Kjósum gott líf

Málefni SI fyrir kosningar

Öflugt, fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf er forsenda góðra lífskjara hér á landi. Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar ræðst að miklu leyti af þeirri umgjörð sem stjórnvöld á hverjum tíma skapa. Þegar kosið er til Alþingis er því í reynd verið að kjósa um samkeppnishæfni sem er forsenda góðs lífs hjá öllum landsmönnum.

Í aðdraganda þingkosninga sem verða í október vilja Samtök iðnaðarins leggja sitt af mörkum til umræðunnar. 1.400 fyrirtæki og sjálfstæðir atvinnurekendur mynda SI og eru þar af leiðandi stærstu samtök atvinnurekenda á Íslandi. Samtökin vinna að því að efla íslenskan iðnað og samkeppnishæfni hans. Við viljum að frambjóðendur allra flokka setji atvinnulífið og málefni SI á oddinn.
Samtök iðnaðarins leggja fram sex málefni sem skipta atvinnulífið og þar með fólkið í landinu miklu máli.


1. EFNAHAGSLEGUR STÖÐUGLEIKI – nauðsynlegur sjálfbærum vexti

Rekstur fyrirtækja og heimila þrífst best við stöðugleika í verðlagi og gengi. Íslenskt efnahagslíf hefur löngum verið þjakað af verðbólgu og gengissveiflum sem getur verulega dregið úr samkeppnishæfni landsins. 

Nánar

Við viljum…

...peningastefnu sem þjónar þörfum atvinnulífs og heimila
...mun lægri vexti með auknum stöðugleika og agaðri hagstjórn
...einfaldara og gagnsærra regluverk
...að dregið sé úr íþyngjandi sköttum á fólk og fyrirtæki

Stöðugleiki er forgangsverkefni

Frá stofnun hefur áhersla á stöðugleika verið hornsteinn í stefnuáherslum Samtaka iðnaðarins. Ástæðan er einföld: Starfsemi fyrirtækja og heimila þrífst best við stöðugleika í verðlagi og gengi. Við skilyrði stöðugleika verða allar viðskiptaákvarðanir einfaldari og háðar minni óvissu. Íslenskt efnahagslíf hefur hins vegar löngum verið þjakað af verðbólgu og gengissveiflum sem verulega getur dregið úr samkeppnishæfni landsins. Hagsaga Íslands einkennist öðru fremur af víxlhækkun launa og verðlags sem oftar en ekki veldur falli krónunnar með tilheyrandi verðbólguskoti. Það er til mikils að vinna að þessi saga endurtaki sig ekki.

Sem betur fer hafa síðustu misseri einkennst af meiri stöðugleika en við eigum að venjast. Hins vegar er það í skjóli fjármagnshafta. Lág verðbólga hefur verið ein mikilvægasta uppspretta kaupmáttaraukningu síðustu ára samhliða kröftugum hagvexti og hækkun launa. Þennan stöðugleika er mikilvægt  að verja  sérstaklega þegar hyllir undir afnám fjármagnshafta og gengi krónunnar mun í vaxandi mæli ráðast af þeim kröftum sem móta efnahagsþróun á hverjum tíma. Vegna þessa þarf hagstjórnin að vera öguð og einkennast af ráðdeild.

Háir vextir á Íslandi virðast vera efnahagslegt náttúrulögmál. Jafnvel þótt verðbólgan sé lág eru vextir hér margfalt hærri en í nágrannalöndum okkar. Háir vextir draga verulega úr fjárfestingum fólks og fyrirtækja en lágt fjárfestingastig hefur verið einn helsti veikleiki hagkerfisins síðustu ár. Við búum ekki við samkeppnishæft umhverfi þegar kemur að vöxtum. Ein ástæða hárra vaxta er þessi sögulegi efnahagslegi óstöðugleiki sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf í gegnum tíðina og veldur einfaldlega vaxtaálagi. Ein af forsendum lækkandi vaxta og minnkandi vaxtamunar er þannig áframhaldandi efnahagslegur stöðugleiki. Það kallar á ráðdeild í ríkisfjármálum og peningastefnu í takt við þarfir atvinnulífsins og heimila. Síðast en ekki síst þarf hegðun á vinnumarkaði að breytast og launamyndun í auknu mæli að taka mið af efnahagslegum raunveruleika. SALEK-samkomulagið er veigamikið framlag aðila vinnumarkaðarins og ríkisins við að ná fram stöðugleika á vinnumarkaði. 

