Lög Samtaka iðnaðarins

Síðast breytt á Iðnþingi 9. mars 2017

Lög Samtaka iðnaðarins

I. Heiti, heimili og hlutverk

1. gr.

Félagið heitir Samtök iðnaðarins, skammstafað SI. Heimili þess, varnarþing og skrifstofa er í Reykjavík. Heimilt er að reka skrifstofur eða útibú annars staðar, innanlands eða utan.

2. gr.

Samtök iðnaðarins eru vettvangur fyrirtækja, einstaklinga og félaga í iðnaði og tengdum greinum.

Meginhlutverk Samtaka iðnaðarins er að:

· Þjóna íslenskum iðnaði og gæta hagsmuna hans á innlendum og erlendum vettvangi.

· Hafa áhrif á stefnu stjórnvalda, fjármálastofnana, opinberra stofnana og annarra sem tengjast starfsemi iðnaðarins, með það að markmiði að íslenskum fyrirtækjum verði búin starfsaðstaða sem gerir þau samkeppnishæf á innlendum og erlendum mörkuðum, án hindrana og með arðbærum hætti.

· Fylgjast vel með alþjóðlegri samningagerð á vegum opinberra aðila og aðstoða þá við að meta þá þætti slíkra samninga er varða hagsmuni iðnaðarins hér á landi og á erlendum mörkuðum.

· Eiga samstarf við hliðstæð samtök erlendis og vera aðilar að alþjóðasamtökum þeirra til þess að fylgjast betur með og hafa áhrif á þróun atvinnulífs, starfsskilyrði og viðskipti á alþjóðavettvangi.

· Leggja áherslu á að menntun starfsfólks og stjórnenda í iðnaði sé eins góð og kostur er og að hún stuðli að eðlilegri tækniþróun og falli að þörfum hans.

· Stuðla að félagslegum, faglegum og efnahagslegum framförum í iðnaði með upplýsinga- og fræðslustarfsemi meðal sinna félaga m.a. um breytingar og túlkun á lögum og reglum sem snerta iðnaðinn hér á landi og á alþjóðavettvangi. Standa fyrir margvíslegri fag- og sérfræðiþjónustu við félaga sína m.a. á sviði markaðsmála, nýsköpunar, gæðamála og framleiðslu með útgáfu fræðsluefnis og kynningar- og fræðslufundum.

· Vinna að viðskipta- og hagrannsóknum til þess að fylgjast með starfsskilyrðum iðnaðarins og samanburði við aðrar greinar atvinnulífsins innanlands og erlendis.

· Gæta hagsmuna iðnaðarins við kjarasamningsgerð Samtaka atvinnulífsins.

· Vera málsvari sinna félagsaðila út á við og álykta fyrir þá varðandi mál sem varða hagsmuni þeirra og opinbera umfjöllun.

Vinna að almennri kynningu á íslenskum iðnaði og hvetja með aðgerðum sínum almenning og opinbera aðila til þess að nýta innlenda framleiðslu að öðru jöfnu.

Standa vörð um hagsmuni félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart opinberum aðilum og öðrum stofnunum, samtökum og fyrirtækjum í þeim málum sem hagsmuni þeirra varða. Í því felst m.a. að samtökin geta komið fram fyrir hönd félagsmanna, eins eða fleiri, fyrir dómstólum og stjórnsýslunefndum í málum sem varða sameiginlega jafnt sem einstaklingsbundna hagsmuni þeirra.

II. Aðild að SI

3. gr.

Aðilar að SI geta orðið fyrirtæki og sjálfstæðir atvinnurekendur sem starfa í iðnaði og tengdum greinum.

4. gr.

Samtök fyrirtækja, þar á meðal iðngreina- og meistarafélög, geta fyrir hönd félagsmanna sinna gerst aðilar að Samtökum iðnaðarins fyrir hönd þeirra atvinnurekenda sem uppfylla skilyrði SI. Gerast þá allir atvinnurekendur innan viðkomandi samtaka aðilar að SI. Fyrirtæki iðnmeistara skulu gerast aðilar að SI í gegnum viðkomandi meistarafélag, sé þess kostur.

