Stjórn
Stjórn 2014
Stjórn CTI kosin á aðalfundi í nóvember 2014
- K-C. Tran, formaður
- Jón Ágúst Þorsteinsson
- Hilmir Ingi Jónsson
- Sigurður Eiríksson
- Guðný Reimarsdóttir.
Starfsreglur
Starfsreglur Samtaka fyrirtækja í grænni tækni innan Samtaka iðnaðarins
1. gr.
Samtök fyrirtækja í grænni tækni, Clean Tech Iceland (CTI), starfa innan Samtaka iðnaðarins sem starfsgreinahópur um málefni fyrirtækja í grænni tækni.
Með grænni tækni er átt við tækni sem bætir framleiðsluferla, framleiðni, nýtni, hráefnanotkun eða orkunotkun og minnkar um leið úrgang, sóun eða mengun.
2. gr.
Markmið CTI er að vinna að hagsmuna- og stefnumálum fyrirtækja í grænni tækni.
3. gr.
Aðild að CTI geta aðeins átt fyrirtæki sem eru aðilar að Samtökum iðnaðarins. Sækja þarf sérstaklega um aðild að CTI og tekur stjórn CTI ákvörðun um aðild.
4. gr.
Stjórn skipa formaður og minnst fjórir en mest sex meðstjórnendur. Formaður er kosinn sérstaklega til eins árs í senn, en meðstjórnendur til tveggja ára í senn, þannig að aldrei gangi nema þrír úr stjórn. Heimilt er að endurkjósa stjórnarmenn en þeir skulu þó ekki sitja lengur en sex ár samfleytt í stjórn.
5. gr.
Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda í samráði við tengilið CTI innan Samtaka iðnaðarins svo oft sem þurfa þykir. Formaður skal þó boða stjórnarfund ef stjórnarmaður krefst þess.
6. gr.
Félagsfundir CTI skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en tvisvar á ári að meðtöldum aðalfundi. Boða skal félaga til fundar með bréfi eða tölvupósti.
7. gr.
Aðalfundur skal haldinn árlega, fyrir lok nóvember. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum starfsgreinahópsins. Til aðalfundar skal boða skriflega með bréfi eða tölvupósti, með minnst 15 daga fyrirvara. Aðeins þeir félagar, sem senda fulltrúa á aðalfund, hafa atkvæðisrétt. Tillögur, sem óskað er eftir að teknar verði fyrir fundinn, þurfa að hafa borist stjórn félagsins a.m.k. 7 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Þær skulu sendar félagsmönnum með ekki skemmri en 5 daga fyrirvara.
8. gr.
Dagskrá aðalfundar:
1. Kosinn fundarstjóri.
2. Kosinn ritari fundarins.
3. Formaður flytur skýrslu stjórnar og flytur tillögur að verkefnaskrá næsta starfsárs.
4. Breytingar starfsreglna, ef fyrir liggja.
5. Kosning stjórnar:
a) formaður til eins árs
b) tveir meðstjórnendur til tveggja ára og tveir til vara til eins árs
6. Lýst stjórnarkjöri
7. Önnur mál
9. gr.
Við atkvæðagreiðslu á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti. Allir fullgildir aðilar að starfsgreinahópnum hafa jafnan atkvæðisrétt á fundum félagsins, þ.e. hverju fyrirtæki fylgir eitt atkvæði.
10. gr.
Til aukaaðalfundar er hægt að boða ef 2/3 félagsmanna fara fram á það við stjórn félagsins. Þá verði hann haldinn eigi síðar en 30 dögum eftir að stjórnin fær beiðni þess efnis.
11. gr.
Stjórnin skal skipta með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund sem haldinn er í síðasta lagi innan 14 daga.
12. gr.
Aðalfundur hefur heimild til að breyta starfsreglum þessum, að því tilskildu að a.m.k. helmingur félagsmanna sé viðstaddur og a.m.k. 2/3 greiði breytingunum atkvæði sitt.
13. gr.
Samþykkt á stofnfundi Samtaka fyrirtækja í grænni tækni þann 1. júní 2010.
Fyrri stjórnir
Stjórn 2013
Stjórn CTI kosin á aðalfundi í nóvember 2013
- K-C. Tran, formaður
- Jón Ágúst Þorsteinsson
- Hilmir Ingi Jónsson
- Sigurður Eiríksson
- Guðný Reimarsdóttir.
Stjórn 2012
Stjórn CTI kosin á aðalfundi í nóvember 2012:
- KC Tran, Carbon Recycling International, formaður
- Eiríkur Sveinn Hrafnsson, Greenqloud
- Guðný Reimarsdóttir, Eco Nord
- Jón Ágúst Þorsteinsson, Marorka
- Hilmir Ingi Jónsson ReMake Electric
Stjórn 2011
Stjórn CTI kosin á aðalfundi 26. ágúst 2011:
- KC Tran, Carbon Recycling International, formaður
- Ásbjörn Torfason, Vistvæn Orka
- Eiríkur Sveinn Hrafnsson, Greenqloud
- Guðný Reimarsdóttir, Eco Nord
- Ingvar Kristinsson, Fjölblendi
Varamenn:
- Jón Ágúst Þorsteinsson, Marorka
- Axel Gunnlaugsson, ReMake Electric
Stjórn 2010
Samtök fyrirtækja um græna tækni voru stofnuð 1. júní 2010. Í stjórn eru:
- Jón Ágúst Þorsteinsson, Marorka, formaður
- Ásbjörn Torfason, Vistvæn orka,
- Guðný Reimarsdóttir, EcoProcess Nord
- Ingvar Kristinsson, Fjölblendir
- K. C. Tran, Carbon Recycling International
- Freyr Hólm Ketilsson, ReMake Electric
- Eiríkur Sveinn Hrafnsson, Greenqloud