Samtök arkitektastofa, SAMARK

Starfssvið arkitekta spannar ráðgjöf við nær alla þætti umhverfis-, skipulags- og byggingamála.

Samtök arkitektastofa voru stofnuð árið 1998. Aðild að samtökunum eiga fyrirtæki sem veita ráðgjöf á sviði skipulags- og byggingarmála og eru rekin á ábyrgð arkitekts sem uppfyllir skilyrði félagsins um þekkingu og reynslu. 

Markmið samtakanna er að gæta hagsmuna félaga sinna, efla álit þeirra og stuðla að faglegum vinnubrögðum. Einnig að koma fram fyrir hönd aðildarfyrirtækjanna varðandi sameiginleg hagsmunamál samkvæmt ákvörðun stjórnar og/eða aðalfundar. 

Tengiliður hjá SI: Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, bjartmar@si.is.

Stjórn

Stjórn kjörin á aðalfundi í maí 2023

 • Halldór Eiríksson, formaður, T.ark
 • Ástríður Birna Árnadóttir, ARKIBYGG
 • Freyr Frostason, THG
 • Þorvarður L. Björgvinsson, Arkís
 • Þórhildur Þórhallsdóttir, Landmótun

Stjórn kjörin á aðalfundi í maí 2022

 • Halldór Eiríksson, formaður, T.ark
 • Ástríður Birna Árnadóttir, ARKIBYGG
 • Freyr Frostason, THG
 • Þorvarður L. Björgvinsson, Arkís
 • Þórhildur Þórhallsdóttir, Landmótun

Stjórn kjörin á aukaaðalfundi í desember 2021

 • Þorvarður L. Björgvinsson, formaður, Arkís
 • Halldór Eiríksson, T.ark
 • Aðalheiður Atladóttir, A2F
 • Aðalheiður E. Kristjánsdóttir, Landmótun
 • Freyr Frostason, THG

Stjórn kjörin á aðalfundi í apríl 2021

 • Jón Ólafur Ólafsson, formaður, Batteríið
 • Aðalheiður Atladóttir, A2F
 • Aðalheiður E. Kristjánsdóttir, Landmótun
 • Freyr Frostason, THG
 • Þorvarður L. Björgvinsson, Arkís

Stjórn kjörin á aðalfundi í maí 2019

 • Jón Ólafur Ólafsson, formaður, Batteríið
 • Aðalheiður Atladóttir, A2F
 • Aðalheiður E. Kristjánsdóttir, Landmótun
 • Freyr Frostason, THG
 • Þorvarður L. Björgvinsson, Arkís

Stjórn kjörin á aðalfundi í apríl 2018

 • Jón Ólafur Ólafsson, Batteríinu, formaður
 • Aðalheiður E. Kristjánsdóttir, Landmótun, meðstjórnandi
 • Helgi Mar Hallgrímsson, Arkþingi, meðstjórnandi

Stjórn kjörin á aðalfundi í apríl 2017

Lög

 

LÖG

SAMTAKA ARKITEKTASTOFA – SAMARK

I. NAFN, HEIMILI OG TILGANGUR

1. gr. – Nafn og heimili

Félagið heitir Samtök arkitektastofa, skammstafað SAMARK („félagið“). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
Félagið skal auðkenna sig með sérstöku merki. Aðildarfyrirtækjum félagsins er heimilt að auðkenna sig með merki og/eða skammstöfun félagsins.

2. gr. – Tilgangur

Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að félaginu, efla samkeppnishæfni þeirra, stuðla að bættum starfsskilyrðum innan greinarinnar og veita aðildarfyrirtækjunum ráðgjöf og stuðning.

II. AÐILD

3. gr. – Aðild

Fyrirtæki starfandi á sviði arkitektúrs, landslagsarkitektúrs, skipulags og umhverfismótunar geta sótt um aðild að félaginu.
Senda skal skriflega umsókn um aðild að félaginu til stjórnar félagsins á þar til gerðu eyðublaði. Einfaldan meirihluta stjórnar þarf til að samþykkja aðild.
Félagið á aðild að Samtökum iðnaðarins („SI“) og Samtökum atvinnulífsins („SA“). Aðild að félaginu felur jafnframt í sér aðild að SI og SA með þeim réttindum og skyldum sem kveðið er á um í lögum þeirra.

 

III. AÐALFUNDUR, FÉLAGSGJÖLD O.FL.

4. gr. – Aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en í maí ár hvert og skal boða til hans bréflega eða með tölvupósti með minnst sjö daga fyrirvara. Dagskrá aðalfundar skal tilgreind í fundarboði.

Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað, án tillits til fundarsóknar.
Einn fulltrúi hvers aðildarfyrirtækis fer með atkvæðisrétt fyrirtækisins á aðalfundi. Atkvæðamagn hvers aðildarfyrirtækis er samanlagt árgjald þess til SI deilt með 1000. Ekkert aðildarfyrirtæki fer þó með meira en 20% atkvæða.

