Fráveitur


Umfjöllunin tekur til allra fráveitumannvirkja, hvort sem þau eru í eigu einkaaðila eða opinberra aðila. Til fráveitu telst allt lagnakerfi sem flytur frárennsli frá heimilum, stofnunum, atvinnufyrirtækjum, götum, gönguleiðum, lóðum og opnum svæðum. Til fráveitu teljast einnig öll mannvirki sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli, svo sem hreinsivirki, dælu- og hreinsistöðvar og set- og miðlunartjarnir.

Frárennsli er rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt er í fráveitur.

Segja má að tvö meginmarkmið fráveitna séu annars vegar að taka við og flytja fráveituvatn frá samfélaginu og hins vegar að meðhöndla fráveituvatn þannig að það hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið. Eðlilegt er að miða gæði fráveitna við það hvernig þær sinna þessum tveimur meginmarkmiðum.

 • Endurstofnvirði: 170–220 milljarðar króna.
  Uppsöfnuð viðhaldsþörf: 50–80 milljarðar króna.
 • 2 ÁSTAND
 • Grænt FRAMTÍÐARHORFUR

ÁSTAND

2 FRÁVEITUINNVIÐIR

Endurstofnverð allra fráveituinnviða í landinu nemur um 170 til 220 milljörðum króna.

Íslendingar eiga langt í land með að innleiða skólphreinsun í samræmi við skuldbindingar sem ríkið hefur undirgengist vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Að mati Umhverfisstofnunar (2013) eru kröfur um hreinsun skólps uppfylltar að fullu, eða svo gott sem, á aðeins 5 af þeim 15 þéttbýlissvæðum sem skoðuð eru sérstaklega í samantekt stofnunarinnar vegna umfangs skólplosunar á þessum stöðum. Miðað við mat stofnunarinnar á umfangi skólplosunar þá losa þessar fimm fráveitur, þar sem segja má að ástandið sé í lagi, um 60% skólpmagns í landinu. Fram kemur í samantektinni að mat stofnunarinnar er að fjórðungur íbúa landsins búi við enga skólphreinsun. Þessar tölur miðast við árið 2010. Einhverjar framfarir hafa verið frá þeim tíma, en þær eru ekki verulegar í samanburði við það sem upp á vantar. Ljóst er að þörf er á miklum úrbótum í þessum málum svo uppfylla megi reglugerðarkröfur.

Ófullnægjandi hreinsun skólps getur haft áhrif á umhverfið. Sem dæmi má nefna að gera má ráð fyrir að mikið magn úrgangs á borð við plast berist með fráveituvatni út í umhverfið hér á landi vegna engrar eða lítillar hreinsunar þess víða um land. Einnig er ekki útilokað að mengun frá fráveitum hafi áhrif á viðkvæm vatnavistkerfi á borð við Mývatn, en vatnið hefur sýnt merki ofauðgunar undanfarin ár.

Víða um land liggur ekki fyrir mat á ástandi lagnakerfa byggt á kerfisbundinni myndun og ástandsgreiningu. Þrátt fyrir það má gera ráð fyrir að til staðar sé uppsöfnuð þörf á viðhaldi lagna, þar sem hlutar lagnakerfa hafa náð ráðgerðum endingartíma þeirra án þess að lögnum hafi verið skipt út eða þær fóðraðar.

Ónógt viðhald lagnakerfa veldur því að afköst lagnakerfisins minnka, rekstrarkostnaður eykst, úr sér gengnar fráveitulagnir geta hrunið auk þess sem gera má ráð fyrir að tjón verði tíðari.

Algengast er hér á landi að ofanvatn í þéttbýli sé leitt í fráveitur. Með ofanvatni er átt við regnvatn og snjóbráð. Mikilvægt er að slík kerfi anni rennsli vegna mikillar úrkomu eða leysinga, til að ekki verði tjón vegna vatnselgs. Dæmi eru um að afköst fráveitna láglendra þéttbýlissvæða séu ófullnægjandi og vatnstjón því óvenjualgeng. Þar er þörf á úrbótum. Í eldri byggðum er ofanvatn í fráveitum blandað skólpi. Ónóg afköst fráveitna við þær aðstæður valda því að skólp flæðir óhreinsað úr fráveitunum um yfirföll, þrátt fyrir að ekki verði tjón á eignum vegna flóða. Þar sem upplýsingar um það liggja fyrir hefur losun um yfirföll í flestum tilfellum staðið yfir í minna en 5% hvers árs á tímabilinu frá 2010–2016. Slík losun er innan marka reglugerðar um fráveitur og skólp.