Eignir, skuldir, réttindi og skuldbindingar samtaka fyrirtækja sem ekki eru lögð niður við inngöngu félagsmanna í Samtök iðnaðarins eru SI óviðkomandi, nema um annað sé sérstaklega samið.

Einstakir atvinnurekendur sem eðli málsins samkvæmt heyra ekki til samtaka fyrirtækja innan SI, eða telja sér af ástæðum, sem stjórn SI metur gildar, ekki fært að vera aðili að neinu slíku félagi, geta átt beina aðild að SI.

5. gr.

Samtök iðnaðarins eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins annast gerð kjarasamninga og taka ákvarðanir um vinnustöðvanir fyrir hönd aðildarfyrirtækja SI, annarra en þeirra sem takmarkað hafa aðild sína við þjónustudeild Samtaka atvinnulífsins. Innganga í SI felur jafnframt í sér beina aðild að Samtökum atvinnulífsins með þeim réttindum og skyldum sem kveðið er á um í samþykktum þeirra.

6. gr.

Inntökubeiðni í SI skal vera skrifleg og sendast skrifstofu SI. Með inntökubeiðni skulu fylgja upplýsingar um stjórn, stjórnendur, starfssvið, launagreiðslur og veltu. Umsókn samtaka fyrirtækja skulu fylgja lög og félagatal.

Leggja skal inntökubeiðni fyrir stjórn SI til afgreiðslu á fyrsta fundi hennar eftir að umsókn er móttekin. Telst inntökubeiðni samþykkt ef meirihluti stjórnar samþykkir hana og tekur aðild þá þegar gildi.

Áfrýja má til Iðnþings eða félagsfundar afgreiðslu stjórnar á inntökubeiðni.

III. Úrsögn og brottvikning

7. gr.

Heimilt er að segja sig úr SI með skriflegri tilkynningu með sex mánaða fyrirvara. Þó má hvorki segja sig úr SI né fara úr þeim, meðan vinnudeila, sem snertir hlutaðeigandi aðildarfélag eða fyrirtæki, stendur.

Þeir sem segja sig úr SI eiga ekki kröfu til neins endurgjalds á framlögum sínum til SI né nokkurs hluta af eignum þess.

8. gr.

Stjórn SI er heimilt að víkja félagsaðila úr SI, ef sérstök og rökstudd ástæða þykir til, og sú ákvörðun er samþykkt af 2/3 hlutum stjórnarinnar. Vilji félagsaðili ekki hlíta úrskurði stjórnarinnar, getur hann skotið máli sínu til Iðnþings eða næsta félagsfundar.

Stjórn SI er heimilt að má af félagaskrá þá félaga, sem hafa ekki greitt árgjöld sín til félagsins í eitt ár eða lengur eða eru hættir störfum. Félagsmönnum skal ætíð tilkynnt bréflega um brottvikningu úr félaginu eða útstrikun af félagskrá.

Úrsögn eða brottvikning leysir félagsaðila ekki undan greiðslu áfallinna félagsgjalda.

IV. Félagsgjöld og atkvæðamagn

9. gr.

Almennt félagsgjald til SI reiknast að hámarki sem 0,15% af veltu liðins árs. Stjórn SI er heimilt að ákveða að innheimta lægra almennt félagsgjald.

Félagsaðilum er skylt, óski SI þess, að senda þeim nauðsynlegar upplýsingar úr ársreikningum sínum þ.m.t. um veltu og launagreiðslur, vegna álagningar félagsgjalda. Heimilt er að áætla félagsgjald á félagsaðila sem ekki gefur nauðsynlegar upplýsingar til grundvallar álagningu. SI er heimilt að afla upplýsinga um rekstur félagsaðila í þessu skyni frá opinberum aðilum, enda sé farið með þær upplýsingar sem trúnaðarmál.

Við álagningu félagsgjalda er heimilt að draga frá veltu húsaleigutekjur enda óski félagsaðili sérstaklega eftir því og skal honum þá skylt að leggja fram staðfestingu frá endurskoðanda eða öðrum sambærilegum aðila.

