Úrgangsmál


Hefðbundnum innviðum tengdum meðhöndlun úrgangs má skipta í sex flokka.

  • Innviðir til söfnunar og flutnings úrgangs sem eru til dæmis ílát og gámar, söfnunarbílar úrgangs og flutningatæki. Grenndarstöðvar, gámastöðvar, móttökustöðvar og umhleðslustöðvar falla einnig í þennan flokk.
  • Innviðir til frekari flokkunar úrgangs eru flokkunarstöðvar þar sem úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum er flokkaður frekar svo hann verði hæfari til endurnýtingar.
  • Innviðir til endurvinnslu eða endurnýtingar úrgangs eru til dæmis jarðgerðastöðvar og stöðvar þar sem úrgangi er breytt í efni og vörur sem nýta má á ný.
  • Innviðir til varma- eða raforkuframleiðslu úr úrgangi eru til dæmis sorpbrennslustöðvar þar sem varmi frá brennslunni er til að mynda nýttur til húshitunar eða raforkuframleiðslu.
  • Innviðir til eldsneytisframleiðslu úr úrgangi eru til dæmis gasgerðarstöðvar, lífdísilstöðvar og gassöfnunarkerfi á urðunarstöðum.
  • Innviðir til förgunar eru urðunarstaðir sem taka við úrgangi sem ekki er enn mögulegt eða hagkvæmt að nýta með öðrum hætti.

Þessu til viðbótar er öll sú starfsemi sem er til þess fallin að draga úr magni úrgangs hér á landi, en hún gegnir mikilvægu hlutverki í úrgangsmálum. Þar er til dæmis átt við fatasöfnun, nytjamarkaði, bílapartasölur og svo framvegis.

  • Endurstofnvirði: 35–40 milljarðar króna.
    Uppsöfnuð viðhaldsþörf: 10–15 milljarðar króna.
  • 3 ÁSTAND
  • Grænt FRAMTÍÐARHORFUR

ÁSTAND

3

Endurstofnverð úrgangsinnviða hér á landi nemur um 35–40 milljörðum króna. Fjárfesting sem þörf er á, umfram reglubundið viðhald, svo úrgangsinnviðir nái ástandseinkunninni 4 nemur um 10–15 milljörðum króna.

Söfnun og flutningur úrgangs er í höndum sveitarfélaga og fyrirtækja sem sinna þeirri þjónustu fyrir þeirra hönd. Meta má ástand þess flokks innviða annars vegar út frá ástandi tækja, íláta og búnaðar og hins vegar út frá því hvort þjónusta og aðstaða sé fyrir hendi til flokkunar fyrir íbúa í samræmi við kröfur laga og reglugerða. Höfundar telja að aldur og ástand tækja og íláta sem eru í notkun í dag sé almennt gott. Gáma-, móttöku- og umhleðslustöðvar eru þó sumar komnar til ára sinna. Hins vegar ratar enn nokkuð stór hluti úrgangs óflokkaður í söfnunarílát og þaðan í urðun. Þar er til dæmis um að ræða pappír, plast, gler, málma, rafúrgang og spilliefni auk lífræns úrgangs. Því er einhver þörf á fjárfestingu í nýjum ílátum og söfnunartækjum, sérstaklega fyrir lífrænan úrgang.

Forflokkuðum úrgangi er nú safnað í nokkrar flokkunarstöðvar til frekari flokkunar. Meta má gæði flokkunarstöðvanna út frá aðferðarfræði og ástandi tækja þeirra og mannvirkja. Ástand mannvirkja og tækja á flokkunarstöðvum er breytilegt en í heild þokkalegt. Vélvæðing flokkunar er almennt minni en algengt er í nágrannalöndum. Nokkurrar fjárfestingar er þörf í betri búnaði til flokkunar í stöðvunum.

