Raforkuflutningar og dreifing


Hér á landi er raforka unnin í vatnsafls- og jarðgufuvirkjunum sem margar eru fjarri notkunarstöðum orkunnar og þarf því umfangsmikið kerfi til að flytja hana frá virkjun til notenda. Kerfinu hefur verið skipt upp í tvo hluta, flutningskerfi sem rekið er af Landsneti og dreifikerfi sem rekin eru af sex dreifiveitum. Hlutverk flutningskerfisins er að flytja raforku í stórum stíl frá vinnslustað til valdra afhendingarstaða þar sem raforkan er annað hvort afhent til stórnotenda eða til dreifiveitna sem flytja hana áfram til almennra notenda. Flutningskerfið er rekið á hærri spennu (66 kV til 220 kV) en dreifikerfin, sem eru rekin á spennubilinu 0,4 kV til 132 kV. Dreifiveiturnar eru HS Veitur, RARIK, Veitur, Norðurorka, Orkubú Vestfjarða og Rafveita Reyðarfjarðar. Megineiningarnar í þessum kerfum eru aflspennar, aflrofar, loftlínur og strengir. Kostnaður við einstakar einingar eykst með hækkandi spennu en umfangið er aftur á móti mest á lægri spennunum í dreifikerfinu.

  • Endurstofnvirði: 320 milljarðar króna.
    Uppsöfnuð viðhaldsþörf: 70 milljarðar króna.
  • 3,5 ÁSTAND
  • Grænt FRAMTÍÐARHORFUR

ÁSTAND

3,5 RAFORKUFLUTNINGUR OG DREIFING

Dreifikerfið í þéttbýli er í góðu ástandi en í dreifbýlinu þarf að byggja kerfið upp frekar til að hægt sé að afhenda 3ja fasa rafmagn alls staðar. Þrífösun er mikilvæg þar sem flest stærri tæki sem drifin eru af rafmótorum þurfa þriggja fasa rafmagn. Verulegar takmarkanir eru í flutningskerfi raforku og á vissum stöðum getur það ekki annað auknum flutningi og því ekki hægt að verða við óskum notenda um aukna notkun. Auk þess getur þurft að skerða núverandi notendur á háálagstíma á sumum landssvæðum.

Dæmi eru um að þessar takmarkanir hafi komið í veg fyrir atvinnuþróun þar sem fyrirtæki í annars góðum rekstri geta ekki stækkað og þróast vegna skorts á raforku.

Dreifikerfi raforku. Dreifikerfi raforku í þéttbýli er í góðu ástandi og lítið er um rekstrartruflanir í þeim kerfum. Kerfin eru nánast alfarið í jörðu og helsta hættan sem steðjar að þeim eru skemmdir þegar grafið er í strengi við framkvæmdir.

Í dreifbýli er meira um truflanir enda er lengd þeirra kerfa í hlutfalli við flutta orku mun meiri en í þéttbýli og hluti kerfisins í loftlínum sem eru útsettar fyrir veðuráhrifum og ýmsum öðrum ytri áverkum sem geta valdið truflunum á rekstri kerfisins og skemmdum á búnaði. RARIK og Orkubú Vestfjarða hafa á undanförnum árum unnið að endurnýjun kerfanna í dreifbýlinu og koma þá yfirleitt þriggja fasa jarðstrengir í stað núverandi einfasa loftlína. Sú uppbygging mun halda áfram á næstu árum og stefnt er að því að nánast á öllum byggðum svæðum á landinu verði tiltækt þriggja fasa rafmagn sem kallar á verulegar framkvæmdir þar sem einfasa loftlínur eru nú um 2.400 km í kerfi RARIK. Fram undan er því nokkur kostnaður við uppbyggingu þessara kerfa og er hann talinn nauðsynlegur til að koma dreifikerfi raforku í ástandsflokk 4.

