Hvað er Íslenskt – gjörið svo vel?
Íslenskt – gjörið svo vel er kynningarátak sem hófst árið 2018. Tilgangur átaksins er að efla vitund Íslendinga á íslenskum vörum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er verndari átaksins.
Íslenskt - gjörið svo vel hófst sem samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka atvinnulífsins og Bændasamtaka Íslands.
Fyrirtæki sem framleiða eða selja íslenskar vörur hafa verið hvött til að taka þátt í átakinu þar sem miðað er við að myndmerkið sé hægt að nota á þær vörur sem uppfylla skilyrði fánalaga. Fyrirtæki og framleiðendur sem taka þátt í átakinu geta nýtt myndmerki þess á umbúðir, heimasíður, samfélagsmiðla og annað kynningarefni.
Hér er hægt að nálgast myndmerkið.
Tíminn til að kaupa íslenskar vörur
Samtök iðnaðarins hvetja landsmenn til kaupa á íslenskum vörum í auglýsingu sem birt er 27. mars 2020 þar sem segir: „Nú er tíminn til að kaupa íslenskar vörur. Styðjum við innlenda framleiðslu sem skapar störf og verðmæti fyrir samfélagið allt. Þannig höldum við okkur gangandi. Úrvalið og gæðin þekkjum við öll. Gjörið svo vel!“
Íslenskar vörur í innkaupakörfuna
Í febrúar 2020 voru birtar auglýsingar þar sem vakin var athygli á íslenskum vörum með þessum texta: Með því að setja íslenskar vörur í innkaupakörfuna styðjum við innlenda framleiðslu sem skapar verðmæti og störf fyrir samfélagið allt. Úrvalið, gæðin og ferskleikann þekkja allir. Gjörið svo vel!
Fyrstu auglýsingarnar
Vefsíða
Efnt var til leiks 2018 þar sem landsmönnum gafst kostur á að setja saman lista og deila honum á samfélagsmiðlum frá vefsíðunni gjoridsvovel.is. Vinningar voru allir íslenskir. Meðal þess voru gjafabréf frá 66°N, ekta íslenskar lopapeysur frá Handprjónasambandinu, Fuzzy-stóllinn frægi, gjafabréf frá Orr og Aurum, sem og veglegar gjafakörfur fullar af ýmist íslensku sælgæti, mjólkurvörum, kjöti, bakkelsi eða drykkjum.
Íslenskir dagar 7.-20. apríl 2019
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem er verndari átaksins Íslenskt – gjörið svo vel setti með formlegum hætti Íslenska daga í verslun Bónus í Garðatorgi sunnudaginn 7. apríl. Innlendir matvælaframleiðendur og verslanir hafa tekið höndum saman og ætla að vekja athygli á úrvali íslenskra vara í fjölmörgum verslunum víða um land fram til 20. apríl. Af þessu tilefni var sérstök bók með myndum af úrvali íslenskra vara afhent forseta Íslands til varðveislu á Bessastöðum.
Að baki átakinu Íslenskt – gjörið svo vel standa Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Samtök verslunar og þjónustu og Bændasamtök Íslands. Átakið hófst í nóvember síðastliðnum þegar landsmönnum gafst kostur á að fara inn á vefsvæðið gjoridsvovel.is til að setja saman lista yfir þær íslensku vörur sem ætti að bjóða erlendum gestum. Tilgangur átaksins er að efla vitund Íslendinga á íslenskum vörum en átök sem þessi hafa verið reglulega undanfarin ár. Fyrirtæki sem framleiða eða selja íslenskar vörur geta tekið þátt í átakinu. Miðað er við vörur sem uppfylla þau skilyrði sem fram koma í fánalögum. Þau fyrirtæki og þeir framleiðendur sem taka þátt í átakinu fá aðgang að myndmerki þess og geta nýtt það á umbúðir, heimasíður, samfélagsmiðla eða annað kynningarefni sitt.
- Eftirtaldir framleiðendur eru þátttakendur: SS, Ali, Nói Síríus, Matfugl, Ferskar kjötvörur, Landssamband bakarameistara, Kjörís, Myllan, MS, Sölufélag garðyrkjubænda, Iðnmark, Ölgerðin, Kjarnafæði, Móðir náttúra, Pottagaldrar, Vilko, Kaffitár og Nýja kaffibrennslan.
- Eftirtaldar verslanir eru þátttakendur: Bónus, Krónan, Melabúðin, Nettó, Hagkaup, Nóatún og Kjörbúðin.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, afhenti forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, bók sem gerð var af þessu tilefni.
Frá setningu Íslenskra daga, talið frá vinstri, Karl Eiríksson, Valentína Björnsdóttir, eigendur Móðir Náttúra, Margrét Kristín Sigurðardóttir frá SI, Hörður Vilberg frá SA, Árni Sigurjónsson, varaformaður SI, forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Elín Edda Alexandersdóttir, verslunarstjóri Bónus í Garðatorgi.
Íslensk húsgögn
Í tilefni þess að íslensk húsgögn prýða nú suðurstofu Bessastaða var efnt til átaks til að vekja athygli á íslenskum húsgögnum og húsgagnaframleiðendum undir yfirskrift Íslenskt - gjörið svo vel. Auglýsingar voru birtar í blöðum, á samfélagsmiðlum og vefmiðlum.
Samtök iðnaðarins gáfu einnig út kynningarbækling um íslensk húsgögn.
Frá afhendingu íslenskra húsgagna og hönnunar á Bessastöðum 12. júní 2019.