  • Stöðugleiki, fyrirsjáanleiki, lág verðbólga, lægri vextir og betri starfsskilyrði hafa alltaf verið leiðarstef Samtaka iðnaðarins.  Á botni einnar dýpstu efnahagskreppu sem gengið hefur yfir Ísland árið 2009 gáfu samtökin út ítarlegt rit sem kallaðist Vöxtur og Verðmæti – mótum eigin framtíð. Þótt margt hafi áunnist síðan þá er meginefni textans afar viðeigandi og varpar skýru ljósi á áskoranir í hagstjórn og mikilvægi stöðugleikans. Ritið má nálgast hér.
  • Fíllinn í herberginu og leitin að peningastefnunni var gefið út af SA í apríl 2016 og var unnið í samvinnu við sérfræðinga aðildarfélaga SA. Ritið má finna hér en þar er að finna ítarlega skoðun á fyrirkomulagi peningastefnu og hagstjórnar sem styður við stöðugleika.

2. HÚSNÆÐI – grunnþörf yngri og eldri kynslóða

Öruggt húsnæði er grunnþörf allra, bæði yngri og eldri kynslóða. Frá árinu 2009 hefur fjöldi fullgerðra íbúða verið langt undir þörf markaðarins. Skortur er á ýmsum tegundum húsnæðis og þá sérstaklega á litlum ódýrum íbúðum.

Nánar

Við viljum…

...skapa hvata til bygginga ódýrari íbúða í takt við þarfir fólks með breytingum á mannvirkjalögum
...að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna viðhalds húsnæðis sé hækkuð aftur í 100% til að draga úr svartri atvinnustarfsemi og framkvæmd hennar einfölduð
...einfaldara og skilvirkara eftirlit með byggingarleyfishöfum sem stuðlar að auknum gæðum og framleiðni

...samstillt átak í  öflun og birtingu gagna um byggingastarfsemi því betri gögn leiða til betri ákvarðana

Húsnæðismarkaður og íbúðabyggingar

Húsnæðismarkaður og bygging nýs húsnæðis er lykilmarkaður og varðar mjög hagsmuni almennings. Annars vegar er húsnæði grunnþörf okkar allra og hins vegar er bygging húsnæðis veigamikil atvinnugrein sem er uppspretta atvinnu og verðmætasköpunar.

Síðustu ár hefur fjöldi fullgerðra íbúða verið langt undir þörf markaðarins. Skortur er á ýmsum tegundum húsnæðis og þá sérstaklega á litlum ódýrum íbúðum. Að mati Samtaka iðnaðarins þurfa á hverjum tíma að vera yfir 3.000 íbúðir í byggingu til að árlega verði lokið við byggingu a.m.k. 1.500 íbúða sem nauðsynlegt er til að mæta grunnþörfum. Líklega er þessi tala nærri 1.800 og er þá ekki tekið tillit til þeirrar uppsöfnuðu þarfar sem myndaðist á síðustu árum. Talningar samtakanna benda eindregið til að of fáar íbúðir séu í byggingu og afleiðingin sem blasir við er húsnæðisskortur og hækkandi verð.

Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að stjórnvöld skapi svigrúm fyrir mismunandi þarfir þannig að fólk hafi val um húsnæði. Byggingarreglugerð og deiliskipulagskröfur þurfa að vera sveigjanlegar til að gera mögulegt að byggja ódýrari íbúðir. Flókið regluverk eykur byggingakostnað og það þrýstir upp húsnæðisverði. Án þess að slá af kröfum um öryggi og gæði gætu stjórnvöld einfaldað regluverkið til mikilla muna sem gæfi þá færi á að lækka íbúðarverð.

Á síðustu árum hefur um og yfir 30% af nýju húsnæði verið í útjaðri byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er vaxandi áhersla á þéttingu byggðar og mikill meirihluti byggingarverkefna á næstu misserum verður inni í miðju þéttbýli. Þetta kemur skýrt fram í aðalskipulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þótt þétting byggðar sé um margt jákvæð þá vinnur það hins vegar gegn markmiði um að lækka byggingarkostnað. 

