Málefni SI

Samkeppnishæft og stöðugt starfsumhverfi, öflugir innviðir, menntun og nýsköpun eru grunnur framþróunar lífskjara hér á landi. 

Verðmætasköpun sem byggir á öflugu, fjölbreyttu og samkeppnishæfu atvinnulífi er forsenda góðra lífskjara. Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar ræðst að miklu leyti af þeirri umgjörð sem stjórnvöld skapa. Samtök iðnaðarins, sem hreyfiafl í íslensku samfélagi, vilja vinna með stjórnvöldum að umbótum til hagsbóta fyrir iðnaðinn, atvinnulífið og almenning í landinu. 
Samtök iðnaðarins vilja leggja sitt af mörkum til umræðunnar og vekja athygli á þeim málefnum sem brýnust eru á sviði starfsumhverfis, innviða, menntunar og nýsköpunar.
Samkeppnishæft og stöðugt starfsumhverfi, öflugir innviðir, menntun og nýsköpun eru grunnur framþróunar lífskjara hér á landi. Með árangri á þessum sviðum má áfram skapa Íslandi sæti í fremstu röð þeirra landa þar sem best er að búa.

Framleiðnistefna SI


Aukin framleiðni er grunnur verðmætasköpunar. Þau fjögur málefni sem Samtök iðnaðarins leggja áherslu á hafa öll áhrif á framleiðni. Samtök iðnaðarins vilja vinna að framleiðniaukningu með áherslu á skilvirkt starfsumhverfi, þróun og fræðslu.

Markmið SI er að auka framleiðni og setjum við því skýr mælanleg markmið um að ná framleiðnivexti upp fyrir 2% á ári. 

Aukin framleiðni er forsenda betri afkomu fyrirtækja og bættra lífskjara almennings. Framleiðni á hverja unna vinnustund á Íslandi er undir meðaltal OECD-ríkjanna en er vegið upp á móti með mikilli vinnu.  Árlegur raunvöxtur framleiðni hefur verið um 1,3% undanfarin ár. Ef við ætlum okkur að vera í fremstu röð og standast samkeppni við aðrar þjóðir þarf framleiðnivöxtur okkar að vera umtalsvert meiri.

Með hagfelldum starfsskilyrðum, betri stjórnun, nýsköpun og vel menntuðu starfsfólki, sem drifið er áfram af nýrri hugsun, má tryggja stöðu Íslands í fremstu röð.  Samtök iðnaðarins vilja leggja sitt að mörkum til þessi sýn geti orðið að veruleika. Sérstök áhersla verði lögð á vitundarvakningu um mikilvægi framleiðni og markmið sett um að ná framleiðnivexti upp fyrir 2% á ári.

Framleiðni kemur innan frá

Uppspretta aukinnar framleiðni liggur í starfsemi fyrirtækja og stofnana. Stjórnun og skipulag gegnir þannig lykilhlutverki um að markmið um aukna framleiðni náist. Í því ljósi vilja samtökin:

  • Efla núverandi aðferðir sínar við þjónustu, ráðgjöf og aðstoð við félagsmenn sína varðandi góða stjórnun. Félagsmenn SI hafi aðgang að gæðakerfi og viðeigandi ráðgjöf.
  • Leggja sérstaka áherslu á framleiðslustjórnun sem tækifæri til framleiðniaukningar.
  • Að úttektir og áfangavottanir SI verði viðurkenndar á útboðsmarkaði sem mælikvarði á stjórnunarleg gæði.
  • Leggja áherslu á að auka og efla námsframboð og gæði varðandi rekstrar- og framleiðslustjórnun á framhaldsskólastigi.