Flutningskerfi raforku. Landsnet hefur sett fram í kerfisáætlun áform um uppbyggingu flutningskerfis raforku og er þar bæði að finna þriggja ára framkvæmdaáætlun og langtímaáætlun. Skipta má flutningskerfinu í tvo þætti; annars vegar í meginflutningskerfið, sem er 220 kV kerfið auk 132 kV byggðalína og Suðurnesjalínu, og hins vegar svæðakerfin, sem eru á 33–132 kV spennu og liggja frá meginflutningskerfinu. Í svæðakerfunum hafa verið ýmsar takmarkanir á flutningum en Landsnet hefur á undanförnum árum verið að bæta þau kerfi og dæmi um það er nýr 66 kV strengur til Vestmannaeyja. Enn eru takmarkanir í þeim kerfum en Landsnet mun á næstu árum halda áfram vinnu við endurbætur þeirra.

Landsnet hefur verið með áform um styrkingu meginflutningskerfisins en ekki hefur tekist að koma neinum nýjum raflínum í þeim kerfishluta í framkvæmd á síðustu árum. Meginflutningskerfið er öflugast á Suðvesturlandi. Þar er möskvað kerfi rekið á 220 kV spennu með þeirri undantekningu að tenging við Suðurnes byggir á einni 132 kV loftlínu. Í öðrum landshlutum er kerfið mun veikara og eru 132 kV byggðalínurnar orðnar 35–45 ára og flutningsgeta þeirra sumstaðar fullnýtt. Nánast allar raflínur sem Landsnet hefur ætlað að byggja í meginflutningskerfinu hafa mætt andstöðu og mikið verið um kærumál sem hefur gert það að verkum að engin slík framkvæmd hefur orðið að veruleika á síðustu árum. Ef slíkar framkvæmdir dragast frekar mun rekstraröryggi kerfisins minnka. Skerðingar munu aukast þar sem kerfið er veikast og víða um land mun atvinnulíf ekki eiga kost á aukinni raforkunotkun. Leggja verður í verulegar fjárfestingar í flutningskerfinu til að það komist í ástandsflokk 4.

FRAMTÍÐARHORFUR

Grænt DREIFIKERFI RAFORKU

Dreifikerfið í þéttbýli er í góðu horfi og viðhaldi og endurbyggingu þeirra kerfa hefur verið vel sinnt. Í dreifbýli hefur á undanförnum árum verið unnið að endurnýjun kerfanna og skv. áætlun dreifiveitnanna verður áfram unnið að þeim þáttum á næstu árum þannig að þeirri endurnýjun ætti að vera lokið árið 2035. Uppbygging kerfanna kallar á verulegar fjárfestingar og eru þær taldar nauðsynlegar til að kerfin komist í ástand 4. Með þessari fjárfestingu ættu allir landsmenn að eiga möguleika á þriggja fasa rafmagni.

Flutningskerfi raforku. Landsnet hefur unnið ítarlegar áætlanir um uppbyggingu flutningskerfisins sem koma fram í kerfisáætlun fyrirtækisins. Markmiðið með þessum áætlunum er að byggja upp kerfið þannig að þeim takmörkunum sem nú eru í því verði aflétt og að hægt verði að mæta framtíðarvexti álags og tengja nýjar virkjanir um allt land við raforkukerfið. Að undanförnu hefur verið unnið að uppbyggingu svæðakerfa og þarf að halda því verki áfram. Verr hefur gengið að byggja upp meginflutningskerfið. Það má fyrst og fremst rekja til deilna um þær framkvæmdir sem Landsnet hefur viljað ráðast í. Deilur hafa endað fyrir dómstólum sem hefur miklar tafir í för með sér.

Þar að auki hefur ekki fengist niðurstaða í það hvernig eigi að hátta framtíðartengingu milli Suður- og Norðurlands þar sem Landsnet hefur lagt fram tvær mögulegar leiðir. Ef tryggja á öryggi raforkuafhendingar og hægt á að vera að mæta þörfum um aukna raforkunotkun um allt land verður að byggja upp öflugt flutningskerfi. Hér er horft til kerfisáætlunar Landsnets og tekinn lágmarkskostnaður sem þarf til að byggja upp kerfið svo það uppfylli kröfur um öryggi og bjóði upp á aukna notkun og nýjar virkjanir. Á þennan hátt á flutningskerfi raforku að eflast á næstu árum og áratugum og ætti það með tímanum að ná einkunn 4.

