Innviðir á íslandi

Ástand og framtíðarhorfur

 • Útgefendur: Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga
 • Ritstjórn: Ingólfur Bender og Margrét Kristín Sigurðardóttir

Formáli

Heildstæð skýrsla um ástand innviða hér á landi er nú gefin út í fyrsta sinn. Markmið hennar er að lýsa stöðu helstu innviða hagkerfisins og draga fram þarfir og lausnir til að tryggja gæði þessara meginstoða íslensks samfélags og atvinnulífs. Óumdeilt er að ástand og uppbygging innviða er nátengd samkeppnishæfni landsins og markar þannig þróun þess. Niðurstöður skýrslunnar sýna að þó svo að ástand hluta þessara innviða sé viðunandi er stór hluti þeirra í slæmu ástandi og þarfnast nauðsynlega viðhalds og nýrra fjárfestinga.

Fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun. Með fjárfestingum í innviðum er fjárfest í lífsgæðum og hagvexti framtíðarinnar. Innviðafjárfesting á mörgum sviðum hefur verið lítil undanfarin ár og að óbreyttu eru horfurnar víða ekki góðar. Innviðauppbyggingu þarf nauðsynlega að setja í forgang til að mæta nýjum áskorunum og tækifærum sem felast í samfélagsbreytingum og efnahagsþróun næstu ára.

Skýrsla þessi er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins (SI) og Félags ráðgjafarverkfræðinga (FRV). Skýrslan er unnin að norskri fyrirmynd en félag ráðgjafarverkfræðinga í Noregi (RIF) hefur gefið út viðlíka mat á innviðum norska hagkerfisins síðan árið 2010. Sambærileg skýrsla hefur einnig verið gefin út í Danmörku en í báðum þessum löndum hefur útgáfan markað grundvöll að opinberri umræðu um stöðu innviða. Aðildarfyrirtæki Félags ráðgjafarverkfræðinga önnuðust úttekt á einstökum innviðum en ritstjórn var í höndum Samtaka iðnaðarins. Rýni á köflum var í höndum Háskólans í Reykjavík. Er öllum þeim fjölmörgu sem komu að gerð skýrslunnar þökkuð vel unnin störf.

Það er von okkar að skýrslan verði til þess að skapa upplýsta umræðu um stöðu innviða íslenska hagkerfisins og leiði til úrbóta á því sviði til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

Sigurður Hannesson,
framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins


Hér er hægt að nálgast skýrsluna í PDF.  

Samantekt

Íslenskt samfélag er óhugsandi án þess að hér séu innviðir í flugvöllum, vegum, höfnum, fráveitum, hitaveitum, vatnsveitum, úrgangsmálum, orkuvinnslu og orkuflutningum ásamt fasteignum ríkis og sveitarfélaga sem meðal annars telja skóla og sjúkrahús. Saman mynda þessir innviðir lífæðar samfélagsins en með fjárfestingum í innviðum er fjárfest í lífsgæðum þjóðarinnar, samkeppnishæfni atvinnulífsins og hagvexti framtíðarinnar. Uppbygging innviða og viðhald þarf því ávallt að vera með mikilvægi þeirra að leiðarljósi.

Heildarendurstofnvirði ofangreindra innviða er áætlað 3.493 milljarðar króna. Til samanburðar stóðu heildareignir lífeyrissjóða landsmanna í 3.725 milljörðum króna í lok júlí 2017. Með endurstofnvirði er átt við kaupverð eða kostnaðarverð sambærilegra innviða með sömu framleiðslu og/eða þjónustugetu. Færa má rök fyrir því að virði þessara eigna fyrir samfélagið sé mun meira þegar tekið er tillit til þess hvað þær leggja til verðmætasköpunar efnahagslífsins. Af þessu má ljóst vera að veruleg verðmæti eru bundin í innviðum hagkerfisins.

Af einstökum innviðum er endurstofnvirðið hæst í orkuvinnslu (850–900 milljarðar króna), vegagerð (870–920 milljarðar króna), fasteignum ríkis og sveitarfélaga (440 milljarðar króna), orkuflutningum (320 milljarðar króna) og flugvöllum (240–280 milljarðar króna). Lægst er endurstofnvirðið í úrgangsmálum (35–40 milljarðar króna).