Félagsgjöldum ársins skal skipta í jafnar greiðslur samkvæmt ákvörðun stjórnar, mest tólf greiðslur en minnst fjórar greiðslur. Greiðslur er heimilt að miða við áætlun sem síðan leiðréttist á síðasta reikningi ársins, eða þegar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir.

Stjórn SI ákvarðar hámarks- og lágmarksárgjald fyrir hvert ár. Stjórnin getur einnig sett reglur um hámarkshlutfall félagsgjalda af launakostnaði félagsaðila á liðnu ári.

Auk framangreindra félagsgjalda innheimtist félagsgjald til Samtaka atvinnulífsins í samræmi við reglur þess og samninga þar um milli samtakanna.

10. gr.

Á félagsfundi og Iðnþingi hefur hver félagsaðili atkvæðamagn í hlutfalli við greitt félagsgjald fyrir næstliðið ár. Fái félagsaðili afslátt af félagsgjöldum vegna skilvísra greiðslna reiknast fjárhæð afsláttar jafnframt til atkvæðamagns, í samræmi við 2. mgr. 10. gr. Skal honum send tilkynning þar um fyrir stjórnarkjör sem fram fer í tengslum við Iðnþing ár hvert og gildir það atkvæðamagn fyrir hvern og einn félagsaðila til næsta stjórnarkjörs að ári.

Hverjum heilum 1000 (eittþúsund) krónum í greiddum félagsgjöldum fylgir eitt atkvæði.

Samtök fyrirtækja, þar með talin iðngreina- og meistarafélög, fara með atkvæði félagsmanna sinna. Einstakir félagsmenn eða félagið í heild sinni getur ákveðið að hver félagsmaður fari með sitt atkvæði og verður tilkynning að hafa borist Samtökum iðnaðarins tveimur vikum fyrir Iðnþing.

Framkvæmdastjórar eða stjórnarmenn aðildarfélaga fara með umboð þess félags. Heimilt er þó að fela umboðið öðrum.

V. Aðalfundur – Iðnþing

11. gr.

Aðalfundur SI heitir Iðnþing og hefur æðsta vald í öllum málefnum SI.

Iðnþing skal fara fram í tveimur hlutum. Fyrri hluti er eingöngu fyrir félagsmenn þar sem dagskrá og reglur skulu vera í samræmi við 12. og 13. gr. Seinni hluti er opið málþing um hagsmunamál iðnaðarins í víðu samhengi.

Iðnþing skal halda eigi síðar en 30. apríl ár hvert og skal boða til þess með minnst tveggja vikna fyrirvara með bréfi, tölvupósti, auglýsingum í blöðum eða á annan sannanlegan og tryggilegan hátt.

Í fundarboði skal getið dagskrár Iðnþings og tillögur að lagabreytingum.

Iðnþing er lögmætt ef löglega hefur verið til þess boðað án tillits til fundarsóknar nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

12. gr.

Atkvæðagreiðsla á Iðnþingi skal vera skrifleg ef 1/5 hluti fundarmanna krefst þess.

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í öllum málum, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

13. gr.

Á dagskrá Iðnþings skulu tekin fyrir þessi mál:

1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.

2. Framkvæmdastjóri leggur fram til úrskurðar endurskoðaða ársreikninga SI fyrir liðið almanaksár, með athugasemdum endurskoðanda.

3. Tillaga stjórnar um fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.

4. Lagabreytingar enda séu þær kynntar í fundarboði.

5. Launakjör stjórnarmanna

6. Lýst kjöri formanns og meðstjórnenda.

7. Kjör í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins.

8. Kjörinn löggiltur endurskoðandi.

9. Kosinn kjörstjóri og tveir aðstoðarmenn hans.

10. Önnur mál.

VI. Félagsfundur

14. gr.

Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald milli Iðnþinga í öllum málefnum SI innan þeirra marka sem lög þessi setja.

Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað án tillits til fundarsóknar."

15. gr.

