Orkuvinnsla


Einkunnarmat byggir á ástandi og umbúnaði virkjana í eigu stærstu orku- fyrirtækjanna, þ.e. Landsvirkjunar (73% raforkuvinnslu árið 2015), Orku náttúrunnar (17,3%), HS Orku (6,9%), Orkusölunnar (1,4%) og Orkubús Vestfjarða (0,5%). Samanlagt framleiða þessi fyrirtæki yfir 99% raforku í landinu.

Mat á endurstofnverði nær yfir allar virkjanir sem tilkynna Orkustofnun árlega um heildarraforkuvinnslu. Matið fyrir vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar byggir á reyndarmagntölum og kostnaðarmati á verðlagi í janúar 2016. Fyrir smærri virkjanaaðila var metið út frá afli með hliðsjón af niðurstöðum hjá Landsvirkjun (kr/MW). Endurstofnverð jarðvarmavirkjana Orku náttúrunnar, HS Orku og Landsvirkjunar var metið út frá meðaltali nýlegra kostnaðaráætlana með tilliti til afls (kr/MW).

  • Endurstofnvirði: 850–900 milljarðar króna.
    Uppsöfnuð viðhaldsþörf: 0 krónur.
  • 4 ÁSTAND
  • Grænt FRAMTÍÐARHORFUR

ÁSTANDIÐ

4 ORKUVINNSLA

Íslensk raforkuver eru, á heildina litið, í góðu ásigkomulagi. Úttekt á viðhaldsþörf fer yfirleitt fram með reglubundnum hætti og langtímaáætlanir liggja fyrir um viðhald og endurbætur. Einnig er leitast við að auka nýtingu aflstöðva, bæði hvað varðar rekstur þeirra sem og stækkunarmöguleika.

Horfur í náinni framtíð, þ.e. til 2027, gefa orkuöflun græna ör þar sem raforkuspá helst í hendur við orkuöflun og ætla má að viðhaldi og endurnýjun verði áfram vel sinnt. Til langtíma, ef litið er 50 ár fram í tímann, lítur út fyrir að orkuöflun haldist græn. Pólitískar ákvarðanir geta breytt þessari framtíðarsýn sem og breytingar í stóriðjumálum.

Styrking flutningskerfis er nauðsynleg forsenda þess að orkuöflun sé gefin græn ör til framtíðar þar sem slíkt tryggir öruggari orkuafhendingu og eðlilegt samspil framboðs og eftirspurnar raforku með tilliti til framtíðaruppbyggingu virkjana.

Uppsett afl virkjana sem lögðu til orku inn á kerfi Landsnets árið 2015 var um 2.590 MW, þar af 75% í vatnsaflsvirkjunum og 25% í jarðvarmavirkjunum. Aðrir orkugjafar voru hverfandi. Raforkuframleiðsla inn á flutningskerfi Landsnets árið 2015 var 18,1 TWh, þar af 73,3% frá vatnsaflsvirkjunum, 26,6% frá jarðvarmavirkjunum og 0,1% frá vindmyllum. Af allri raforkunotkun 2015 nýtti stóriðja 76,4%, 18,3% fór til almennrar notkunar og flutningstöp námu 5,3%.

Vatnsaflsvirkjanir. Árið 2015 var raforkuframleiðsla í 57 virkjunum um 13,8 TWh og uppsett afl um 1940 MW. Þar af höfðu 14 virkjanir uppsett afl yfir 10 MW, samtals 97% alls uppsetts afls vatnsaflsvirkjana.

Við upphaf árs 2016 stóðu yfir framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar (100 MW) og við endurbyggingu Gönguskarðsárvirkjunar (1,8 MW). Gert er ráð fyrir að ný aflstöð Búrfellsvirkjunar verði tekin í notkun vorið 2018. Endurbyggingu Gönguskarðsárvirkjunar lauk um mitt ár 2016.

Jarðvarmavirkjanir. Raforkuframleiðsla þeirra sex jarðvarmavirkjana sem lögðu til orku inn á kerfi Landsnets árið 2015 var um 5,0 TWh og uppsett afl um 650 MW. Fimm þessara virkjana höfðu uppsett afl yfir 60 MW, en ein aðeins 3,2 MW.

Við upphaf árs 2016 stóðu yfir framkvæmdir við fyrsta og annan áfanga Þeistareykjavirkjunar (90 MW) og stefnt er að því að stöðin verði gangsett vorið 2018.

Ástand jarðhitavirkjana er mjög gott þegar litið er til búnaðar og mannvirkja en jarðhitageymar hafa í sumum tilfellum reynst undir væntingum.