  • Íslenski byggingavettvangurinn er nýr vettvangur sem ætlað er að sameina krafta hagsmunaaðila á byggingamarkaði. Vettvangurinn stóð fyrir málþingi á dögunum um stöðu mála og næstu skref í verkefninu „Vandað, hagkvæmt, hratt“. Í því verkefni er leitað leiða til að auka fjölbreytni og framboð á hagkvæmu húsnæði, ekki síst í þágu ungs fólks og tekjulágra. Fjölmörg ítarleg og vönduð erindi voru flutt sem lýsa vel þeirri stöðu sem er á íbúðabyggingamarkaði. Efni fundarins má nálgast hér.

  • Mætum þörfinni var ráðstefna um íbúðamarkaðinn. Efni fundarins og bæklingur sem gefinn var út rammar vel inn stöðuna á markaðnum og áherslur SI. Bæklinginn má nálgast hér.

  • Árlega mæla Samtök iðnaðarins umfang framleiðslu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu með talningu. Íbúðir í framleiðslu eru taldar eftir gerð húsnæðis og mat lagt á stöðu framkvæmda eftir staðli ÍST-51. Kortið HÉR sýnir heildarmagn íbúðarhúsnæðis í framleiðslu eftir byggingarstigi, annars vegar „að fokheldu“ og hinsvegar „fokhelt og lengra komið“. Talningar SI á íbúðarmarkaði eru nákvæmustu upplýsingar sem völ er á. Hins vegar hafa samtökin barist fyrir því að úr verði bætt af hálfu opinberra aðila að safna betur saman upplýsingum sem þessum.

  • Flókið regluverk eykur bæði tíma og kostnað sem fer í byggingu húsnæðis hér á landi. Þetta er niðurstaða kortlagningar byggingarferlisins sem unnin var af Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands. Flækjustigið leiðir á endanum til hærra húsnæðisverðs. Byggingarferlinu má skipta í tólf skref. Í hverju þeirra mætir húsbyggjandi vandamálum þegar kemur að íþyngjandi regluverki eða óskilvirkum vinnubrögðum hjá hinu opinbera. Oftar en ekki eru þessu vandamál séríslensk. Hér má sá greininguna.

3. MENNTUN – forsenda bættra lífskjara og aukinnar framleiðni 

Menntun og þekking fólks á öllum sviðum er forsenda aukinnar framleiðni, velferðar og verðmætasköpunar. Menntun leiðir ávallt til framþróunar. Atvinnurekendur vilja axla ábyrgð þegar kemur að menntamálum og því þarf að tryggja formlega aðkomu atvinnulífsins að stefnumótun, skilgreiningarvinnu og inntaki starfsnáms. Öflugt menntakerfi er fjárfesting til framtíðar.

Nánar

Við viljum...

...að 25-30% grunnskólanemenda velji iðn-, verk- og tækninám og að unnið sé markvisst að því að það nám verði metið til jafns við bóknám
...vinna að stofnun fagháskóla og hækka hlutfall nemenda sem velja raunvísinda- og tæknigreinar á háskólastigi
...menntastefnu í takt við framtíðarþarfir atvinnulífsins og samfélagsins og virkt samstarf við ráuðneyti menntamála, öll skólastig og hagsmunaaðila í menntamálum
...aukna áherslu á öllum skólastigum á raunvísindi, tækni og skapandi greinar  

Vel menntað starfsfólk er lykill að samkeppnishæfni fyrirtækja

Menntamál eru ein af megin stefnuáherslum Samtaka iðnaðarins. Ítrekað segja forsvarsmenn fyrirtæja í iðnaði að menntun og hæfni starfsfólks sé forgangsmál og ekki að ástæðulausu.Menntun og hæfni starfsfólks er undirstaða framþróunar og og undirstaða aukinnar framleiðni og þar með velferðar og verðmætasköpunar. Lykill að samkeppnishæfni fyrirtækja er menntun og hæfni fólks.