Endurnýting flokkaðs úrgangs frá íslenskum heimilum og fyrirtækjum fer að stórum hluta fram erlendis. Undantekning á þessu er jarðgerð lífræns úrgangs, vinnsla og nýting timburs og jarðefna auk vinnslu og nýtingar úrgangs í iðnaði. Um 75% lífræns úrgangs hérlendis fer í endurvinnslu og endurnýtingu. Mikilvægt er að hækka þetta hlutfall með aukinni nýtingu núverandi jarðgerðarstöðva og, eftir atvikum, uppbyggingu nýrra gas- og jarðgerðarstöðva.

Enn eru engin dæmi um það að lífrænn úrgangur sé gasgerður í gasgerðarstöðvum hér á landi. Gasi hefur þó verið safnað frá tveimur urðunarstöðum til eldsneytisframleiðslu. Í undirbúningi er að reisa gasgerðarstöð á höfuðborgarsvæðinu fyrir lífrænan úrgang sem framleiða á eldsneyti og moltu.

Brennsla úrgangs til orkuframleiðslu er hverfandi hér á landi. Einungis ein sorpbrennslustöð hefur starfsleyfi í landinu og er varminn frá brennslunni ekki nýttur í dag. Stöðin er komin til ára sinna og starfar á nærri fullum afköstum. Dæmi eru um að lífdísill sé framleiddur úr úrgangsfitu eða matarolíu en óhætt er að fullyrða að nægur úrgangur af þessum toga sé til staðar og stórauka megi þá framleiðslu.

Um 20% alls úrgangs hér á landi eru urðuð. Það hlutfall er hærra en víða erlendis, til að mynda á Norðurlöndunum. Í landinu er einn stór urðunarstaður sem uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til urðunarstaða í íslenskum reglugerðum, tveir miðlungs stórir og svo um 20 minni. Minni urðunarstaðir taka sumir eingöngu við óvirkum úrgangi og þurfa því að uppfylla minni kröfur um mengunarvarnir. Gassöfnunar er þörf á miðlungsstóru stöðunum og er undirbúningur hafinn þó enn eigi eftir að byggja upp söfnunarkerfi. Þörf er á nýjum urðunarstað í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem leyfi fyrir núverandi stað renna út á næstunni.

Enduruppbyggingar er þörf hjá nokkrum einkaaðilum í úrgangsgeiranum vegna flutninga og uppbyggingu nýrrar aðstöðu.

Markmið úrgangsforvarna er að draga úr myndun úrgangs. Þróun úrgangsmyndunar hefur verið nátengd mannfjöldaþróun og hagvexti. Líta má á það sem langtímamarkmið úrgangsforvarna að rjúfa að einhverju leyti þau tengsl, þannig að hægja fari á aukningu í magni úrgangs þrátt fyrir að hagur þjóðarinnar haldi áfram að batna og íbúum fjölgi. Þrátt fyrir að sífellt meiri meðvitund sé í samfélaginu um mikilvægi umhverfismála þá er fátt sem bendir til þess að tekist hafi að hægja verulega á aukningu í myndun úrgangs samfara bættum efnahag. Vitund um mikilvægi úrgangsmála og ábyrgrar nýtingar auðlinda er þó að aukast en víðtæk vitundarvakning getur skilað miklum árangri á skömmum tíma.


FRAMTÍÐARHORFUR

Grænt

Þróunin hér á landi hingað til hefur verið sú að auknum mannfjölda og bættum efnahag fylgir aukið magn úrgangs. Á móti kemur aukin vitund almennings um mikilvægi umhverfismála og sjálfbærrar þróunar og ýmsar aðgerðir sem gripið hefur verið til og eru í undirbúningi. Úrgangsforvarnir eru eitt meginmarkmið úrgangsstjórnunar og gera má ráð fyrir að áhersla á þær aukist á næstu árum. Með úrgangsforvörnum er átt við aðgerðir til að draga úr myndun úrgangs.