Félagsfundi skal halda þegar stjórn SI þykir við þurfa, eða ef félagsaðilar sem fara með minnst 1/5 hluta atkvæða óska þess. Ósk um félagsfund skal senda stjórn SI og ber henni þá að boða til félagsfundar með tryggilegum hætti án tafar, en þó með minnst þriggja daga fyrirvara, nema sérstaklega standi á.

Í fundarboði skal stuttlega getið þeirra mála sem taka skal fyrir á fundinum. Ályktunum um mál sem ekki er getið í fundarboði skal vísa til stjórnar.

16. gr.

Hverjum fundi stýrir formaður eða kjörinn fundarstjóri. Hann skal kynna sér í fundarbyrjun hvort löglega er til fundarins boðað og úrskurða þar um. Hann velur fundarritara úr hópi fundarmanna.

Fundarstjóri skal stjórna atkvæðagreiðslu og annarri málsmeðferð. Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg ef 1/5 hluti atkvæðisbærra fundarmanna krefst þess.

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum málum öðrum en þeim sem lög þessi kveða á um.

Í fundargerðum skulu koma fram allar samþykktir félagsfunda og stutt skýrsla um annað það sem gerist á félagsfundum. Fundargerð skal undirrituð af fundarstjóra og fundarritara og telst hún að þessum formsatriðum uppfylltum fullt sönnunargagn þess sem fram fór á fundinum.

VII. Stjórn, verkefni stjórnar og stjórnarkjör

17. gr.

Stjórn SI skipa tíu menn, formaður og níu meðstjórnendur og fer hún með yfirstjórn SI milli félagsfunda.

Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir Iðnþing og kýs úr sínum hópi varaformann og ritara.

18. gr.

Stjórn SI heldur fundi eftir því sem þörf krefur og formaður ákveður. Formaður boðar til fundar á tryggilegan hátt með a.m.k. viku fyrirvara. Formaður getur þó ákveðið skemmri frest telji hann það óhjákvæmilegt vegna sérstakra aðstæðna. Formanni er skylt að boða til fundar ef tveir meðstjórnendur óska þess.

Stjórnarfundur er lögmætur ef hann sækja auk formanns minnst fjórir meðstjórnendur, eða fimm meðstjórnendur án formanns. Falli atkvæði jafnt við atkvæðagreiðslu í stjórn SI ræður atkvæði formanns úrslitum.

Ákvarðanir stjórnarfunda skal skrá í fundargerðir og skulu þær undirritaðar.

Alla samninga og skuldbindingar sem stjórnin gerir fyrir hönd Samtakanna samkvæmt lögum þessum og ákvörðunum félagsfunda eru bindandi fyrir alla félagsaðila, þó málefnið hafi ekki verið undir þá borið. Allar samþykktir félagsfunda skal kynna félagsaðilum svo fljótt sem verða má. Samningar sem skuldbinda Samtökin eða fela í sér meiriháttar ráðstöfun á eignum þess skulu undirritaðar af formanni, eða varaformanni og þrem öðrum stjórnarmönnum.

19. gr.

Formaður er kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur eru jafnframt kosnir til tveggja ára í senn og ganga því fjórir þeirra út annað árið en fimm hitt. Komi einungis fram jafnmörg framboð til stjórnar og kjósa á um, skal engu að síður fara fram kosning.

Kjörgengir eru einstaklingar sem eiga aðild að SI og þeir sem sinna daglegum stjórnunarstörfum eða sitja í stjórn hjá félagsaðila. Einstaklingar sem tilkynnt hafa um úrsögn sína úr Samtökum iðnaðarins sem og þeir einstaklingar sem starfa hjá eða sitja í stjórn hjá félagsaðila sem hefur tilkynnt um úrsögn missa kjörgengi sitt frá því tilkynning berst Samtökum iðnaðarins skv. 7. gr.

Við kjör meðstjórnenda hljóta þeir fjórir eða fimm sem flest atkvæði hljóta, kosningu sem stjórnarmenn til tveggja ára. Þeir menn sem næstir koma að atkvæðamagni eru réttkjörnir varamenn og skulu taka sæti aðalmanna í stjórn, í samræmi við atkvæðafjölda á Iðnþingi.