Aukaafurðir sumra jarðvarmavirkjana eru nýttar með margvíslegum hætti svo sem til húshitunar, snjóbræðslu og iðnaðar á borð við ylrækt og fiskeldi, sem eykur virði virkjananna. Þá geta jarðvarmavirkjanir haft jákvæð áhrif á félagslegan og efnahagslegan þátt umhverfisins, svo sem með auknum ferðamannastraumi að virkjanasvæðinu.

Vindorka. Reistar höfðu verið vindmyllur á þremur stöðum á landinu í ársbyrjun 2016, sem framleiddu samtals 10,9 MWh á ári og höfðu 3 MW uppsett afl. Vindorka er fremur nýlegur orkugjafi hér á landi, en allar vindmyllurnar voru reistar eftir 2012.

Varaafl (eldsneytisorkuver). Eldsneytisorkuver framleiddu 3,9 GWh á árinu 2015 og höfðu 81 MW uppsett afl, dreift á 47 stöðvar. Varaaflstöðin í Bolungarvík er með 10,8 MW uppsett afl en aðrar undir 6 MW. Um 53% rafmagnsframleiðslu varaaflstöðva var á Vestfjörðum árið 2015, en þar er orkuöryggi jafnframt minnst á landinu. Greinilegt samband er milli notkunar varaafls og orkuöryggis.

FRAMTÍÐARHORFUR

Grænt RAFORKUSPÁ TIL 2050

Samkvæmt raforkuspá má búast við 21 TWh raforkuþörf árið 2027 og að árið 2050 verði hún orðin rúmlega 23 TWh, sem er 4,5 TWh aukning frá 2015.

Vatnsaflsvirkjanir. Ástand vatnsaflsvirkjana er gott og ef framleiðslufyrirtækin halda áfram á sömu braut hvað varðar viðhald, rekstur, endurnýjun og nýbyggingu fær flokkurinn græna ör ef litið er fram til ársins 2027.

Breytingar á virkjunum Landsvirkjunar og rekstri þeirra í kjölfar rannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi hafa leitt af sér 10% framleiðsluaukningu.

Nýtanleg vatnsorka á Íslandi er metin 64 TWh/a. Í byrjun árs 2016 var því búið að nýta rúmlega 20% af nýtanlegri vatnsorku.

Í orkunýtingarflokki núgildandi rammaáætlunar (2. áfanga) eru þrjár virkjanir með samanlagt uppsett afl 176 MW og 1,2 TWh orkuframleiðslu. Auk þessara virkjana leggur verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar til að fjórar virkjanir til viðbótar verði settar í orkunýtingarflokk með 277 MW samanlögðu uppsettu afli og 2,0 TWh orkuframleiðslugetu.

Bygging smávirkjana er í vexti og því mikilvægt að skerpa á regluverkinu. Taka þarf á áhættu sem virkjanamannvirki geta haft í för með sér.

Jarðvarmavirkjanir. Viðhald og ástand jarðvarmavirkjana telst gott en hafa þarf í huga að erfitt er að segja til um stöðu jarðhitageyma á virkjanasvæðunum. Framleiðendur standa sig nokkuð vel í rannsóknum og könnunum á virkjanasvæðum. Niðurstöður rannsókna geta þó bent til þess að ástand jarðhitageyma sé sums staðar lakara en búist var við. Í einhverjum tilvikum þarf að virkja annars staðar eða gera miklar breytingar á virkjunum svo halda megi uppi sama afli.

Í nýtingarflokki núverandi rammaáætlunar (2. áfanga) eru sjö jarðvarmavirkjanir með samanlagt uppsett afl 585 MW og orkuframleiðslugetu 4,84 TWh. Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar leggur til að flytja þrjár virkjanir til viðbótar í orkunýtingarflokk með 280 MW samanlögðu uppsettu afli og 2,3 TWh orkuframleiðslugetu.

Óvissa um stöðugleika jarðhitageymanna bendir til þess hagkvæmara sé að virkja þá ekki of hratt og gera ekki ráð fyrir að ofangreint afl skili sér að fullu til lengri tíma. Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að einhver svæði gefi meira en reiknað er með.

Vindorka. Vindorka er tiltölulega nýr orkugjafi á Íslandi og reynslutíminn því stuttur.

Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun ná ekki til vindorku. Engu að síður voru tveir vindlundir lagðir fram og teknir fyrir í þriðja áfanga rammaáætlunar, alls 300 MW (um 1000 GWh). Vindlundir eru ekki í orkunýtingarflokki núgildandi rammaáætlunar, en verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar leggur til að annar fari í orkunýtingarflokk en hinn í biðflokk.