Menntamál eru ekki einkamál hins opinbera sem rekur stærstan hluta menntakerfisins. Atvinnurekendur vilja axla ábyrgð þegar kemur að menntamálum. Atvinnulífið þarf nauðsynlega á því að halda að ákveðinn fyrirsjáanleiki sé í þróun menntunar og þörf atvinnulífsins sé mætt í menntakerfinu. Lykilþáttur í því er aukin áhersla á iðn-, verk- og tækninám á öllum skólastigum enda er nýliðun í ýmsum greinum nú þegar orðið áhyggjuefni og gæti orðið enn meira vandamál í framtíðinni ef ekki er brugðist við. Nú þegar eru ýmsar stéttir iðnaðarmanna að eldast umtalsvert hratt og getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Um þessar mundir er mikil eftirspurn eftir starfsmönnum sem hafa ýmiskonar iðnmenntun. Á sama tíma er mikilvægt að kerfislægur vandi í íslensku menntakerfi sé leiðréttur enda má hann ekki verða hindrun þegar námsleiðir eru valdar. Tryggja þarf skýrar leiðir til náms á háskólastigi að loknu iðnnámi t.d. í gegnum fagháskólanám. Einnig þarf að tryggja að nemendur sem hefja nám í iðngreinum geti lokið samningi og bóklegu námi á áætluðum tíma með því að hafa samning við meistara. Stuðla ætti að því að framhaldsskólar fái úthlutað því fjármagni sem þarf til að halda úti námi í iðn-, verk- og tæknigreinum. Við verðum að auka hlutfall grunnskólanemenda sem velja slíka menntun og vinna markvisst að því að það nám verði metið til jafns við bóknám.

Á sama tíma og unnið er að því að efla grunnmenntun í iðn-, verk- og tæknigreinum leggja samtökin áherslu á að hugað verði að því hvernig fjölga megi þeim sem velja raunvísindi og tæknigreinar á háskólastigi. Ef það er viðvarandi skortur á starfsfólki með viðeigandi hæfni og menntun mun það takmarka framleiðslugetu margra fyrirtækja. Menntun verður því að vera í forgangi til að undirbyggja tækifæri til aukinnar framleiðni og verðmætasköpunar.

Lykilatriði er að menntastefna sé í takt við atvinnustefnu þar sem greindar eru framtíðarþarfir atvinnulífsins og samfélagsins fyrir hæfni og þekkingu fólks.  

  • Menntastefnu SI má nálgast hér.

  • Til marks um vilja fyrirtækjanna til að taka þátt í og hafa áhrif á menntun hafa fjölmörg fyrirtæki skrifað undir svokallaðan vinnustaðasáttmála. Þau lýsa yfir einlægum vilja sínum til að auka aðgengi að vinnustaðanámi til að efla og bæta iðn-, verk- og tæknimenntun ungs fólks. Allt um vinnustaðasáttmálann má nálgast hér

  • Fagfólkið er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins og Morgunblaðsins og hefur það markmið að vekja athygli á þeim fjölbreyttu störfum sem iðnaðurinn hefur upp á að bjóða.  Sjá nánar hér.

  • Menntadagur atvinnulífsins er lykilvettvangur okkar til að ræða áherslur iðnaðarins og atvinnulífsins alls á sviði menntamála. Um 300 þátttakendur úr atvinnulífi, stjórnmálum og menntakerfinu tóku þátt í deginum. Framundan er  vöxtur á nær öllum sviðum atvinnulífsins og ljóst að á næstu árum munu verða til þúsundir nýrra starfa. Eftirspurn eftir hæfu og vel menntuðu starfsfólki mun aukast en það mun reyna mjög á menntakerfið að útskrifa fólk nægilega hratt til að mæta vextinum. Því þarf  atvinnulífið að bregðast við og nýta vel starfsmenntakerfi atvinnulífsins til að auka hæfni og menntun starfsfólks sem þegar er á vinnumarkaði. Upptökur og fréttir má finna hér.

  • GERT  – Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að auka áhuga grunnskólanemenda á raunvísindum og tækni. Allt um GERT má finna hér

  • Hér má nálgast upplýsingar um fleiri menntatengd verkefni sem SI standa að eða taka þátt í.

4. SAMGÖNGUR OG INNVIÐIR – lífæð heilbrigðs samfélags

Samgöngur og góðir innviðir eru lífæð heilbrigðs samfélags. Þrátt fyrir myndarlegan hagvöxt síðustu ára er fjárfesting í landinu enn of lítil. Innviðafjárfestingar styðja við alla aðra uppbyggingu og veikleikar í innviðum geta auðveldlega takmarkað uppbyggingu í öðrum greinum.

Nánar

Við viljum...

