Hitaveitur


Hitaveitur miðla varma í formi vatns eða gufu til notenda sem nýta hann til hitunar með ofnum, lofthiturum, gólfhitakerfum eða geislahitakerfum. Hitaveitur hafa verið starfræktar á Íslandi í meira en 100 ár. Saga hitaveitna á Íslandi hófst árið 1906 þegar fyrsta húsið var hitað með hitaveitu. Eingöngu var um að ræða einn hver, eina stofnlögn og eitt hús. En mjór er mikils vísir. Með tilkomu Hitaveitu Reykjavíkur um 1930 komst stígandi í uppbygginguna og nú er svo komið að yfir 90% húsa á Íslandi eru hituð með hitaveitu.

Vöxtur umfram fólksfjölgun (1,5% á ári) er vart fyrirsjáanlegur nema ef vera kynni vegna fjölgunar á notendum á veitusvæðum umfram fólksfjölgun eða þá að veitur sæki fram með sölu á varma til iðnaðar eða annarrar atvinnustarfsemi á veitusvæðum. Langflestar íslenskar hitaveitur nýta lághitavatn úr borholum við hita á bilinu 60–130°C. Slíkt lághitavatn er oftast notað beint inn á hitaveitukerfin. Þegar hitastig vökva úr borholum er hærra er varminn unnin með því að hita upp kalt vatn sem er svo veitt inn á hitaveituna. Einnig eru til dæmi um íslenskar hitaveitur sem eru olíu- og rafkyntar og ein nýtir sjó sem varmagjafa með hjálp varmadælu.

Í þessum kafla verður fjallað um íslenskar hitaveitur, allt frá vinnslu orkunnar úr jarðhitakerfi eða með öðrum orkugjöfum. Einnig verður fjallað um stofnleiðslur hitaveitna og dælustöðvar, hverfisdælustöðvar, dreifikerfi, heimtaugar og inntök. Ekki verður fjallað um kerfi hjá notendum þó svo að í einstaka tilviki sé allt kerfið í eigu sama aðila, frá orkuöflun til innanhússkerfa. Í upphafi hitaveitureksturs hér á landi var algengast að sami aðili ætti allt hitaveitukerfið. Svo er ekki lengur. Nú kaupa sumar stóru veiturnar varma í formi upphitaðs vatns frá framleiðanda eða eiganda varmaorku.

 • Endurstofnvirði: 200 milljarðar króna.
  Uppsöfnuð viðhaldsþörf: 2 milljarðar króna.
 • 4 ÁSTAND
 • Grænt FRAMTÍÐARHORFUR

ÁSTAND

4 HITAVEITUR Á ÍSLANDI

Íslenskar hitaveitur eru á heildina litið í góðu standi. Úttekt á viðhaldsþörf fer reglulega fram og langtímaáætlanir liggja fyrir um viðhald og endurbætur hjá öllum stærri veitum og hluta þeirra minni.

Starfsemi hitaveitna á Íslandi er markaður rammi í orkulögum. Allar hitaveitur sem fá einkaleyfi til að dreifa heitu vatni og selja skulu starfa eftir reglugerðum sem skilgreina umfang veitusvæðis, ákvæði um gjaldskrár, o.fl. Á það við dreifingu heits vatns til upphitunar húsa og annarrar starfsemi þar sem varmaorka úr kerfi veitunnar er nýtt til iðnaðar eða garðyrkju. Horfur í náinni framtíð, þ.e. til ársins 2027, eru góðar því ekkert bendir til annars en að tekjur af varma og vatnssölu muni standa undir nauðsynlegu viðhaldi og endurbótum.

Rekstur á hitaveitu á Íslandi er oftast háð einkaleyfi sem gefið er út af stjórnvöldum og er því samkeppni takmörkuð. Margar smærri veitur hafa þó ekki skilgreind einkaleyfi og eru oft í eigu þeirra sem þeirra njóta.

Gjaldskrár einkaleyfisveitna eru endurskoðaðar reglulega og eru háðar samþykki stjórnvalda. Ef óskað er eftir breytingum á gjaldskrá þurfa hitaveitur sem hafa einkaleyfi til sölu og dreifingar á heitu vatni að leggja fram rökstuddar áætlanir um útgjöld, þ.m.t. til nýframkvæmda, endurnýjunar eldri kerfa og reksturs. Í orkulögum er kveðið á um að slíkar veitur hafi heimild til að njóta arðs af eignum sínum. Því má segja að lagaumhverfi einkaleyfishitaveitnanna ýti beinlínis undir að þær séu ávallt í góðum rekstri og uppfylli skilyrði sem sett eru í reglugerðum um starfsemi þeirra.