Varaafl (eldsneytisorkuver). Eldsneytisorkuver eru mestmegnis notuð sem varaafl þegar bilun verður í flutningskerfi. Þessar stöðvar eru áfram nauðsynlegar en reynt er að hafa þær eins fáar og raforkuöryggi leyfir.

Sjávarorka. Nýting sjávarorku hefur öðru hvoru komið til umræðu. Starfshópur, sem falið var að gera mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands með það að markmiði að greina hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar, skilaði greinargerð sem lögð var fram á Alþingi 2015. Miðað við tæknilausnir sem nú þekkjast og hafa verið reyndar er ólíklegt að virkjun sjávarorku verði arðbær við Ísland í náinni framtíð.

Engu að síður er æskilegt að taka málið upp aftur ef teikn eru á lofti um breytta sviðsmynd.

Nýting lághita til raforkuframleiðslu. Virkjun lághita til rafmagnsframleiðslu er ekki hagkvæm eins og sakir standa. Komi hins vegar til hækkunar á orkuverði gæti staðan breyst og aðrir kostir, sem ekki hafa verið skoðaðir, orðið raunhæfir og jafnvel hentað betur út frá umhverfissjónarmiðum.

Afhendingaröryggi raforku. Hér er einungis litið til afhendingaröryggis frá framleiðanda.

Núverandi löggjöf tryggir ekki raforkuöryggi til almennrar notkunar, þ.e.a.s. raforkuframleiðendum er frjálst að selja hverjum sem er og gætu tæknilega valið hverjum þeir selja og ekki sinnt öllum notendum.

Tæp 70% virkjana á Íslandi eru staðsett í gosbeltunum sem felur í sér áhættu, t.d. vegna jarðskjálfta, eldgosa og flóða.

Loftslagsmál. Í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem kynnt var í maí 2017, kemur fram að stefnt sé að 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum 2020 og að losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna verði <750 Gg. Til samanburðar hefur þýska þingið samþykkt bann á sölu nýrra bíla með brunahreyflum frá 2030 og leggur til að það bann gildi innan ESB.

Ákvarðanir sem þessar munu smám saman hafa áhrif á eftirspurn eftir raforku. Mikilvægt er að skoða málið heildrænt og byrja strax að huga t.d. að lausnum sem hvetja og gera rafbílaeigendum kleift að hlaða á tímabilum innan sólarhringsins þar sem raforkunotkun er minni. Með því móti nýtast orkuauðlindirnar best.

Eigendur jarðvarmavirkjana vinna markvisst að því að lágmarka sína losun, t.d. með verkefnum eins og „gas í grjót“ þar sem aðferð var þróuð til að dæla koltvíoxíði og brennisteinsvetni niður með vatni til að hreinsa og binda efnin varanlega í berg.


HVERNIG KOMUM VIÐ Á BREYTINGUM?

Til þess að tryggja að orkuöflun haldi einkunn sinni þarf geirinn að þróast í takt við tímann og halda áfram að vinna vel að ýmsum málum. Hér eru nokkur atriði dregin fram.

Rannsóknir og efling þekkingar eru grundvallaratriði í orkuiðnaði. Nauðsynlegar rannsóknir lúta m.a. að veðurfari, vatnafari, áhrifum af hlýnun jarðar og jarð- og jarðeðlisfræði svo eitthvað sé nefnt. Einnig þarf að fylgjast með þróun í vinnsluaðferðum og að einhverju leyti þróa nýjar aðferðir.

Hvað jarðhitann varðar er nauðsynlegt að styðja við áframhaldandi rannsóknir á nýtingu jarðhitavökva til virkjana og jarðhitageymum virkjana til að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar til framtíðar.

Í kringum sumar jarðhitaauðlindir hafa byggst upp auðlindagarðar sem hafa skapað fjölbreyttan iðnað í nábýli við virkjanir. Þannig er leitast við að fullnýta auðlindirnar með margvíslegri verðmætasköpun. Nauðsynlegt er að styðja við frekari rannsóknir á nýtingu jarðhitavökvans til verðmætasköpunar, annarrar en beinnar orkusölu, svo efla megi uppbyggingu auðlindagarða í landinu.

Rannsóknir auka getu okkar til að nýta orkulindir á sjálfbæran hátt, velja hagkvæmustu lausnirnar hvað varðar fjárhag, umhverfi og samfélag og auka raforkuöryggi í landinu.