Ef stjórnarmaður forfallast varanlega eða missir kjörgengi á milli Iðnþinga skal stjórnarmaður þegar víkja úr stjórn. Tekur sá sæti hans er næstur var að atkvæðafjölda við síðasta stjórnarkjör og skal hann ganga úr stjórn þegar kjörtímabili þess stjórnarmanns lýkur, sem hann tók sæti fyrir.

Hafi formaður setið samfleytt í sex ár má eigi endurkjósa hann fyrr en minnst tvö ár eru liðin frá því að hann lét af formennsku. Á sama hátt má eigi kjósa stjórnarmann sem setið hefur í stjórn samfleytt í sex ár, fyrr en minnst tvö ár eru liðin frá því að hann fór úr stjórn. Starfsár stjórnarmanns sem formanns eru ekki talin með í þessu samhengi.

20. gr.

Kjörnefnd, þ.e. kjörstjóri og tveir aðstoðarmenn hans, er kosin á Iðnþingi. Kjörnefnd annast undirbúning kosninga, ásamt starfsmanni SI. Kjörnefnd skal óska eftir framboðum til stjórnarkjörs með bréfi til félagsmanna minnst 30 dögum fyrir Iðnþing og senda út lista yfir þá sem bjóða sig fram. Í bréfinu skal gefinn hæfilegur framboðsfrestur.

Einungis þeir geta boðið sig fram til stjórnar SI sem kjörgengir eru við lok framboðsfrests.

Kosning fer fram með rafrænum hætti og skal hver félagsmaður fá sent með tölvupósti, minnst tveimur vikum fyrir Iðnþing, lykilorð og vefslóð sem nota skal við kosninguna ásamt upplýsingum um atkvæðamagn og frambjóðendur. Sé þess sérstaklega óskað er heimilt að senda félagsmanni upplýsingar um kosningu bréflega.

Merkja skal við nöfn þeirra manna sem atkvæði skulu hljóta, annars vegar formanns og hins vegar minnst þriggja og mest fjögurra eða fimm meðstjórnenda, að teknu tilliti til fjölda stjórnarsæta sem kosið er um hverju sinni. Ekki er heimilt að greiða sama manni atkvæði sem formanni og meðstjórnanda, en sé það gert verður atkvæði ógilt. Kjörstjóri úrskurðar um vafaatkvæði.

Atkvæðagreiðslu vegna stjórnarkjörs lýkur kl. 12:00 daginn fyrir Iðnþing. Óheimilt er að gera kunnugt um atkvæðatölur fyrr en kosningu er lýst á Iðnþingi.

VIII. Starfsgreinahópar og framkvæmdastjóri

21. gr.

Innan SI skulu starfa starfsgreinahópar. Fjöldi þeirra fer eftir þörf og ákvörðun stjórnar SI á hverjum tíma.

Hver starfsgreinahópur skal að jafnaði starfa eftir samþykktum starfsreglum og kjósa sér stjórn. Kjörgengir eru þeir einir sem sinna daglegum stjórnunarstörfum eða sitja í stjórn hjá félagsaðila.

22. gr.

Stjórn SI ræður framkvæmdastjóra SI og setur honum starfsreglur.

Framkvæmdastjóri stýrir starfsemi SI í samráði við stjórnina og fer með prókúruumboð. Hann ræður starfsfólk og hefur á hendi daglegan rekstur og eftirlit. Einnig gerir hann tillögur til stjórnar varðandi rekstur SI og áherslur í starfsemi þeirra.

Framkvæmdastjóri má ekki sinna launuðum störfum utan SI nema með samþykki stjórnar.

IX. Önnur ákvæði

23. gr.

Fyrir miðjan febrúar ár hvert skal skrifstofa SI hafa lokið við gerð ársreiknings fyrir liðið almanaksár og sent hann endurskoðanda SI, en hann skal hafa sent stjórninni reikninginn með athugasemdum sínum innan tíu daga.

Viku fyrir Iðnþing skal reikningur SI fyrir liðið ár ásamt athugasemdum endurskoðanda vera félagsaðilum til sýnis á skrifstofu SI.

24. gr.