Miklar breytingar til batnaðar hafa orðið í úrgangsmálum hér á landi á undanförnum árum og munu þær halda áfram ef tekið er mið af þróun nýliðinna ára og áætlunum sem gerðar hafa verið. Urðun og brennsla voru lengi helstu leiðir til förgunar úrgangs en í dag er ekki nauðsyn að urða nema lítinn hluta af þeim úrgangi sem til verður og brennslan er fullkomnari. Gera má ráð fyrir að kröfur til aukinnar flokkunar og nýtingar úrgangs verði stöðugt hertar og má í því sambandi til dæmis líta til nýlegra tilskipana Evrópusambandsins og þeirrar umræðu sem þar er. Leggja þarf mikla áherslu á forvarnir og fræðslu, bætta flokkun og styðja innlenda endurvinnslu og endurnýtingu og draga þannig úr sóun og bæta umhverfið. Reynslan sýnir þó að flokkun og bætt nýting úrgangs er krefjandi verkefni hér á landi meðal annars vegna smæðar samfélagsins og dreifðrar byggðar í landinu.

Vönduð flokkun er forsenda þess að bæta megi nýtingu úrgangs en með flokkun er verðmætur hluti úrgangs aðgreindur frá verðlausum, ónýtanlegum hluta hans. Flokkun fer fram á upprunastað en einnig í flokkunarstöðvum. Ætla má að tækifæri íbúa og fyrirtækja til ítarlegri flokkunar úrgangs samhliða söfnun hans verði aukin, samhliða því að strangari kröfur verði gerðar til þeirra um að slíkri flokkun sé sinnt. Forsenda þess að gera megi slíkar kröfur er að flokkunin sé aðgengileg og tiltölulega einföld og útfærð þannig að hún sé stöðluð og kalli á sem allra minnsta fyrirhöfn fyrir almenning og fyrirtæki.

Aukin nýting úrgangs kallar alla jafna á aukna flutninga frá söfnunarstöðum að flokkunarstöðvum, endurvinnslustöðvum eða brennslustöðvum. Ekki eru því líkur á að dragi úr flutningi úrgangs hér á landi í fyrirsjáanlegri framtíð. Það eykur enn á mikilvægi þess að lögð sé áhersla á að draga úr magni úrgangsins og að úrgangur sé endurunninn nærri uppsprettu þegar það á við. Þannig er fjárhagslegt og umhverfislegt álag af flutningum lágmarkað.

Opinber tímasett markmið í úrgangsmálum koma fram í reglugerð um meðhöndlun úrgangs númer 737/2003 og hafa þau ratað inn í stefnumörkun á borð við landsáætlun um meðhöndlun úrgangs og áherslur Sambands íslenskra sveitarfélaga. Miðað við sett markmið og áætlanir eru batnandi horfur fram undan í úrgangsmálum, þó ekki sé víst að öll markmið náist innan tilskilins tímafrests.

HVERNIG KOMUM VIÐ Á BREYTINGUM?

Íslendingar hafa leitt í lög og reglugerðir markmið í úrgangsmálum sem miða að því að lágmarka umhverfisáhrif, þar með talið mengun og ágang á auðlindir jarðarinnar. Það er alþjóðlegt úrlausnarefni og því sanngjarnt að Íslendingar gangi eins langt og aðrir í þessum efnum. Þess vegna er mikilvægt að lagt sé í uppbyggingu innviða sem nauðsynlegir eru fyrir flokkun, söfnun, flutning, móttöku, endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs. Þrátt fyrir að slík meðferð úrgangsins sé nokkuð dýrari en urðun og kalli í einhverjum tilfellum á stærri rekstrareiningar og aukinn flutning úrgangs.