Heildstæða stefnu vantar sem samtvinnar stefnu í orkumálum, landnýtingu, iðnaðaruppbyggingu og loftslagsmálum. Stefna byggð á langtímamarkmiðum þjóðarinnar með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi er mun vænlegri til framþróunar en sú aðferð sem nú er viðhöfð og tekur á einangraðan hátt einungis til orkunýtingar annars vegar og umhverfis hins vegar. Slík stefna tryggði betur samhengi hlutanna, og gerði orkufyrirtækjum auðveldara að hugsa fram á veginn, rannsaka virkjanakosti á raunhæfari og markvissari hátt með tilliti til orkunýtingar, sjálfbærni og umhverfisáhrifa.

Mikilvægt er að samtal eigi sér stað á milli allra hlutaðeigandi varðandi þjóðhagslega hagkvæmni við það að koma upp snjallmælum eða sambærilegum lausnum sem gera orkuvinnslufyrirtækjum kleift að koma á breytilegri verðskrá og neytendum kleift að stýra neyslu sinni innan sólarhringsins. Þetta ætti að skoða samhliða stefnumótun í samgöngum því ef auka á hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í þeim geira mun rafbílum fjölga og auka álag á núverandi kerfi. Hagkvæmt væri að þessi orkuþörf nýtti umframorku í kerfinu sem að óbreyttu færi að einhverju leyti til spillis.

ÍSLENSKUR LAGARAMMI

Íslenskur lagarammi verði bættur með það að markmiði að tryggja samfélagslega forsvaranlega notkun og stjórnun vatnasviða. Margt er gott og til fyrirmyndar í lögunum en brotalöm er augljós hvað varðar öryggi virkjanamannvirkja og þá sérstaklega hvað varðar stíflumannvirki. Bygging smávirkjana er í vexti og því mikilvægt að skerpa á regluverkinu. Bent er á að hægt er að líta til laga/reglugerða í Noregi en þar er skylt að áhættumeta allar stíflur og leggja slíkt mat fyrir norsku orkustofnunina (NVE). Einungis hönnuðir með sérstök leyfi fá að hanna vatnsaflsmannvirki (5 faggildingarsvið). Það sama á við um eftirlit með byggingu þeirra. Hér á landi er einungis horft til uppsetts afls og þess hvort orka sé afhent inn á dreifikerfi dreifiveitna en litið framhjá mögulegri hættu sem skapast getur með tilkomu stíflumannvirkja.

Íslenskur lagarammi verði bættur þannig að orkuöryggi til almennings verði tryggt.

Íslenskur lagarammi verði bættur með því að endurskoða hvort núverandi viðmið fyrir mati á umhverfisáhrifum sé þjóðhagslega hagkvæmt eða hvort það geti mögulega leitt til þess að auðlindir verði ekki nýttar á sem hagkvæmastan hátt.

RÁÐLEGGINGAR

Staða raforkuöflunar er góð bæði í dag og í fyrirsjáanlegri framtíð. Engu að síður er mikilvægt að sofna ekki á verðinum og reyna að gera betur. Við ráðleggjum eftirfarandi:

  • Mótuð verði heildstæð stefna Íslands sem samtvinnar stefnu í orkumálum, landnýtingu, iðnaðaruppbyggingu og loftslagsmálum.
  • Rannsóknir og efling þekkingar á þeim endurnýtanlegu orkulindum sem landið býður upp á, á nýtingu þeirra og á áhættuþáttum sem ógnað geta virkni virkjana.

RÝNI

Staða orkuöflunar í dag og styrkur orkufyrirtækja réttlætir 4 í einkunn. Kaflinn veitir greinargott yfirlit yfir núverandi orkuöflun og framtíðarmöguleika.

Guðrún Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík.

HEIMILDIR

  • Jarðvarmi kynningarrit. Landsvirkjun 2012.
  • Lokaskýrsla verkefnisstjórnar 3. áfanga verndarog orkunýtingaráætlunar 2013–2017.
  • Verkefnisstjórn 3. áfanga 2016.
  • Niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar.
  • Verkefnisstjórn 2. áfanga 2011.
  • Orkutölur 2015. Orkustofnun.
  • Raforkuspá 2016–2050. 2016. Orkustofnun OS-2016/08.
  • Samgönguáætlun 2015–2018. Innanríkisráðuneytið 2015.
  • Skýrsla Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um raforkumálefni. Alþingi 2016.
  • Skýrsla verkefnisstjórnar sæstrengs til iðnaðar- og viðskiptaráðherra. 2016.
  • Talnaefni Orkustofnunar. Uppsett rafafl og raforkuframleiðsla í virkjunum á Íslandi 2015.
  • Ýmislegt efni af heimasíðu Orkustofnunar.