Ekki liggja fyrir samanteknar upplýsingar um ástand fráveitna í dreifbýli í landinu. Víðast er gerð krafa um rotþrær og siturbeð við slíkar aðstæður. Gera má ráð fyrir að allstór hluti einkafráveitna uppfylli ekki kröfur um fullnægjandi stærð og útfærslu rotþróa og siturbeða. Þar sem kröfur eru um ítarlegri hreinsun skólps í dreifbýli vegna viðkvæms viðtaka eru eingöngu örfá dæmi um að slíkum kröfum hafi verið mætt.

Losun lífræns úrgangs í fráveitur felur í sér mikla sóun, meðal annars á verðmætum næringarefnum og orku. Víðast er seyru úr skólphreinsivirkjum fargað án nokkurrar nýtingar. Þó dæmi séu um nýtingu seyru til landgræðslu er það magn næringarefna sem er endurnýtt í slíkum verkefnum smávægilegt í samanburði við heildarmagn næringarefna sem glatast í íslenskum fráveitum. Slá má á að magn uppleysts fosfórs sem glatast í hafið umhverfis landið frá Íslendingum nemi að minnsta kosti um 200 tonnum á ári. Framleiðsla lífgass úr seyru er sömuleiðis hverfandi hér á landi.


FRAMTÍÐARHORFUR

Grænt

Gera má ráð fyrir að lofslagsbreytingar stuðli að hækkuðu sjávarborði og aukinni úrkomu. Hækkun sjávarborðs hefur augljós neikvæð áhrif á fráveitur láglendra þéttbýlissvæða og kann að kalla á auknar fjárfestingar til að viðhalda afköstum þeirra. Aukin úrkoma hefur einnig áhrif. Gera má ráð fyrir að lagnir í nýrri hverfum þoli í nær öllum tilfellum vel aukið rennsli vegna úrkomu, en ljóst er að þörf verður á auknum fjárfestingum í einhverjum eldri byggðum. Þær hreinsistöðvar sem þegar hafa verið byggðar til að uppfylla hreinsikröfur reglugerða eru flestar tiltölulega nýjar og munu anna auknu rennsli í fyrirsjáanlegri framtíð.

Það má slá á að allar lagnir sem náð hafa 50 til 60 ára aldri án þess að þeim hafi verið skipt út eða þær fóðraðar séu svo gott sem ónýtar. Mikil uppbygging var hér á landi um miðja síðustu öld og því má gera ráð fyrir að stór hverfi í flestum þéttbýlisstöðum landsins hafi náð þessum aldri eða geri það á allra næstu árum. Því er mikil þörf á endurbótum á lagnakerfum, ef þau eiga ekki að bresta.

Íbúum landsins fjölgar frá ári til árs. Gera má ráð fyrir að hluta þessarar fjölgunar verði mætt með uppbyggingu innan marka núverandi þéttbýlissvæða, og ekki hvað síst á svæðum sem þjónað er af elstu fráveituinnviðum landsins. Mikilvægt er að viðhald og endurbætur á lagnakerfum haldi í við þá þróun, auk þess sem huga þarf að því að uppbygging stuðli ekki að óhóflegu innstreymi ofanvatns í gömul lagnakerfi sem í dag taka við rennsli nálægt hámarksafköstum sínum.

Töluverð umræða er um hugsanlega skaðsemi efna í frárennsli sem ekki hefur endilega verið gefinn mikill gaumur við skólphreinsun fram að þessu. Dæmi um slík efni eru örplast og lyfjaleifar. Ekki er útilokað að kröfur til hreinsunar á slíkum efnum úr frárennsli verði hertar í fyrirsjáanlegri framtíð, ef sýnt verður fram á að þær valdi verulegum skaða í hafinu eða í ám og vötnum.

Á svæðum þar sem lagnakerfi ofanvatns er aðgreint frá lagnakerfi skólps er algengt að ofanvatn sé ekki hreinsað með nokkrum hætti áður en því er veitt í viðkvæma viðtaka á borð við ár og læki. Hluti þessa ofanvatns er afrennsli af götum og bílaplönum sem getur borið með sér mengun á borð við örplast og þungmálma. Ekki er útilokað að kröfur til hreinsunar ofanvatns verði auknar á næstu árum.