...að yfir 60 milljarða króna uppsafnaðri þörf á fjárfestingum í vegakerfinu sé mætt
...fjölbreyttari möguleika á fjármögnun brýnna innviðaframkvæmda
...áherslu á samstarf einkaaðila og opinberra aðila
...skýra langtímasýn á uppbyggingu innviða og samgöngukerfa

Innviðir eru lífæð samélagsins

Uppbygging innviða er sameiginlegt hagsmunamál allra og ættu að vera forgangsverkefni stjórnvalda ekki síður en einkaaðila. Þrátt fyrir að efnahagsástandið hafi verið gott síðustu ár er fjárfesting í landinu enn of lítil, sérstaklega í innviðum. Slíkar fjárfestingar styðja við alla aðra uppbyggingu og veikleikar í innviðum geta auðveldlega takmarkað fjárfestingar og umsvif í öðrum greinum. Vegir geta takmarkað flutninga og flöskuhálsar í raforkuflutningskerfi geta hindrað uppbyggingu svo dæmi séu tekin.

Fjárfestingar í vegum eru líklega dýrustu innviðirnir. Vegafjárfestingar hins opinbera hafa heilt yfir farið minnkandi sem hlutfall af landsframleiðslu. Fjárfestingar í vegakerfinu hafa að jafnaði numið 1,5-2% af landsframleiðslu en síðan 2009 hefur hlutfallið verið undir 1%. Að mati Samtaka iðnaðarins er yfir 60 milljarða króna uppsöfnuð þörf á fjárfestingum í vegakerfinu hið minnsta sem þarf að mæta. Á sama tíma og engin aukning er í vegafjárfestingum hefur umferð aukist um 9% milli ára.

Innviðir eru undirstaða hagvaxtar og velferðar þar sem veikir innviðir leiða til þjóðhagslegs taps. Góðar fjárfestingaákvarðanir í arðbærum innviðum leiða til mun meiri ábata en kostnaðar við verkefnin. Umfangsmiklar innviðafjárfestingar geta haft veruleg áhrif á efnahagslífið en að óbreyttu virðist sem hið opinbera muni ekki rísa undir nauðsynlegri uppbyggingu innviða. Því er mikilvægt að skoða fjölbreyttari möguleika á fjármögnun brýnna innviðaframkvæmda þar sem samstarf opinberra aðila og einkaaðila getur skilað árangri. Samkeppnishæfni Íslands er í húfi því styrking innviða eykur árangur samfélagsins.

Samtök iðnaðarins leggja áherslu á skýra langtímasýn á uppbyggingu innviða og samgöngukerfa. Mikilvægt er að sú uppbygging sé stöðug og jöfn í okkar helstu innviðum sem eru vegakerfið, flugvellir, hafnir, ljósleiðarar, fjarskipti, orkuflutningar, vatnsveita, fráveitur og sorphirða. Styrking innviða leiðir til aukinnar framleiðni og betri lífskjara. Færa má gild rök fyrir því að ein ástæða þess að framleiðnivöxtur vinnuafls á Íslandi hafi verið ónógur á síðustu árum sé vegna of lágs fjárfestingastigs. Þessu þarf að breyta. 

Samtök iðnaðarins hafa verið leiðandi í umræðu um innviðafjárfestingar, einkum í ljósi þess að síðustu 6-7 ár hafa fjárfestingar á Íslandi verið takmarkaðar, sérstaklega í opinberum fjárfestingum og í innviðum. Ekki eru horfur á að þær aukist mikið að óbreyttu. Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafaverkfræðinga stóðu fyrir vel heppnuðum fundi fyrr á árinu sem varpar skýru ljósi á þessa stöðu og þá áskorun sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir. Allt efni fundarins má finna hér

  • Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóra SI fjallaði um sterkari innviðir – aukinn árangur á fundi í Hörpu 25. ágúst. Erindið er hér.

  • Árlega halda Samtök iðnaðarins Útboðsþing. Þar koma saman allir helstu verkkaupar landsins til að lýsa nákvæmlega hvaða framkvæmdir eru framundar. Oftar en ekki eru þetta opinberir aðilar og lýsa áætlanir þeirra vel fyrirhuguðum innviðaframkvæmdum á hverjum tíma. Síðasta Útboðsþing var haldið fyrr á árinu og má sjá allar kynningar hér.

5. ORKA OG UMHVERFI – fjölbreyttur iðnaður í sátt við umhverfið

Loftslagið hlýnar og betri umgengni við umhverfið eru verkefni sem við verðum að takast á hendur. Iðnaðurinn er þar í lykilhlutverki, tilbúinn með lausnir og hugmyndir. Fyrirtæki eru í lykilstöðu til að bæta nýtingu auðlinda og minnka sóun. Með því að styrkja uppbyggingu fyrirtækja á þessu sviði má leggja stoðir undir sterka atvinnugrein sem fylgir grænni tækni. 