Langtímahorfur, ef litið er 50 ár fram í tímann, eru einnig góðar. Stærstu veiturnar, sem eru á Suðvesturhorninu, virðast ekki vera í vandræðum með orkuöflun og er ekki ástæða til að ætla að það breytist.

Hitaveitur reknar af Veitum í Reykjavík þjóna stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins, Vesturlandi og Suðurlandi. Þær bera höfuð og herðar yfir aðrar veitur þegar kemur að stærð og umfangi en alls þjóna þær um 70% landsmanna eða um 230.000 manns.

HS veitur, sem á og rekur hitaveiturnar á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum, er næst stærsta veitan og þjónar hún um 30.000 manns. Norðurorka fylgir svo í kjölfarið með um 20.000 notendur á Norðurlandi.

Þessi þrjú veitufyrirtæki þjóna hitaveituþörfum um 80% landsmanna og nota til þess jarðvarma sem orkugjafa að langmestu leyti. Aðeins örfáar smærri veitur nota rafmagn eða olíu til að hita vatn sem dreift er til notenda en af þeim eru veitur á Ísafirði og í Vestmannaeyjum stærstar.

Talið er að endurstofnverð allra hitaveitna í landinu sé um 200 milljarðar króna á verðlagi í árslok 2016.

FRAMTÍÐARHORFUR

Grænt

Orkan sem hitaveitur á Íslandi nýta er náttúruauðlind sem unnin er á jarðhitasvæðum. Við upphaf hitaveitna hér á landi var einblínt á þau lághitasvæði sem lágu í og við byggðirnar og voru þess eðlis að nýta mátti vatnið beint á dreifikerfi og hitakerfi húsa. Þetta vatn dugði framan af en útþensla hitaveitna og fólksfjölgun gerir það að verkum að mjög aðlæg jarðhitasvæði geta ekki mætt þörfum neytenda í stækkandi byggðarlögum til lengri tíma. Þegar sú staða kemur upp verður að leita annarra leiða.

Nokkur svæði á Íslandi eiga nú, eða hafa átt, við þetta vandamál að stríða, þ.e. að nýtanleg lághitasvæði nærri og stundum fjarri neytendum eru komin að þolmörkum. Þetta ástand var áberandi á höfuðborgarsvæðinu á níunda áratug síðustu aldar þegar nýting jarðhitasvæða innan borgarmarkanna og í nágrannabænum Mosfellssveit var komin að þolmörkum. Þá var gripið til þess ráðs að virkja jarðhita á jarðhitasvæðum sem liggja hvað næst höfuðborgarsvæðinu, á Nesjavöllum og síðar á Hellisheiði. Bæði þessi svæði eru háhitasvæði og til þess að jarðvarminn þar nýtist til hitaveitu þarf að nota hann til þess að hita upp kalt vatn og aflofta það. Þessi tvö svæði hafa sýnt sig vera mjög öflug og benda rannsóknir til þess að þau muni nýtast höfuðborgarsvæðinu lengi enn.

En það geta ekki allir þéttbýliskjarnar á Íslandi sem nú njóta hitaveitu gripið til háhitasvæða í heppilegri fjarlægð þegar og ef núverandi nýting lághitasvæðanna hættir að duga til. Dæmi eru um hitaveitur á þéttbýlissvæðum sem nálgast þolmörk sín. Fyrir hendi eru nokkrar leiðir til að taka á þessu sem m.a. felast í bættri orkunýtingu og því að draga úr flutningstapi. Það er heldur ekki óþekkt að leit að nýjum, óþekktum lághitasvæðum skili árangri. Í þeim tilfellum er allur gangur á því hversu kostnaðarsamt er að virkja auðlindina. En eins og áður hefur komið fram má nýta íslenskt regluverk til þess að aðlaga gjaldskrá að breyttum aðstæðum sem þessum.

Náttúruhamfarir á borð við eldgos og jarðskjálfta eru ógn við óraskaðan rekstur íslenskra hitaveitna. Þau fyrirbrigði eru hins vegar óumflýjanleg þar sem þau eru ástæða þess að nýtanlegur jarðhiti fyrirfinnst á Íslandi. Helstu áhyggjur manna af afleiðingum slíkra jarðhræringa tengjast Hengilssvæðinu. Þar á umtalsverð orkuöflun sér stað og illmögulegt að segja til um hverjar afleiðingarnar yrðu ef þar kæmi upp eldgos. Hið sama á við um Reykjanesskagann, þaðan sem HS veitur fá alla sína orku. Mannvirki í jarðhitavirkjunum á Íslandi eru öll hönnuð til að standast líklega jarðskjálfta, en óvíst er um áhrif þeirra hamfara verði þær miklar.