Brýnustu framkvæmdirnar sem leggja þarf í til að stuðla að þessari þróun eru:

  • Bætt aðgengi notenda að flokkun og fjölgun söfnunartækja með skiptum kassa fyrir flokkun.
  • Enduruppbygging og hugsanlega einnig fjölgun flokkunarstöðva þar sem leitast er við að nota bestu fáanlegu tækni.
  • Uppbygging nýrra gas- og jarðgerðarstöðva auk betri nýtingar þeirra stöðva sem fyrir eru, einnig þarf að huga að aukinni nýtingu afurðanna.
  • Uppbygging og stuðningur við aðra endurvinnslu sem rekstrargrundvöllur er fyrir hérlendis, helst sem næst upprunastað úrgangsins.
  • Aukin eldsneytisframleiðsla úr úrgangi. Skýr stefnumótun um öruggar framtíðarlausnir í eyðingu sóttmengaðs úrgangs, hugsanlega með endurbótum á núverandi sorpbrennslustöð, byggingu nýrrar stöðvar með bestu fáanlegu tækni og hámarksnýtingu orku eða með smærri lausnum svo sem dauðhreinsunartækjum eða smærri brennsluofnum fyrir lífrænan úrgang þar sem því er við komið.
  • Enn frekari fækkun urðunarstaða sem ekki geta staðið undir umhverfisverndarkröfum vegna smæðar, úrbætur á stærri urðunarstöðum auk byggingar nýs urðunarstaðar fyrir höfuðborgarsvæðið.
  • Virkari og enn betri söfnun og meðhöndlun spilliefna, mikilvægur þáttur í því er fræðsla til almennings og fyrirtækja um þau spilliefni sem ekki mega fara í almennan úrgang.

Samfara þessu þarf að halda áfram að styðja við þá miklu vakningu sem orðið hefur í umhverfismálum á undanförnum árum. Úrgangsforvarnir þurfa að vera forgangsmál, en með úrgangsforvörnum er átt við aðgerðir sem koma í veg fyrir myndun úrgangs í samfélaginu. Þar gegna öll framleiðslufyrirtæki landsins og verslun sérstaklega mikilvægu hlutverki auk almennings og aðila sem taka að sér rannsóknir og fræðslu. Umhverfisstjórnun fyrirtækja, vistvæn innkaup, visthönnun, vistferilsgreiningar, grænt bókhald og fleiri sambærilegar aðgerðir eru mikilvæg tól til að ná árangri í þessum málum.

Kröfur almennings um góða þjónustu í úrgangsmálum kalla á framfarir í úrgangsgeiranum. Mikilvægt er að rekstraraðilum í úrgangsþjónustu séu tryggð sem best skilyrði, meðal annars með heilbrigðri samkeppni, svo þróun og framfarir undanfarinna ára geti haldið áfram. Mikilvægt er að opinber stuðningur og stefnumótun styrki sem best þessa þróun.

RÁÐLEGGINGAR

Aðgerðirnar sem mælt er með hér miðast við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs samanber 13. grein reglugerðar númer 737/2003 um meðhöndlun úrgangs eða svokallaðan úrgangsþríhyrning.

LEGGJA ÞARF ÁHERSLU Á ÚRGANGSFORVARNIR OG ENDURNOTKUN

Mikilvægasta aðgerðin í úrgangsmálum er markvissari innleiðing úrgangsforvarna. Reynslan hérlendis hefur meðal annars sýnt að hvatakerfi, umhverfisstjórnun fyrirtækja, visthönnun og fleira sambærilegt virki vel til að ná þessu markmiði. Næst á eftir úrgangsforvörnum í úrgangsþríhyrningnum kemur endurnotkun, en með því er átt við að úrgangur sé gerður hæfur til að gegna upprunalegu hlutverki sínu á ný án þess að koma þurfi til endurvinnslu hans. Þá forgangsröðun þarf að hafa í huga í úrgangsmálum.