Nánar

Við viljum...

...aukna samkeppni og samkeppnishæfni á raforkumarkaði
...að að Ísland nái markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum með virkri þátttöku atvinnulífsins
...að stjórnvöld styðji við vöxt fyrirtækja sem bjóða tæknilausnir í umhverfis- og loftslagsmálum og við græna tækni
...aukna endurvinnslu úrgangsefna og nýtingu endurnýjanlegrar orku í samgöngum með því að beisla hugvit og þekkingu fyrirtækja og einstaklinga

Fjölbreyttur og orkumikill iðnaður í sátt við umhverfið

Tæplega fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar byggir á nýtingu og framleiðslu raforku. Þannig gegnir orkuframleiðsla og nýting hennar lykilhlutverki í efnahagsstarfseminni og er veigamikil uppspretta verðmætasköpunar. Skipulag, uppbygging og þróun þessa mikilvæga markaðar skiptir því sköpum, bæði fyrir iðnfyrirtæki, orkufyrirtæki og efnahagslífið í heild. Á síðustu árum hefur vægi umhverfisþátta í orkumálum aukist mikið og mikilvægt að vega saman með skynsömum hætti umhverfissjónarmið og efnahagslega þætti.

Heimsbyggðin öll er að horfast í í augu við að loftslagið hlýnar. Það kallar á betri umgengni við umhverfið og minnkandi útblástur. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra en iðnaðurinn vill og getur verið í lykilhlutverki, tilbúinn með lausnir og hugmyndir. Fyrirtækin í landinu eru í lykilstöðu til að bæta nýtingu auðlinda og minnka sóun með því að leggja metnað í að starfa í sem mestri sátt við umhverfi og samfélag.

Parísarsamningurinn gerir ráð fyrir að ná fram 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Hringrásarhagkerfið miðar að því að minnka sóun auðlinda og sett eru markmið um að færa efni í hringrás endurvinnslu í auknum mæli. Umhverfis- og loftslagsmál eru þverfagleg verkefni sem krefjast samvinnu fjölda aðila úr ólíkum áttum, jafnvel aðila sem ekki vinna annars saman. Með því að styrkja uppbyggingu fyrirtækja á þessu sviði er hægt að leggja stoðir undir sterka atvinnugrein sem fylgir grænni tækni.

Breytingum fylgja ný tækifæri. Heimurinn kallar eftir tæknilausnum sem minnka losun gróðurhúsalofttegunda og Ísland getur gripið tækifærið. Þannig stuðlum við að minni losun, ekki bara heima fyrir heldur einnig á alþjóðavettvangi. Okkar forskot liggur í fjölbreyttum iðnaði sem byggst hefur upp vegna góðs aðgengis að endurnýjanlegri orku. Það er mikilvægt að atvinnulífið verði virkjað enn frekar til að Ísland nái markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum. Stjórnvöld þurfa að vinna náið með atvinnulífinu að því að ná settum markmiðum.  

  • Umhverfisdagur atvinnulífsins var haldinn í fyrsta skipti fyrir um ári síðan. Dagurinn er samstarfsverkefni þeirra samtaka sem mynda Samtök atvinnulífsins. Mikið af erindum og fróðleik kom þar fram og varpar áhugaverðu ljósi á sýn atvinnulífsins á umhverfismál.  Efnið má finna hér. Þáverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson veitti umhverfisverðlaun atvinnulífsins. Núverandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson hélt þar frábært erindi undir nafninu „Þorskurinn, pólitíkin, sagan og vísindin í 40 ár“. Það má horfa á hér .

  • Samál eru hagsmunasamtök álframleiðenda á Íslandi. Álverin kaupa um 72% allrar raforku sem framleidd eru í landinu og greiddu fyrir það um 41 milljarð króna á síðasta ári. Orku- og umhverfismál eru lykilþáttur í starfsemi fyrirtækjanna og á vef Samáls er mikill fróðleikur. Sjá nánar hér.

  • ítarlega skýrslu sem danski hagfræðingurinn Lars Christensen vann fyrir SI um raforkumarkaðinn má finna hér.

6. NÝSKÖPUN - drifkraftur verðmætasköpunar og gjaldeyristekna 

Nýsköpun er drifkraftur verðmætasköpunar og gjaldeyrisöflunar fyrir land og þjóð. Nýsköpun styrkir alla framþróun og því er mikilvægt að unnið sé stöðugt að fjölbreyttri nýsköpun í öllum atvinnugreinum. Íslenskt hugvit er óþrjótandi auðlind. 

