Meistarafélag bygginga­manna Suðurnesjum, MBS

MBS er félag iðnmeistara á  Suðurnesjum. Félagsmenn koma úr öllum greinum byggingariðnaðarins.  

Meistarafélag byggingamanna Suðurnesjum

Meistarafélag byggingamanna á Suðurnesjum var stofnað 3. desember árið 1971. Félagið gekk til liðs við Samtök iðnaðarins árið 2013. Með tilkomu MBS starfa nú nær öll samtök atvinnurekenda í byggingariðnaði sameinuð undir merkjum Samtaka iðnaðarins.

Vefsíða MBS:  www.mb.is
Tengiliður hjá SI: Friðrik Ágúst Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, fridrik@si.is

Hér er hægt að nálgast upplýsingar um Ábyrgðarsjóð Meistaradeildar SI.

Stjórn

 • Formaður: Grétar I Guðlaugsson
 • Varaformaður: Lúðvík Gunnarsson
 • Ritari: Rúnar Helgasson
 • Vararitari: Ari Einarsson
 • Gjaldkeri: Björgvin Halldórsson

Lög

  Lög Meistarafélags byggingamanna Suðurnesjum.

1. grein.
Félagið heitir Meistarafélag byggingamanna Suðurnesjum, skammstafað MBS.  Félagssvæðið er allt landið og aðild er óháð búsetu. Lögheimili og varnarþing  er í Reykjanesbæ.

2. grein.
Tilgangur félagsins er:  Að gæta hagsmuna og réttarstöðu félagsmanna sinna og vera málsvari í  sameiginlegum málum þeirra.  Að veita félagsmönnum upplýsingar og vera þeim til aðstoðar í þeim málum er varðar iðngreinina og atvinnurekstur þeirra. Að vinna að aukinni menntun og verkvöndun og standa fyrir kynningu og fræðslu á hinum ýmsu málum er félagsmenn varðar.  Að efla samvinnu og samhug félagsmanna og vinna að því að þeir reki iðn sína á heilbrigðum grundvelli. 

3. grein.
Stjórn félagsins í samvinnu við önnur atvinnurekanda félög sér um gerð kjarasamninga  fyrir félagsmenn sína þar sem við á.

4. grein.
Aðild að félaginu geta átt allir þeir sem hlotið hafa meistararéttindi í löggiltri iðngrein í byggingariðnaði. Þeir sem óska eftir inngöngu í félagið skulu senda stjórn þess skriflega umsókn ásamt staðfestingu á að viðkomandi hafi réttindi til að kalla sig meistara í iðngrein sinni. Teljist viðkomandi fullnægja skilyrðum um aðild er það ákvörðun stjórnar hvort viðkomandi verður samþykktur sem nýr félagsmaður. Nýr félagsmaður telst fullgildur félagi þegar inntökugjald í félagið hefur verið greitt. Nýir félagsmenn skulu kynntir á næsta aðalfundi.

Samhliða inngöngu í MBS gerist nýr félagi aðili að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins fyrir sína hönd og fyrirtækis síns. Þar með skuldbindur hann sig til að lúta þeim reglum og skyldum sem fylgir aðild að þessum félögum.

Heimilt er að veita aukaaðild að félaginu að uppfylltum skilyrðum sem eru tilgreind nánar í viðauka A við lög þessi.

5. grein.
Félagsmenn skulu greiða ársgjald til félagsins í samræmi við ákvörðun aðalfundar ár hvert. Gjalddagar ákvarðast af stjórn. Sextíu og fimm ára  meðlimir greiða ekki ársgjald né heiðursfélagar. Dragist greiðslur árgjalds um meira en einn mánuð er heimilt að krefja viðkomandi um hæstu lögleyfðu dráttarvexti allt frá gjalddaga.

6. grein.
Úrsögn  úr félaginu skal vera skrifleg og sendast  stjórn félagsins.  Viðkomandi þarf að vera skuldlaus við félagið.  Þó getur enginn sagt sig úr félaginu meðan á vinnudeilu eða verkbanni stendur.

7. grein.
Brot gegn lögum og samþykktum félagsins eða samtaka þeirra sem MBS er aðili að, varða áminningu eða brottvikningu um stundarsakir, eða að fullu og öllu, ef sakir eru miklar.  Úrskurði félagsstjórnar má skjóta til félagsfundar sem er æðsta vald í slíkum málum, nema  brotið varði að einhverju leyti við landslög.

8. grein.
Stjórn félagsins er skipuð 5 mönnum í aðalstjórn, formanni, ritara, gjaldkera, varaformanni og vararitara og þremur í varastjórn. Kosning stjórnar fer þannig fram: Formaður skal kosinn fyrstur til tveggja ára. Næst skal kjósa tvo meðstjórnendur, þ.e. ritara og vararitara, til tveggja ára. Það ár sem formaður, ritari og vararitari eru ekki í kjöri skal kjósa tvo meðstjórnendur, þ.e. varaformann og gjaldkera til tveggja ára.

Varamenn skulu vera þrír og ávallt kosnir/kjörnir til eins árs.

Að lokum skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara til eins árs í senn.

Einungis fullgildir félagar MBS hafa rétt til stjórnarsetu í MBS.

9. grein.
Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli aðalfunda.  Hún kallar saman félagsfundi þegar hún telur ástæðu til, eða ef 10 félagsmenn óska þess og geta um ástæðu.  Nýbreytni alla og meiriháttar mál skal stjórnin bera undir félagsfund .  Stjórn tilnefnir/ kýs í ráð og nefndir á vegum félagsins, aðrar en þær sem tilheyra aðalfundi.