UPPFYLLA ÞARF MARKMIÐ OG AUKNA ENDURVINNSLU

Endurvinnsla er næst á eftir endurnotkun í úrgangsþríhyrningnum. Miðað við hann á að endurvinna allan úrgang sem mögulegt og hagkvæmt er að endurvinna en hentar ekki til endurnotkunar. Það felur í sér að slíkur úrgangur sé vandlega flokkaður frá öðru, helst á upprunastað og hugað meira að bættum gæðum hans. Þannig má gera úrgang að verðmætri hliðarafurð.

MARKA ÞARF SKÝRA STEFNU UM SORPBRENNSLU EÐA AÐRA SAMBÆRILEGA TÆKNI

Í úrgangsþríhyrningnum er eyðing úrgangs með orkunýtingu framar í forgangsröðinni heldur en urðun, en mikilvægt er að hafa það í huga að hún er aftar í forgangsröðinni en endurvinnsla og endurnotkun. Því til viðbótar er mikilvægt að eyða megi sóttmenguðum úrgangi hér á landi. Hann fer nú að mestu í brennslu með spilliefnum. Spilliefni er hægt að flytja úr landi og eyða í brennslustöðvum þar. Á móti þessu kemur að magn óendurvinnanlegs brennanlegs úrgangs hér á landi er ekki verulegt, og orkuverð lágt, og því er alls óvíst að hægt sé að reka hefðbundna sorpbrennslustöð með orkunýtingu hér á landi á viðskiptalegum forsendum án þess að hún kalli á mikið magn úrgangs sem ekki ætti að rata til hennar samkvæmt forgangsröðun úrgangsþríhyrningsins. Skoða þarf einnig einfaldari lausnir eins og dauðhreinsitæki, litla brennsluofna fyrir lífrænan úrgang og útflutning á spilliefnum.

Í ljósi þessa er mikilvægt að skýr stefnumótun sé til staðar í þessum málum.

URÐUN

Draga á úr urðun eins og hægt er, líkt og markmið stjórnvalda leggja áherslu á. Það er hins vegar nauðsynlegt að fyrir hendi séu nokkrir vel uppbyggðir urðunarstaðir í landinu til að taka við þeim úrgangi sem ekki er hagkvæmt að beina í aðra farvegi.

RÝNI

Kaflinn gefur greinagott yfirlit yfir stöðu mála. Að sumu leyti er staðan viðunandi á starfssvæði stærstu þéttbýlisstaðanna en víða þarf að gera mun betur og bæta innviði.

Sá einkunnarskali sem notast er við gefur takmarkaða mynd af stöðunni þar sem hann endurspeglar einungis mannvirki í greininni. Ljóst er að víða þarf að bæta umtalsvert innviði almennt í þessum málaflokki sem leiðir til einkunnarinnar 1. Í þessari greiningu er farin sú leið að gefa heildareinkunnina 3.

Í kjölfarið er nauðsynlegt að framkvæma nánari stefnumótun og greiningavinnu eins og mælt er með hér að framan.

Eyþór Rafn Þórhallsson, dósent og byggingarverkfræðingur, tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

HEIMILDIR

  • Ársreikningar helstu fyrirtækja í úrgangsmálageiranum.
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. (2013). Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013–2024.
  • Úrgangsstjórnun til framtíðar. Reykjavík: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
  • Umhverfisstofnun. (2017). National Inventory Report – Emissions of Greenhouse Gases in Iceland from1990 to 2015. Reykjavík: Umhverfisstofnun.
  • Úrvinnslusjóður. (2017). Ársskýrsla 2016. Reykjavík: Úrvinnslusjóður.
  • Áherslur Sambands íslenskra sveitarfélaga í úrgangsmálum, 2009.
  • Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Framtíð úrgangsmála í Reykjavík.
  • Aðgerðaáætlun 2015–2020. Reykjavík: Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.
  • Ársskýrsla Sorpu 2015 og fréttir á heimasíðu.
  • Samtöl við fulltrúa nokkurra fyrirtækja í úrgangsmálageiranum.