Nánar

Við viljum...

...að Ísland sé góður kostur fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun í sem flestum starfsgreinum...
að Ísland verði meðal fimm samkeppnishæfustu landa þegar kemur að nýsköpun
...að stjórnvöld hvetji til nýsköpunar fyrirtækja í ólíkum greinum og á alþjóðlegum vettvangi
...að hugvitið sé nýtt til að skapa betri lausnir í heilbrigðis-,  mennta-, orku- og umhverfismálum með aukin lífsgæði að leiðarljósi - xhugvit.is

Nýsköpun er undirstaða framleiðni og verðmætasköpunar

Virkjun hugans er nánast takmarkalaus auðlind og nýsköpun er einn mikilvægasti drifkraftur efnahagslífsins. Ein af mikilvægustu uppsrettum verðmætasköpunar á Íslandi á síðustu árum byggir á tækni- og hugverkaiðnaði.

Nýsköpun felst öðru fremur í að hrinda hugmyndum í framkvæmd og skapa nýjar lausnir eða bæta það sem fyrir er. Þetta á við um vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, stjórnskipulag, verklag, leiðir og markaðsstarf. Árangur af þessu starfi mælist svo í aukinni verðmætasköpun, framleiðni, veltu, betri störfum og auknum gjaldeyristekjum.

Það er brýnt hagsmunamál allra að sameinast sé um þá framtíðarsýn að Ísland sé í fremstu röð í nýsköpun og fyrirtækin búi við sem best starfsskilyrði þar að lútandi. En nýsköpun er hins vegar ekki bara bundið við ný fyrirtæki og þá sem eru að fást við nýja hluti.  Nýsköpun fer fram innan rótgróinna fyrirtækja jafnt sem sprotafyrirtækja og í samstarfi ólíkra starfsgreina um lausnir sem mæta þörfum viðskiptavina.

Starfsskilyrði og nýsköpunarumhverfið í heild sinni þarf að vera aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki. Líklega skiptir mestu að starfsskilyrði síkra fyrirtækja séu samkeppnishæf enda er það keppikefli stjórnvalda víðast hvar í kringum okkar að bjóða slíkt.  Starfsumhverfið á Íslandi þarf að standast samkeppni við þau lönd sem ganga harðast fram í að laða til sín framsækin fyrirtæki og fólk með rétta þekkingu. Nauðsynlegt er fyrir Ísland að setja markið hátt og keppa að því að við séum meðal samkeppnishæfustu landa í heiminum í nýsköpun.

Til að ná árangri í þessum efnum þarf samstillt átak stjórnvalda og atvinnulífs til að vinna með markvissum hætti til að hraða þeim umbótum í starfsumhverfinu sem nauðsynlegar eru. Þó margt hafi áunnist á undanförnum árum er á fjölmörgum sviðum hægt að gera betur.

  • Nýsköpun er ein af meginstefnuáherslum Samtaka iðnaðarins enda frumforsenda aukinnar framleiðni og verðmætasköpunar. Stefna og stefnuáherslur samtakanna rammar vel inn ítarlegar greiningar og stefnumótunarstarf sem eru í stöðugri þróun. Kynnast má stefnu SI í nýsköpun ítarlega hér.

  • Tækni- og hugverkaiðnaður er eitt af meginsviðum atvinnugreina innan SI. Það er fjölbreyttur hópur fyrirtækja sem tilheyra þessari atvinnugrein Hugverkaráð SI var stofnað fyrr á árinu og eitt af verkefnum ráðsins er X-hugvit.is.

Árið 2005 var í vissum skilningi fæðingarár tækni- og hugverkaiðnaðar á Íslandi. Í aðdraganda Iðnþings 2005 var ráðist í viðamikla vinnu við að skilgreina og rannsaka eðli og starfsemi fyrirtækja sem grundvölluðu öðru fremur starfssemi sína á virkjun hugvits. Útgáfa ritsins Hátækniiðnaður á Íslandi  árið 2005 markaði upphafið af þrotlausri vinnu Samtaka iðnaðarins við að efla og styðja við starfsskilyrði greinarinnar. Efnið hefur staðist tímans tönn vel og er góð heimild. Þórólfur Árnason kynnti efnið á Iðnþingi 2005.