Menntun

Vel menntað starfsfólk grunnurinn að samkeppnishæfni fyrirtækja

Menntun_1509613067917

Vel menntað og þjálfað starfsfólk er grunnur að samkeppnishæfni fyrirtækja og liður í því að auka framleiðni þeirra. Því þarf menntastefna að vera í takt við atvinnustefnu þjóðarinnar til að tryggja verðmætasköpun samfélagsins

Tryggja þarf að nauðsynleg fagmenntun sé í boði hérlendis og þróun og uppbygging öflugs fagháskólastigs því eitt af forgangsverkefnum samtakanna. Áhugaverð tækifæri eru í því fyrir ungt fólk að velja iðn-, verk- og tæknimenntun og er eftirspurn eftir öflugum einstaklingum á þessu sviði mikil, ekki aðeins hérlendis heldur einnig á alþjóðavísu. Samtökin eru meðal bakhjarla Háskólans í Reykjavík og Tækniskólans – skóla atvinnulífsins, eiga aðkomu að stjórn og vilja þannig tryggja fyrirtækjum aðkomu að uppbyggingu skóla bæði á framhalds- og háskólastigi.

IÐAN fræðslusetur og Fræðslumiðstöð rafiðnaðarins eru rekin af Samtökum iðnaðarins í samvinnu við önnur atvinnurekendafélög og launþegasamtök með aðkomu bæði að stjórn og fagsviðum þeirra. SI starfa með stjórnvöldum og þá sérstaklega mennta- og menningarmálaráðuneytinu að framgangi menntamála í landinu. Tengsl við framhaldsfræðsluna og þá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins eru sterk en aðkoma samtakanna er í gegnum Samtök atvinnulífsins.

Gróskumikið samstarf er innan húss atvinnulífsins í samvinnu við önnur atvinnurekendasamtök og Samtök atvinnulífsins og er hápunkturinn þar árleg menntaráðstefna atvinnulífsins með menntastofu Samtaka iðnaðarins. Töluvert samstarf er við aðra hagsmunaaðila s.s. sveitarfélög, launþegasamtök og grunn- framhalds- og háskólaskóla og símenntunarmiðstöðvar.

Yfirlit yfir starfsmenntamál Samtaka iðnaðarins 2015

Allt frá stofnun Samtaka iðnaðarins hefur farið fram mikil umræða og stefnumótandi vinna varðandi starfsmenntamál. Á undanförnum tveimur árum hefur berlega komið í ljós að eigi iðnaðurinn að hafa tök á því að ráða til sín faglærða iðnaðarmenn er mikilla breytinga þörf á skipulagi starfsmenntamála. Þó er ljóst að staða þessara iðngreina er um margt ólík bæði varðandi eftirspurn nemenda eftir greinum og eftirspurn eftir fagmönnum innan greinanna.

SI þjóna fjölmörgum atvinnugreinum í iðnaði. Nú eru 28 meistarafélög innan SI sem í eru fulltrúar um 28 löggiltra iðngreina. Sveinspróf hafa verið þreytt í samtals 49 greinum undanfarin 14 ár, frá 1999 til ársins 2013. Auk meistarafélaganna eiga fjölmörg stór og öflug fyrirtæki beina aðild að SI með hagsmuni sem taka þarf tillit til.

Nám innan löggiltra iðngreina er breytilegt hvað varðar fjölda nemenda, lengd náms og lengd vinnustaðanáms á móti skólanámi. Þá eru einnig dæmi um „samkeppni“ milli greina sem skilar dræmri þátttöku í síður vinsælar greinar.