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála nema öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum þessum.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:
1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.
2. Reikningsskil ásamt áætlun um tekjur og gjöld næsta starfsárs.
3. Lagabreytingar.
4. Kosning stjórnar og skoðunarmanns reikninga félagsins.
5. Kosning nefnda.
6. Önnur mál.

5. gr. – Reikningsár

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

6. gr. – Félagsgjöld

Aðildarfyrirtæki skulu greiða árgjald til félagsins sem ákveðið er af aðalfundi ár hvert. Aðalfundur getur ákveðið að innheimta ekkert félagsgjald. Aðildarfyrirtæki skulu þó ávallt greiða félagsgjald til SI og SA samkvæmt lögum samtakanna, sbr. einnig 3. mgr. 3. gr. laga þessara.

IV. STJÓRN OG REKSTUR

7. gr. – Stjórn og rekstur

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum. Einnig er heimilt að
kjósa allt að tvo varamenn. Formaður skal kosinn sérstakri kosningu til tveggja ára í senn.
Meðstjórnendur eru kosnir til tveggja ára. Einn þeirra gengur úr stjórninni um leið og formaður en hinir
þrír ári síðar. Endurkjör er leyfilegt.

 

Kjörgengir í stjórn eru lykilstarfsmenn, í umboði aðildarfyrirtækis, og/eða eigendur aðildarfyrirtækja
félagsins. Framboð til stjórnarsetu skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en fimm dögum fyrir aðalfund.
Kosning til stjórnar skal vera skrifleg, óski einn eða fleiri fundarmenn eftir því.
Stjórn skiptir með sér verkum og fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til
stjórnarfunda. Rituð skal fundargerð stjórnarfunda og hún varðveitt.
Skoðunarmaður skal kosinn til tveggja ára í senn. Endurkjör er leyfilegt.

Starfsmaður SI sem fer með málefni félagsins annast daglegan rekstur þess í umboði stjórnar.

V. ÚRSÖGN OG BROTTVIKNING

8. gr. – Úrsögn

Aðildarfyrirtækjum er heimilt að segja sig úr félaginu með sex mánaða fyrirvara. Úrsögnin skal vera
skrifleg og miðast við næstu mánaðamót eftir að úrsögn berst.

9. gr. – Brottvikning

Stjórn félagsins er heimilt að víkja aðildarfyrirtæki úr félaginu ef veigamikil og rökstudd ástæða þykir til
og sú ákvörðun er samþykkt af öllum stjórnarmönnum. Áður en slík ákvörðun er tekin skal
aðildarfyrirtæki gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með hæfilegum fyrirvara.
Aðildarfyrirtæki getur ávallt, innan fjögurra vikna frá því að ákvörðun um brottvikningu var tilkynnt
hlutaðeigandi, farið fram á að ákvörðunin verði borin undir félagsfund. Þarf þá 2/3 hluta greiddra
atkvæða til að staðfesta ákvörðunina.

Stjórn félagsins er heimilt að má af félagaskrá þau aðildarfyrirtæki sem ekki hafa greitt árgjöld sín til
félagsins eða SI í eitt ár eða lengur eða eru hætt störfum.

VI. NEFNDIR

10. gr. – Samninganefnd

Innan félagsins skal starfa samninganefnd sem hefur það hlutverk að semja, fyrir hönd félagsins, um
kaup og kjör samkvæmt þeim kjarasamningum sem félagið á aðild að hverju sinni.
Í samninganefnd sitja þrír eða fimm einstaklingar skipaðir af stjórn félagsins til 2 ára í senn. Leitast skal
við að nefndin samanstandi af fulltrúum hvort tveggja stórra og lítilla aðildarfyrirtækja. Ennfremur skal
leitast við að viðhalda þekkingu innan nefndarinnar með þeim hætti að aldrei gangi fleiri en einn
nefndarmaður úr nefndinni árlega. Að lágmarki skulu 2/3 hlutar fulltrúa í nefndinni vera starfandi innan
aðildarfyrirtækja félagsins.

Stjórn félagsins skipar aðrar nefndir og vinnuhópa sem ákveðið er að stofna.

VII. ÖNNUR ÁKVÆÐI

11. gr. – Félagsfundir

Stjórn skal boða til félagsfundar ef hún telur ástæðu til eða ef aðildarfyrirtæki sem fara með minnst 1/8
hluta heildaratkvæðamagns í félaginu óska eftir því.
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum nema öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum
þessum.

12. gr. – Kjarasamningar

Í atkvæðagreiðslum um nýjan eða breyttan kjarasamning við stéttarfélög þarf samþykki minnst 65%
greiddra atkvæða, þó aldrei undir 50% af samanlögðu atkvæðamagni allra aðildarfyrirtækja félagsins.