Að meðaltali fá innviðir sem skýrslan nær til ástandseinkunnina 3,0 en einkunnargjöfin er á bilinu 1 til 5 þar sem 1 er lægsta einkunn og 5 sú hæsta. Miðað við þessa einkunn er staða innviða að meðaltali viðunandi en ekki góð. Einkunnin segir að búast megi við umtalsverðu viðhaldi til þess að halda uppi starfsemi þessara innviða og að nauðsynlegt verði að leggja í fjárfestingar í þeim til framtíðar litið.

Eðli máls samkvæmt er ástand innviða mismunandi. Verst er ástand vega og fráveitna en ástandseinkunn þeirra er 2. Hitaveitur og orkuvinnsla eru einu innviðirnir sem fá ástandseinkunn 4 sem merkir að staða mannvirkisins sé góð og að eðlilegt viðhald þurfi til að halda stöðu þess óbreyttri. Enginn innviður fær hæstu einkunn, þ.e. 5, og uppfyllir þannig allar kröfur og þarfir dagsins í dag.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf ofangreindra innviða er áætluð 372 milljarðar króna eða tæplega 11% af endurstofnvirði. Með uppsafnaðri viðhaldsþörf er átt við hvað þarf til að koma viðkomandi innvið í ástandseinkunn 4, þ.e. í ástand þar sem staða mannvirkisins er góð og eðlilegt viðhald þurfi til að halda stöðu þess óbreyttri.

Horfur í efnahagsmálum um þessar mundir benda til þess að á næstu misserum muni draga úr hagvexti og slakna á spennunni í hagkerfinu. Þetta merkir að það mun losna um framleiðsluþætti sem væri þá lag að nýta til uppbyggingar og viðhalds innviða. Út frá stöðu efnahagsmála er því góður tími til að að bæta upp ofangreinda uppsafnaða viðhaldsþörf. Með þeim hætti væri dregið úr niðursveiflunni og á sama tíma byggt undir stoðir hagvaxtar litið til lengri tíma. Til að átta sig á stærðargráðu þessara verkefna nemur ofangreind uppsöfnuð viðhaldsþörf 15,4% af áætlaðri landsframleiðslu þessa árs.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf er, í fjárhæðum mæld, mest í vegagerð, fasteignum ríkisins, fráveitum og orkuflutningum. Hefur viðhaldi innviða verið verulega ábótavant á þessum sviðum. Víða um land eru hættulegir vegakaflar og á hringveginum eru enn hátt í 40 einbreiðar brýr. Margoft hefur komið fram að á höfuðborgarsvæðinu þurfi að bæta samgöngur talsvert. Heilmikil raforka nýtist ekki sökum þess að flutningskerfi raforku er ófullkomið. Nauðsynlegt er að fara í fjárfestingar í uppbyggingu meginflutningskerfis til að tryggja nægt framboð raforku um land allt.

Einkaaðilar verða að koma að uppbyggingu innviða. Hið opinbera getur ekki eitt og sér staðið að framkvæmdum upp á hundruð milljarða á næstu árum. Innlendir jafnt sem erlendir fjárfestar eru áhugasamir um innviðauppbyggingu hér á landi og hér hefur byggst upp þekking á rekstri slíkra verkefna sem má nýta.

Ofangreindir innviðir fá gula ör þegar metið er hvort fjárfestingar í þeim muni gera það að verkum að þeir standist væntanlegar kröfur og þörf árið 2027, þ.e. eftir tíu ár. Þetta merkir að þó svo að fjárfest sé í innviðinum á næstu tíu árum mun hann ekki mæta betur en nú kröfum og þörfum á árinu 2027. Nær einkunnargjöfin fyrir framtíðarhorfur frá rauðri upp í græna ör.

Í þessu sambandi koma hafnir og innanlandsflugvellir verst út, þ.e. fá rautt. Þetta þýðir að meiri háttar hindranir takmarka getu þessara innviða til að uppfylla kröfur og þarfir ársins 2027. Græna ör fá hins vegar fráveitur, hitaveitur, orkuvinnsla, orkuflutningar, sveitarfélagavegir, úrgangsmál og Keflavíkurflugvöllur, en það merkir að fyrirhugaðar eru fjárfestingar í viðkomandi innviðum sem gerir það að verkum að þeir muni mæta kröfum og þörfum eftir 10 ár.