Það er þekkt að áhrif jarðskjálfta ná einnig til lághitasvæða. Yfirleitt er það þó ekki með þeim hætti að svæðin beri af þeim verulegan skaða eða þá að nýting leggist af. Flest það tjón sem átt hefur sér stað í jarðskjálftum á lághitasvæðum hefur mátt laga og stundum hefur virkni svæðanna aukist í kjölfar þeirra.

Til að halda í við fólksfjölgun þurfa hitaveiturnar að verja um 3 milljörðum króna á hverju ári til nýframkvæmda á veitusvæðum sínum. Til viðbótar koma svo nýjar veitur en það eru takmörk fyrir því hversu nærri 100% rétt er að teygja sig vegna kostnaðar við orkuöflun og dreifikerfi. Nokkrar slíkar eru í burðarliðnum en kostnaður er hár.

HVERNIG KOMUM VIÐ Á BREYTINGUM?

Sökum þess hve rekstur hitaveitna gengur vel og því hversu góðar framtíðarhorfur eru, er ekki talin ástæða til stefnumarkandi breytinga. Helsta áskorun hvað þetta varðar er að víkja ekki út af þeirri braut viðhalds og endurfjárfestinga sem núverandi rekstur tekur mið af.

Eins og áður hefur komið fram þarf 3 milljarða króna á ári til að halda í við fólksfjölgun og stækkun markaða á veitusvæðum. Til viðbótar þarf um 4 milljarða króna á ári til að viðhalda núverandi kerfum, endurnýja, breyta og lagfæra til að viðhalda nauðsynlegum gæðum og orkuöryggi. Auk þess þarf áfram að stunda öflugar rannsóknir á jarðhitasvæðum, vera með virkt eftirlit, gagnaöflun og greiningu til að tryggja hagkvæma nýtingu til framtíðar.

RÁÐLEGGINGAR

Eftirfarandi ráðleggingar eru taldar mikilvægar þegar til framtíðar hitaveitna á Íslandi er litið.

 • Halda þarf áfram að leita að jarðhitasvæðum sem gætu þjónað hitaveitu á svæðum sem ekki njóta jarðvarma nú.
 • Nýframkvæmdir sem þarf til þess að mæta nauðsynlegri uppbyggingu hitaveitna ásamt viðhaldi núverandi kerfa eru metnar sem 7–8 milljarðar króna á ári. Mikilvægt er að þær eigi sér stað jafnt og þétt, eftir fyrir fram ákveðinni áætlun. Ef rétt er að málum staðið eiga íslenskar hitaveitur að geta staðið undir þessu með sölu varmaorku gegnum gjaldskrá.
 • Rekstrarkostnaði hitaveitna þarf að stilla í hóf. Ekki er talið ráðlagt að rekstrarfélög slíkra veitna komi sér upp stórum teymum sérfræðinga, iðnaðar- og verkamanna til að anna verkefnum sem ekki eru stöðugt á dagskrá. Ódýrari kostur er að sækja slíka sérfræðiþekkingu og þjónustu utanhúss þegar þörf skapast.
 • Gæta þarf að því að rekstur hitaveitna taki eingöngu mið af hlutverki sínu. Til þessa hefur það ekki skilað ábata þegar íslensk hitaveitufyrirtæki hafa tekið að sér aðra, óskylda starfsemi. Slík verkefni hafa einkum verið þau sem nýta heitt vatn með einum eða öðrum hætti en talið er æskilegra að aðrir, óskyldir rekstraraðilar annist slíkt og greiði fyrir sín afnot af þjónustu veitunnar.

RÝNI

Íslendingar njóta verulega góðs af útbreiðslu hitaveitna í landinu og er einkunnin 4 réttmæt fyrir þennan þátt. Kaflinn gefur greinargott yfirlit yfir stöðu hitaveitna á Íslandi.

Guðrún Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík.

HEIMILDIR

 • Orkulög nr. 58/1967 V. kafli um hitaveitur ásamt raforkulögum nr. 65/2007 mynda lagarammann um starfsemi hitaveitna á Íslandi.
 • Allar einkaleyfisveitur þurfa að auki að styðjast við reglugerðir sem gefnar eru út af stjórnvöldum og má finna flestar þær sem um veiturnar gilda á vefsíðum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
 • Flestar einkaleyfisveitur gefa á hverju ári út mjög góðar ársskýrslur þar sem finna má ítarlegt talnaefni sem tengist framkvæmdum og rekstri veitnanna. Þá miðlar Orkustofnun miklu af upplýsingum á vefsvæðum sínum um vinnslu á heitu vatni til húshitunar, baða, iðnaðar og garðyrkju.