13. gr. – Slit

Ákvörðun um slit félagins skal tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir
félagsins til starfandi menntastofnana á sviði arkitektúrs, landslagsarkitektúrs og umhverfismótunar.

14. gr. – Lagabreytingar

Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á aðalfundi. Til lagabreytinga þarf samþykki minnst 2/3 hluta
greiddra atkvæða.

15. gr. – Gildistaka

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins þann 21. maí 2019 og taka þegar gildi. Samhliða falla úr
gildi eldri lög félagsins, samþykkt 27. maí 2014.

Stjórn Samtaka arkitektastofa

Starfssvið arkitekta

Starfssvið félagsmanna SAMARK spannar ráðgjöf við nær alla þætti umhverfis-, skipulags- og byggingamála. Starfssviðinu má skipta niður í þrjú meginsvið:

Hönnun

Í fyrsta lagi hönnun nýbygginga og eftirlit með byggingu þeirra, breytingar og endurhæfingu bygginga, viðhald og endurbætur á eldra húsnæði svo og hönnun innréttinga, torga, garða og útivistarsvæða.

Skipulag

Á sviði skipulags sjá arkitektar m.a. um mat á umhverfisáhrifum og gerð skipulagsáætlana svo sem svæðisskipulag, aðalskipulag sveitarfélaga og deiliskipulag.

Ráðgjöf

Loks er ráðgjöf fjölbreytt starfsemi sem arkitektar annast. Arkitektar gera m.a. húsrýmisáætlanir, skráningartöflur og eignaskiptayfirlýsingar. Við stærri og minni framkvæmdir sjá arkitektar um hönnunarstjórn, útboð og umsjón með þeim, verkefnisstjórn, eftirlit með framkvæmdum, byggingarstjórn og gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlanir. Loks vinna þeir rannsóknir og þróunaráætlanir á sviði skipulags og byggingarmála, annast uppmælingu eldri húsa og gera reyndarteikningar bygginga. Þá gera þeir eldvarnaruppdrætti, aðstoða við efnis- og litaval og hvers kyns ráðgjöf viðvíkjandi hönnun, rekstri og viðhaldi bygginga.

Hlutverk arkitekta

Í nýjum skipulags- og byggingarlögum og byggingareglugerð nr. 441/1998 er kveðið á um ábyrgð og verksvið arkitekta. Þeir bera m.a. ábyrgð á samræmingu allra hönnunargagna og því til staðfestingar er þeim ætlað að undirrita teikningar annarra hönnuða svo sem burðarþols-, lagna- og loftræsiteikningar.

Samkvæmt lögum ber arkitektum að leggja fram sérstakar tryggingar fyrir faglegum störfum sínum og vinnubrögðum.

Með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu hefur starfsumhverfi íslenskra arkitekta breyst í grundvallaratriðum. Þeir mæta í vaxandi mæli samkeppni erlendra arkitekta og annarra ráðgjafa á sviði skipulags- og byggingarmála. Jafnframt skapast íslenskum arkitektum ný tækifæri erlendis. Á vettvangi SAMARK vilja arkitektar bregðast sameiginlega við þessum breyttu aðstæðum.

Þegar hefja skal framkvæmdir við húsbyggingu eða aðra mannvirkjagerð er rétt að hafa í huga að góð hönnun borgar sig. Það má fullyrða að ef vandað hefur verið til hönnunar fæst betra mannvirki og ódýrara í stofn- og rekstrarkostnaði þegar upp er staðið.

Arkitekt ber að hafa hagsmuni verkkaupa að leiðarljósi og hann er trúnaðarmaður hans. Þegar arkitekt er ráðinn til starfa hefst náið samstarf og gildir einu hvort um er að ræða íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði. Arkitekt og viðskiptavinur hans þurfa strax í upphafi að ræða saman til að ganga úr skugga um að þeir virði skoðanir og hugmyndir hvor annars og geti því unnið saman.

Yfirleitt vinna arkitektar og þeir sem kaupa þjónustu þeirra, sameiginlega að því að ná sem bestum árangri. Sérstaklega þarf að gæta þess, þegar arkitekt leggur fram tillögur, ábendingar og ráð, sem byggð eru á kunnáttu, að í þeim felist ekki yfirgangur. Báðir aðilar þurfa að gæta að því að þeir hafa yfirleitt ólíka reynslu og menntun og þurfa að sýna hvor öðrum biðlund og skilning. Að lokum er rétt að benda á að samskipti arkitekts og viðskiptavina hans eru jafn einföld og jafn vandasöm og öll önnur mannleg samskipti. Þau verða að byggjast á gagnkvæmri virðingu, sanngirni og trúnaði.