Innviðir Endurstofnvirði, ma.kr. Ástands einkun Framtíðar­horfur Uppsöfnuð viðhaldsþörf, ma,kr.
KEFLAVÍKURFLUGVÖLLUR 190–230 4 Grænt 0
AÐRIR FLUGVELLIR OG LENDINGARSTAÐIR* 50-60 3,5 Rautt 2-3
FRÁVEITUR 170–220 2 Grænt 50-80
HAFNIR 100–150 3 Rautt 6
HITAVEITUR 200 4 Grænt 2
VATNSVEITUR 140 3,5 Gult 15
ORKUVINNSLA 850–900 4 Grænt 0
ORKUFLUTNINGAR 320 3,5 Grænt 70
ÚRGANGSMÁL 35–40 2 Grænt 10-15
ÞJÓÐVEGIR 770 3 Gult 70
SVEITARFÉLAGAVEGIR 100–150 3 Gult 40-60
FASTEIGNIR Í EIGU RÍKISINS 110 3 Gult 55-65
FASTEIGNIR Í EIGU SVEITARFÉLAGA 330 3 Gult 21
SAMTALS / MEÐALTAL 3.493 3 Gult 372

*Aðrir alþjóðaflugvellir en Keflavíkurflugvöllur, flugvellir sem þjóna innanlandsflugumferð eingöngu og lendingarstaðir

ÁSTANDSEINKUNN, SKALI FRÁ 1–5

Graf sem sýnir ástandseinkun

UPPSÖFNUÐ VIÐHALDSÞÖRF, MA.KR.

Graf sem sýnir viðhaldsþörf

ENDURSTOFNVERÐ INNVIÐA OG EIGNIR LÍFEYRISSJÓÐANNA, MA.KR.

Graf sem sýninr ENDURSTOFNVERÐ INNVIÐA

ENDURSTOFNVIRÐI, MA.KR.

Graf sem sýninr ástandseinkun


Aðferðafræðin

Sérfræðingar innan aðildarfyrirtækja Félags ráðgjafarverkfræðinga mátu endurstofnverð innviða og uppsafnaða viðhaldsþörf. Einnig gáfu þessir sérfræðingar innviðunum ástandseinkunn og einkunn varðandi framtíðarhorfur. Sérfræðingarnir skrifa kafla um viðkomandi innviði þar sem þeir rökstyðja mat og einkunn ásamt því að ræða hvernig verði komið á breytingum og ráðleggingar í þeim efnum.

Endustofnvirði innviða

Við mat á tilteknum innviðum er horft til endurstofnvirði (e. replacement value). Með því er átt við kaupverð/kostnaðarverð sambærilegra eigna/innviða með sömu framleiðslu og/eða þjónustugetu.

Ástandseinkun

Ástandseinkunn er á bilinu 1 til 5 þar sem 1 er lægsta einkunn og 5 sú hæsta.

 • 5 Mannvirkið er sem nýtt og uppfyllir allar kröfur og þarfir dagsins í dag. Ekki verður þörf fyrir umtalsvert viðhald fyrr en að mörgum árum liðnum. Viðvarandi viðhaldskostnaður er í lágmarki.
 • 4 Staða mannvirkisins er góð. Eðlilegt viðhald þarf til að halda stöðu þess óbreyttri.
 • 3 Mannvirkið er viðunandi en staða þess ekki góð. Búast má við umtalsverðu viðhaldi til þess að halda uppi starfsemi þess. Nauðsynlegt verður að leggja í fjárfestingar til framtíðar litið.
 • 2 Mannvirkið er illa á sig komið og starfsemi þess í hættu. Krafist er tafarlausra viðbragða svo ekki dragi úr virkni þess.
 • 1 Mannvirkið uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til notkunar þess. Þörf verður fyrir úrbætur/endurnýjanir, auk þess sem koma þarf upp nýjum innviðum.

Langtímahorfur

Hér er fjallað um hverjar horfurnar eru varðandi viðkomandi innviða með tilliti til þess hvort þeir muni standast kröfur og þarfir eftir tíu ár, þ.e. á árinu 2027.

 • Grænt Græn ör. Fyrirhugaðar eru fjárfestingar í viðkomandi innviðum sem gerir það að verkum að þeir muni mæta kröfum og þörfum eftir tíu ár.
 • Gult Gul ör. Fjárfestingar í þeim muni gera það að verkum að þeir standist væntanlegar kröfur og þarfir eftir 10 ár.
 • Rautt Rauð ör. Meiri háttar hindranir takmarka getu þessara innviða til að uppfylla kröfur og þarfir eftir 10 ár.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf

Uppsöfnuð viðhaldsþörf er sá kostnaður sem ætla má að þurfi til þess að koma mannvirkinu í ástandseinkunn 4. Metið er hvað þarf til þess að gera stöðu innviðarins góða og hversu mikið viðhald þarf til að halda stöðu hans óbreyttri.