Fámennar greinar eru einkennandi fyrir iðnnám á Íslandi. Af 49 löggiltum iðngreinum eru 36 þeirra með undir 10 útskrifaða sveina á ári að meðaltali frá 1999-2013. Þetta þýðir að ekki er farið af stað með námið á hverju ári auk þess sem þessir nemendur dreifast um allt land. Níu greinanna eru með nemendur á bilinu 10 til 50 og einungis fjórar þeirra eru með 50 eða fleiri nemendur að meðaltali á ári. Húsasmíði hefur verið langstærsta greinin með 116 sveinsprófsnema að meðaltali, næst er rafvirkjun með 87, þá vélvirkjun með 55 og að lokum hársnyrtifræði með 51 sveinsprófsnema að meðaltali.

Lengd náms innan greinanna er breytilegt. Nú er stysta námsleiðin er 2,7 ár og lengsta 4,25 ár. Þá er hlutur vinnustaðanámsins einnig mismunandi eða frá 0,5 ári í 2,6 ár. Innan rafiðnaðargreina hafa verið mótaðar tvær leiðir þar sem nemendur geta valið að gera hefðbundinn vinnustaðanámssamning sem tekur 1 ár eða verknámsleið í skólanum þar sem bóknámið er 0,5 ári lengra og verklegi hlutinn tekur 0,5 ár.

Samkeppni er bæði milli greina og innan greina. Þetta á það við um málm- véltækni- og framleiðslugreinar, farartækja- og flutningsgreinar og sjávarútvegs- og siglingagreinar sem hafa sameiginlegt tveggja ára grunnnám. Þetta er þó mismunandi milli skóla og fer eftir því hvaða nám þeir bjóða upp á. 

Í dag starfa 12 starfsgreinaráð á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. SI eiga aðild að sjö þeirra í gegnum SA: upplýsinga- og fjölmiðlagreinar, snyrtigreinar, matvæla- veitinga og ferðaþjónustugreinar, bygginga- og mannvirkjagreinar, málm- véltækni- og framleiðslugreinar, hönnunar- og handverksgreinar og rafiðngreinar.

Starfsgreinaráðin eru samstarfsvettvangur ráðuneytis, atvinnurekenda, launþega og skóla og hafa meðal annars umsagnarrétt yfir námsskrám og umsjón með sveinsprófum og nemaleyfum auk þess að vera ráðgefandi varðandi málefni sem tengjast greinunum, s.s. við mótun íslenska hæfnisrammans o.fl. Starfsgreinanefnd er síðan ætlað það hlutverk að vera samnefnari starfsgreinaráðanna og þar sitja formenn þeirra ásamt formanni skipuðum af ráðuneytinu.

IÐAN fræðslusetur sem hefur það meginhlutverk að bæta hæfni fyrirtækja og starfsmanna í bílgreinum, bygginga- og mannvirkjagreinum, matvæla- og veitingagreinum, málm- og véltæknigreinum og upplýsinga- og fjölmiðlagreinum og móttekur til þess endurmenntunargjald sem greitt er skv. kjarasamningum. Auk þess er IÐAN með þjónustusamning við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna umsýslu með vinnustaðanámssamninga, sveinspróf, nemaleyfi, starfsgreinaráð og þjónustu vegna vinnustaðanámssjóðs. IÐAN er í 33% eigu Samtaka iðnaðarins en aðrir eigendur eru önnur atvinnurekendafélög og launþegahreyfingar. Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins og Rafiðnaðarskólinn gegna svipuðu hlutverki innan rafiðnaðargreina og eru í eigu SART og RSÍ.


Tengdar fréttir

Iðnnemar fá dvalarleyfi á Íslandi með breyttum lögum - Almennar fréttir Menntun

Á Alþingi voru samþykktar breytingar á útlendingalöggjöfinni sem dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, lagði fyrir þingið.

Breyta lögum hið snarasta svo iðnnám verði nám í skilningi laga - Almennar fréttir Menntun

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í grein sinni í Morgunblaðinu að standa eigi við þau orð að breyta útlendingalöggjöfinni. 

Aukið fé til að efla iðn- og verknám - Almennar fréttir Menntun

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, segir í viðtali á Bylgjunni að setja eigi aukið fé í framhaldsskóla gagngert til að efla iðn- og verknám.