Samkeppnisréttarstefna SI

1. Inngangur

Meginhlutverk Samtaka iðnaðarins („SI“ eða „samtökin“) er að efla íslenskan iðnað og samkeppnishæfni hans. Tilgangur samkeppnisréttarstefnu þessarar er að tryggja fagleg og gegnsæ vinnubrögð í starfsemi samtakanna og fyrirbyggja háttsemi sem brotið gæti gegn ákvæðum samkeppnislaga.
Samkeppnisréttarstefna þessi skal vera aðgengileg á vefsíðu samtakanna auk þess sem henni skal dreift til nýrra aðildarfyrirtækja og allra fulltrúa sem starfa á vettvangi samtakanna.

2. Aðild

Skilyrði fyrir inngöngu í samtökin skulu vera gagnsæ, málefnaleg og hlutlaus og skal gert grein fyrir þeim í lögum samtakanna á hverjum tíma. Skal öllum er uppfylla skilyrðin heimil innganga í samtökin enda hafi viðkomandi sótt um aðild og greiði tilskilin aðildargjöld.

3. Stjórnir, nefndir o.fl.

Allir sem taka sæti í stjórn samtakanna eða undirsamtaka, nefndum, ráðum eða vinnuhópum á vegum samtakanna, skulu undirrita skriflega yfirlýsingu þess efnis að þeir hafi kynnt sér samkeppnisréttarstefnu þessa og samskiptaviðmið samtakanna, sbr. grein 4.

4. Samskipti

Þátttaka í starfi samtakanna felur í sér miðlun á upplýsingum og reynslu og þátttöku í umræðu um sameiginleg hagsmunamál aðildarfyrirtækja. Samskiptum milli fyrirtækja skal ávallt hagað þannig að tryggt sé að ákvæði laga séu virt og á engan hátt sé stuðlað að samráði eða samstilltum aðgerðum í skilningi samkeppnislaga.

Í skilningi samkeppnislaga er litið á samskipti fyrirtækja á vettvangi samtaka fyrirtækja með sambærilegum hætti og öll önnur samskipti. Samskipti á vettvangi samtakanna skulu því aldrei fela í sér tilvísanir til verðs eða upplýsingaskipta um markaði eða viðskiptavini eða annað sem rétt er að leynt skuli fara á milli samkeppnisaðila.

5. Öflun og miðlun upplýsinga

Við öflun og miðlun upplýsinga á vettvangi samtakanna skal gætt að trúnaði og verklag skal vera með þeim hætti að komið sé í veg fyrir að viðkvæmar eða sérgreinanlegar upplýsingar einstakra fyrirtækja geti borist í hendur annarra aðildarfyrirtækja eða þriðja aðila.

Við miðlun upplýsinga, hvort heldur í ræðu eða riti, beint eða óbeint, skal þess gætt að ekki sé miðlað upplýsingum um viðskipti, viðskiptahætti eða markaðshlutdeild einstakra fyrirtækja. Þegar unnið er að rannsóknum á einstökum atvinnugreinum svo og sögulegum upplýsingum um framleiðslu, sölu eða markaðshlutdeild skal þess því ávallt gætt að um sé að ræða samtölur fyrir skilgreinda hópa fyrirtækja og að ekki sé unnt að bera kennsl á upplýsingar einstakra fyrirtækja.

6. Fræðsla

Starfsmönnum samtakanna og fulltrúum aðildarfélaga sem taka þátt í stjórnum eða nefndum á vegum samtakanna skal standa til boða fræðsla um samkeppnismál í samræmi við fræðsluáætlun samtakanna. Þeim skal jafnframt tryggt aðgengi að sérfræðiráðgjöf komi upp samkeppnisréttarleg álitaefni í tengslum við störf þeirra í þágu samtakanna.

Samtökin leggja áherslu á að stuðla að umræðu um mikilvægi samkeppnismála í innra starfi sínu sem og á opinberum vettvangi.