10. grein.
 Formaður  félagsins er fulltrúi þess og félagsstjórnar út á við.  Hann er í forsæti á stjórnarfundum og semur dagskrá fyrir þá.  Ritari annast bókun fundargerða.  Skal hann geta allra mála sem fyrir eru tekin á hverjum fundi, færa inn allar tillögur sem fram koma í hverju máli og geta um afgreiðslu þeirra.  Ekki er skylt að bóka ræður sem haldnar eru á fundum.  Formaður skal undirrita bréf  fyrir félagsins hönd eða fela það öðrum í sinn stað. Gjaldkeri hefur á hendi umsjón með fjáreiðum félagsins en  formaður / framkvæmdastjóri annast um daglegan rekstur þess.
Alla fjármuni  félagsins skal geyma í viðurkenndri bankastofnun og þess gætt að sem bestri ávöxtun sé  náð hverju sinni.
      
11. grein.
Endurskoðendur/ skoðunarmenn reikninga eru tveir og einn til vara, kosnir  til tveggja ára í senn.  Þeir skulu endurskoða reikninga  félagsins og sjóði þess og leggja athugasemdir  sínar fyrir aðalfund, ef  einhverjar eru.  Þeim ber að sjá um að reikningar séu rétt færðir og að fjármunum félagsins  ráðstafað í samræmi við félagsvenjur og gildandi heimildir.  Þeir skulu hafa aðgang að bókum félagsins, hvenær sem þeir óska en gjaldkeri / formaður hefur rétt til að vera viðstaddur allar talningar á handbæru fé og öðrum gögnum  og eignum.                                     

12. grein.
Reikningsár félagsins er almanaksárið og skal ársreikningum þess lokið eigi síðar en 20. dag janúarmánaðar ár hvert. Félagskjörnir skoðunarmenn skulu hafa lokið störfum sínum fyrir 8.febrúar.   

13. grein. 
Fundi eða samkomur skal halda minnst  tvisvar á ári og ber að auglýsa  þá vel annað hvort bréflega eða með öðrum auglýsingum.  Þá skal boða með minnst 5 daga fyrirvara nema að sérstakar aðstæður  kalla á annað. Fundir  eru lögmætir  ef löglega er til þeirra boðað.  Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í öllum venjulegum málum.  Ekki er hægt að breyta aðalfundarsamþykktum á venjulegum fundum.   Til að leggja félagið niður þurfa   75% félagsmanna að hafa samþykkt það í allsherjaratkvæðagreiðslu þar sem ástæður fyrir því eru  lagðar fram skriflega. Lagabreytingar geta aðeins farið fram á aðalfundi enda sé þeirra getið í fundarboði.  Formaður setur og stjórnar fundum eða skipar fundarstjóra, sem síðar stjórnar fundinum, samkvæmt fundarsköpum. 

14. grein.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn í febrúar ár hvert. Skal til hans boðað bréflega með 7 daga fyrirvara, í fundarboði skal tillaga stjórnar að uppstillingu fylgja með. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn fyrir 1. nóvember. Ef lagabreytingar liggja fyrir skal boða til almenns félagsfundar og þær kynntar. Einnig skal auglýsa lagabreytingar í aðalfundaboði. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Einungis þeir félagsmenn, sem skuldlausir eru við félagið, hafa rétt til að sitja aðalfund.

Málaskrá aðalfundar:

 1. Formaður setur fund.
 2. Kosning fundarstjóra og ritara.
 3. Kynning á nýjum félagsmönnum og veiting heiðursviðurkenninga.
 4. Formaður gefur yfirlit um störf stjórnar á síðastliðnu ári.
 5. Formenn nefnda flytja skýrslu um störf sín síðasta starfsár.
 6. Endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðasta ár lagðir fram til afgreiðslu.
 7. Lagabreytingar, enda hafi þær verið kynntar í fundarboði.
 8. Kosning stjórnar sbr. 10.gr. laga.
 9. Kosning varamanna og skoðunarmanna sbr. 10.gr. laga.
 10. Stjórn leggur fram tillögur um árgjald og inntökugjald.
 11. Önnur mál.

 

Viðauki A

Skilyrði fyrir aukaaðild að MBS:

Til þess að geta orðið aukaaðili að MBS þarf viðkomandi meistari að færa sönnur á að hann starfi ekki sem sjálfstæður atvinnurekandi.  Tilkynna skal skrifstofu félagsins tafarlaust ef breytingar verða á fyrrgreindum skilyrðum.

Réttindi og skyldur aukaaðila:
Aukaaðili að MBS getur hvorki setið í stjórn félagsins né komið fram fyrir hönd félagsins og hann hefur ekki kosningarétt á fundum félagsins. Aukaaðili greiðir einungis félagsgjald MBS, en er undanskilinn öðrum gjöldum sem fullgildir aðilar MBS hafa skuldbundið sig til að greiða.

  Ákvæði til bráðabirgða varðandi aðalfund 2015

Kjósa skal formann skal til tveggja ára. Síðan skal kjósa ritara og vararitara til tveggja ára. Þá skal kjósa varaformann og gjaldkera til eins árs og þrjá varamenn til eins árs. Að lokum skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara, alla til eins árs.

 Lögum þessum var síðast breytt á aðalfundi 16 maí 2014.