Þeir sem komu að gerð skýrslunnar

 • Aldís Ingimarsdóttir, Háskólinn í Reykjavík
 • Andri Teitsson, Fallorka
 • Ari Eggertsson, Hveragerðisbær
 • Arinbjörn Friðriksson, EFLA
 • Árni Freyr Stefánsson, Mannvit
 • Árni Jóhannsson, Samtök iðnaðarins
 • Ásgeir Margeirsson, HS orka
 • Baldur Dýrfjörð, Norðurorka
 • Benedikt Skúlason, Símnet
 • Bjarni Már Júlíusson, Orka náttúrunnar
 • Björn Hauksson, Isavia
 • Bryndís Skúladóttir, Samtök iðnaðarins
 • Brynjar Þór Jónasson, Ísafjarðarbær
 • Dagur Jónsson, Hafnafjarðarbær
 • Egill Sigmundsson, HS veitur
 • Egill Viðarsson, Verkís
 • Elías Jónatansson, Orkubú Vestfjarða
 • Eymundur Sigurðsson, Lota
 • Eyþór Þórhallsson, Háskólinn í Reykjavík
 • G. Pétur Matthiasson, Vegagerðin
 • Gísli Hermannsson, Seltjarnarnesbær
 • Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsnet
 • Guðmundur R. Jónsson, Háskóli Íslands
 • Guðni A. Jóhannesson, Orkustofnun
 • Guðni Sigurðsson, Isavia
 • Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, Háskólinn í Reykjavík
 • Gunnar Hrafn Gunnarsson, Norðurþing
 • Gunnar Svavarsson, Efla
 • Halldóra Vífilsdóttir, Framkvæmdasýsla ríkisins
 • Hannibal Kjartansson, Hrunamannahreppur
 • Helgi Jóhannesson, Norðurorka
 • Helgi Jóhannesson, Samorka
 • Helgi V. Bragason, Rikiseignir
 • Hlöðver Stefán Þorgeirsson, EFLA
 • Hreinn Haraldsson, Vegagerðin
 • Hörður Arnarsson, Landsvirkjun
 • Hörn Hrafnsdóttir, Verkís
 • Indriði Þór Einarsson, Skagafjarðarbær
 • Inga Dóra Hrólfsdóttir, Veitur
 • Ingólfur Bender, Samtök iðnaðarins
 • Ingólfur Þórisson, Landspítalinn
 • Jón Skafti Gestsson, Lota
 • Jón Tryggvi Guðmundsson, Sveitarfélagið Árborg
 • Jón Vilhjálmsson, EFLA
 • Jónas Þór Snæbjörnsson, Háskólinn í Reykjavík
 • Júlíus Jónsson, HS veitur
 • Kjartan Ingvarsson, umhverfis- og auðlindaráðuneytið
 • Lúðvík Eckardt Gústafsson, Samband íslenskra sveitarfélaga
 • Magnús Bjargarson, Kópavogsbær
 • Magnús Kristbergsson, Lota
 • Magnús Kristjánsson, Orkusalan
 • Margrét Kristín Sigurðardóttir, Samtök iðnaðaðarins
 • Páll Erland, Samorka
 • Páll R. Guðmundsson, Verkís
 • Páll Svavar Pálsson, Isavia
 • Pétur E. Þórðarson, Rarik
 • Ragnar Kristjánsson, Háskólinn í Reykjavík
 • Ragnhildur Gunnarsdóttir, EFLA
 • Rakel Pálsdóttir, Samtök iðnaðarins
 • Reynir Sævarsson, EFLA
 • Sigfús Þór Guðlaugsson, Fjarðabyggð
 • Sigurður Á. Sævarr, Samband íslenskra sveitarfélaga
 • Sigurður Grétar Sigmarsson, Verkís
 • Sigurður Hannesson, Samtök iðnaðarins
 • Sigurður Hafliðason, Garðabær
 • Sigurjón Kærnested, Samorka
 • Sigurjón Þórðarson, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra
 • Steinþór Gunnarsson, Mosfellsbær
 • Sverrir Bollason, VSÓ
 • Tryggvi Jónsson, Mannvit
 • Tryggvi Þórðarson, Umhverfisstofnun
 • Vilhjálmur Hilmarsson, Mannvit
 • Þorleikur Jóhannesson, Verkís
 • Þröstur Helgason, Mannvit