HVERNIG KOMUM VIÐ Á BREYTINGUM?

BYGGJA ÞARF UPP KERFIÐ Í DREIFBÝLI

Byggja þarf upp þriggja fasa kerfi sem nær til alls landsins. Kostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 12 milljarðar króna á verðlagi ársins 2017.

KOMA ÞARF UPPBYGGINGU FLUTNINGSKERFISINS Á SKRIÐ

Fá þarf niðurstöðu í það hvaða leið á að fara varðandi uppbyggingu meginflutningskerfisins en Landsnet hefur lagt fram tvær meginleiðir, þ.e. Byggðaleið og Hálendisleið, og mikilvægt er að niðurstaða fáist í það hvora leiðina á að fara. Kostnaður er mismikill eftir því hvaða leið er farin og Landsnet þarf skv. lögum að meta kostina út frá kostnaði og því þurfa stjórnvöld að koma að þessari ákvörðun ef velja á aðra leið en þá ódýrustu. Skiptar skoðanir eru um þessar leiðir út frá umhverfissjónarmiðum en hálendislína fer um lítt snortið land meðan byggðaleið liggur um langan veg nálægt hringvegi landsins og er víða í nágrenni vinsælla ferðamannastaða. Mikill munur er á kostnaði milli leiða.

Þær framkvæmdir í meginflutningskerfinu sem Landsnet hefur ætlað að ráðast í hafa nánast allar tafist vegna andstöðu við viðkomandi framkvæmd sem hafa leitt til kærumála og í kjölfarið hefur oft komið til dómsmála. Af þessum sökum er stöðugt verið að fara til baka í ferlinu og framgangur verkefna nánast enginn. Með þessu framhaldi verður ekki séð að nauðsynleg uppbygging flutningskerfisins geti orðið að veruleika á næstu árum sem mun leiða af sér verulegar takmarkanir í kerfinu varðandi aukna notkun og bitna á öryggi kerfisins.

Samkvæmt áætlun Landsnets þarf að leggja að lágmarki um 55 milljarða króna í uppbyggingu kerfisins til að það geti sinnt hlutverki sínu á viðunandi hátt.

RÁÐLEGGINGAR

UPPBYGGING MEGINFLUTNINGSKERFISINS

Stjórnvöld þurfa að koma að vali á kostum varðandi uppbyggingu meginflutningskerfisins. Finna þarf leið til að leyfisveitingar gangi betur fyrir sig og taki skemmri tíma og tryggja þarf samræmi í vinnubrögðum milli aðila sem koma að ferlinu. Bæta þarf vinnu við undirbúning framkvæmda sem ætti að gera alla málsmeðferð hraðari og skilvirkari. Hér þarf hugsanlega að finna skýrara ferli og einfaldara lagaumhverfi.

ORKUSKIPTI

Dreifiveitur þurfa að huga vel að uppbyggingu kerfisins á næstu árum til að orkuskipti í samgöngum geti orðið að veruleika í samræmi við stefnu stjórnvalda. Huga þarf að landtengingu flutninga- og skemmtiferðaskipa en vegna þess hve mikið álag getur verið í einu skemmtiferðaskipi getur slík tenging kallað á verulegar fjárfestingar hjá dreifiveitu.

RÝNI

Þessi athugun lýsir ágætlega núverandi stöðu í raforkuflutningi og dreifingu sem fær einkunnina 3,5 og bendir m.a. á að ráðast þarf í töluverða endurnýjun og uppbyggingu á íslenska raforkuflutningskerfinu ef viðhalda á ásættanlegu raforkuöryggi til framtíðar.

Ragnar Kristjánsson, lektor, tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík

HEIMILDIR

  • Kerfisáætlun Landsnets 2016-2015. Innviðirnir okkar - Leiðin að rafvæddri framtíð.
  • Orkuspárnefnd, 2016. Raforkuspá 2016–2050.
  • Endurreikningur á spá frá 2015 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum.
  • Ársskýrslur Landsnets og dreifiveitna.
  • Upplýsingar úr bókhaldi og viðlagatryggingu veitna og aðrar nauðsynlegar upplýsingar sem þær hafa veitt.