Í núverandi lögum og reglugerðum er óljóst hvaða aðili skuli hafa frumkvæði að skilgreiningu svokallaðra viðkvæmra viðtaka. Við viðkvæma viðtaka eru gerðar kröfur um svokallaða ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa, en það eru mestu kröfur sem gerðar eru til almennrar skólphreinsunar hér á landi. Gera má ráð fyrir að bætt verði úr þessu á næstu árum. Hugsanlegt er að það verði til þess að algengara verði að farið sé fram á ítarlega hreinsun skólps hér á landi. Næringarefni til áburðar eru takmörkuð auðlind. Sem dæmi má nefna að gera má ráð fyrir að fosfórbirgðir í hefðbundnum fosfórnámum muni klárast í framtíðinni, þó ekki sé hægt að segja til um nákvæmlega hvenær megi eiga von á að það gerist. Ætla má að víða um heim verði aukin áhersla á endurnýtingu næringarefna og orku úr skólpi á næstu árum.

HVERNIG KOMUM VIÐ Á BREYTINGUM?

Fjárfesting sem þörf er á, umfram reglubundið viðhald, svo gefa megi fráveituinnviðum ástandseinkunnina 4 nemur 50 til 80 milljörðum króna.

UPPBYGGING SKÓLPHREINSISTÖÐVA Í ÞÉTTBÝLI

Segja má að úttekt Umhverfisstofnunar (2013) bendi til þess að frekar sé regla en undantekning að hreinsun skólps sé óviðunandi. Álykta má af úttektinni að kröfur um hreinsun skólps í skólphreinsistöðvum séu vanræktar á að minnsta kosti tíu þéttbýlissvæðum. Þar þarf að byggja hreinsistöðvar og bæta við veitukerfi til að safna skólpinu að þeim. Einnig þarf að bæta skólphreinsun á fjölmörgum öðrum þéttbýlisstöðum svo hreinsun skólps sé viðunandi, þrátt fyrir að skólpmagn sé ekki nægjanlegt til að krafa sé um fyrsta þreps hreinsun samkvæmt reglugerð um fráveitur og skólp.

BÆTT HREINSUN SKÓLPS Í DREIFBÝLI

Nokkuð algengt er að ástand einkafráveitna í dreifbýli sé ekki í fullu samræmi við reglugerðarkröfur. Yfirgnæfandi meiri hluti einkafráveitna í dreifbýli eru rotþrær og siturbeð sem þjóna stökum húsum. Ljóst er að víða þarf að bæta þær eða endurnýja svo kröfur reglugerðar um fráveitur og skólp séu uppfylltar. Skýrustu dæmin eru nágrenni Mývatns og Þingvallavatns. Þar þarf að leggjast í átak til að uppfylla kröfur um ítarlegri skólphreinsun, sem settar hafa verið til verndar vötnunum. Á öðrum svæðum, þar sem kröfur um hreinsun eru ekki svo strangar, er ekki óalgengt að til dæmis vanti siturbeð við rotþrær.

VIÐHALD ELDRI LAGNAKERFA

Ljóst er að gera þarf átak í viðhaldi lagnakerfa víða um land. Mikilvægt er að rekstraraðilar fráveitna meti ástand lagnakerfa sinna með kerfisbundnum hætti svo leggjast megi í átak í viðhaldi og endurnýjun lagnakerfa sem allra fyrst byggt á forgangsraðaðri viðhaldsáætlun. Mun ódýrara er að fóðra fráveitulagnir á meðan þær eru enn þá í viðunandi ástandi, heldur en að leggjast í umfangsmeiri viðgerðir eftir að lagnir eru orðnar algerlega ónothæfar.

BREYTT MEÐFERÐ OFANVATNS

Leggja þarf meiri áherslur á ofanvatnslausnir í þéttbýli. Það er gert til að draga úr hættu á flóðum, sérstaklega í eldri lagnakerfum, og til að auka hreinsun ofanvatnsins og vernda þannig umhverfið. Þetta er sérstaklega mikilvægt í eldri byggðum, þar sem ofanvatn og skólp renna saman um elstu lagnakerfi landsins. Hreinsa ætti afrennsli gatna, til dæmis með svokölluðum settjörnum. Nýta ætti blágrænar ofanvatnslausnir til að draga úr flóðahættu, styrkja og varðveita vatnavistkerfi í þéttbýli og búa um leið til ánægjulegra þéttbýlisumhverfi. Með þessum aðferðum má komast hjá umfangsmiklum framkvæmdum við tvöföldun lagnakerfa í eldri byggðum.