Kjör fulltrúa SI í fulltrúaráð SA fer fram á Iðnþingi í samræmi við ákvæði þessarar 24. gr. Þátt í þeim kosningum geta tekið aðildarfyrirtæki SI að því marki sem þau hafa ekki ákveðið að tilnefna eigin fulltrúa skv. lögum SA þar um. Um atkvæðarétt fer skv. gildandi atkvæðaskrá SA sem á að liggja fyrir eigi síðar en 15. febrúar ár hvert.

Kjörnefnd skal með áskorun til félagsmanna leita eftir tillögum um fulltrúa í fulltrúaráð SA og skulu tillögur berast kjörnefnd SI minnst 20 dögum fyrir Iðnþing. Kjörnefnd SI skal yfirfara framkomnar tillögur og gera tillögu til stjórnar um heildarlista yfir fulltrúa SI í fulltrúaráð SA. Við gerð listans skal kjörnefnd vera óbundin af einstökum tilnefningum. Listinn skal svo lagður fram til samþykktar á Iðnþingi. Sé listinn ekki samþykktur skal málinu frestað og boðað til framhaldsaðalfundar þar sem nýr listi er lagður fram til samþykkis. Skulu fulltrúar SI í fulltrúaráði SA halda sæti sínu í ráðinu þar til nýir fulltrúar eru kjörnir og tilnefndir í samræmi við samþykktir SA.

Stjórn skal setja kjörnefnd starfsreglur þar sem fram koma þau viðmið sem kjörnefnd ber að líta til við gerð listans. Skal kjörnefnd ennfremur gæta þess að einungis einn fulltrúi sé frá hverjum félagsaðila og þurfa fulltrúar að eiga aðild að SI eða sinna daglegum stjórnunarstörfum eða sitja í stjórn félagsaðila. Framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins er jafnframt heimil seta í fulltrúaráðinu.

25. gr.

Iðnþing tekur ákvörðun um kjör heiðursfélaga SI, að fenginni tillögu stjórnar fyrir framúrskarandi störf í þágu iðnaðarmála. Aðrar viðurkenningar ákveður stjórn SI.

26. gr.

Samtök iðnaðarins hafa heimild til að stofna félag eða félög sem verða í eigu þess til að annast ákveðna þætti starfseminnar. Þá er samtökunum einnig heimilt að standa að stofnun eða gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Tilgangur slíkra félaga þarf að samræmast markmiðum Samtaka iðnaðarins eða styðja við starfsemi samtakanna, þar á meðal ávöxtun fjármuna þeirra.

27. gr.

Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á lögmætu Iðnþingi, enda hafi þess verið getið í fundarboði að lagabreyting yrði til meðferðar á þinginu og meginefni breytinganna kynnt í fundarboði.

Heimilt er að gera breytingartillögur við löglega framkomnar tillögur til breytinga á lögum þessum enda séu slíkar breytingartillögur afhentar stjórn SI eigi síðar en átta dögum fyrir Iðnþing.

Stjórn SI skal tilkynna félagsmönnum um framkomnar breytingartillögur og efni þeirra eigi síðar en fimm dögum fyrir Iðnþing. Slíka tilkynningu má senda með bréfapósti, tölvupósti, auglýsingum í blöðum eða öðrum sannanlegum og tryggum hætti.

Til samþykktar lagabreytinga þarf minnst 2/3 hluta allra greiddra atkvæða á fundinum.

28. gr.

Tillögu um slit á SI eða samruna þeirra við önnur samtök eða félög skal fara með á sama hátt og lagabreytingar, að öðru leyti en því að 3/4 hluta atkvæða þarf til að samþykkja slit á Samtökunum eða samruna þeirra við önnur félög. Slíka tillögu má ekki taka til afgreiðslu nema hún hafi verið kynnt í fundarboði.

Fundur sem samþykkir slit Samtakanna eða samruna þeirra við önnur samtök á löglegan hátt skal einnig ákveða hvernig ráðstafa skal eignum þeirra og greiðslu skulda.

29. gr.

Lög þessi öðlast fullt gildi 10. mars 2022