RÁÐLEGGINGAR

BREYTT VINNUBRÖGÐ Í SKIPULAGI

Hönnun fráveitu er krefjandi úrlausnarefni, ekki hvað síst við þéttingu byggðar. Mikilvægt er að hugað sé að henni snemma í hönnun uppbyggingarsvæða, sérstaklega á þéttingarreitum í eldri hverfum þéttbýlis. Ein leið til að stuðla að því væri að gera forhönnun fráveitu að skilyrði við gerð deiliskipulaga. Fyrirmynd að slíku fyrirkomulagi má til dæmis sækja til Noregs.

LOFTSLAGSSTUÐULL

Gera má ráð fyrir auknu rennsli ofanvatns samfara lofslagsbreytingum. Æskilegt væri að innleiða samræmdan loftslagsstuðul til notkunar við mat á ofanvatnsrennsli um fráveitur, sem byggður væri á rannsóknum á úrkomu hér á landi og spám um framtíðaraukningu hennar.

AUKNAR FRAMKVÆMDIR Í SAMDRÁTTARTÍÐ

Af sögu úrbóta og viðhalds fráveituinnviða undanfarinna áratuga má ætla að slíkar framkvæmdir fylgi oftar en ekki uppgangstímum í efnahagslífi þjóðarinnar. Æskilegt væri ef rekstraraðilar fráveitu gætu hagað áætlunum sínum með þeim hætti að minni sveiflur væru í umfangi framkvæmda. Jafnvel þannig að þær væru heldur meiri á samdráttarskeiðum en uppgangsskeiðum. Gera má ráð fyrir að meira svigrúm sé hjá verktökum til að standa að framkvæmdum með hagkvæmum hætti þegar annir eru minni í öðrum verkefnum.

NÝTING NÆRINGAREFNA

Það er eingöngu á fáum svæðum hér á landi sem krafa er um hreinsun næringarefna úr skólpi. Þess vegna eru tækifæri til endurvinnslu þeirra mjög takmörkuð miðað við núverandi innviði, og gera má ráð fyrir að breytingar þar á yrðu verulega kostnaðarsamar. Hagkvæmasta leiðin til nýtingar næringarefna úr fráveitum er að öllum líkindum innleiðing þurrsalerna. Líta mætti til þess valkostar, til dæmis við uppbyggingu salernisaðstöðu fyrir ferðamenn.

RÝNI

Fráveitumál eru samfélaginu mikilvæg með síauknum kröfum um gæði, skilvirkni og hagkvæmni. Þessi greining sem unnin hefur verið um fráveitur endurspeglar vel ástand og þörf í þjóðfélaginu. Ljóst er að mikið verk er fram undan á þessu sviði við að viðhalda fráveitukerfum sem komin eru á tíma, uppbygging á nýjum svæðum og aukning á kröfum um losun út í umhverfið. Með uppbyggingunni sem er í þjóðfélaginu í dag er tækifæri til að nýta nýja þekkingu, til dæmis með því að innleiða blágrænar lausnir í ofanvatnsmálum. Svo blasa við tækifærin í nýtingu á orku og næringarefnum sem falla til í skólpi. Til að ráða við þessi verkefni er nauðsynlegt að efla og fjölga fólki með almenna grunnmenntun í veitukerfum ásamt því að stuðla að tækifærum til að sérhæfa fagfólk á þessu sviði.

Aldís Ingimarsdóttir, aðjúnkt í Háskólanum í Reykjavík.

HEIMILDIR

 • EFLA. (2011). Fráveitukerfi OR – Áætlun fyrir fóðrun og viðgerðir 2012–2032. Reykjavík: Orkuveita Reykjavíkur og verkfræðistofan EFLA.
 • Orkuveita Reykjavíkur. (2016). Umhverfisskýrsla OR 2015. Reykjavík: Orkuveita Reykjavíkur.
 • Thomas Djursing. (2016). Vi ignorerer alarmklokkerne: Fosformangel er på vej op i det røde felt. Sótt þann 17. maí 2017 af https://ing.dk/artikel/
 • Umhverfisstofnun. (2013). Report to the EFTA Surveillance Authority regarding the implementation of Directive 91/271/EU on the treatment of wastewater from agglomerations. Reykjavík: Umhverfisstofnun.
 • Umhverfisstofnun. (2014). Rauði listinn – svæði í hættu – Yfirlit til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Reykjavík: Umhverfisstofnun.
 • Viðlagatrygging Íslands.