Verkefni

Samtök iðnaðarins vinna markvisst að aukinni verðmætasköpun og uppbyggingu íslensks atvinnulífs í gegnum nýsköpun. Hér má sjá mælanleg markmið SI í nýsköpunarmálum sem og samantektir yfir helstu atburði og samstarfsvettvanga sem SI koma að. 

Mælanleg markmið SI í nýsköpunarmálum

Aukin nýsköpunarvirkni fleiri starfsgreina

Aukin nýsköpunarvirkni í sem flestum starfsgreinum innan SI og betri þjónusta fyrir minna fé í starfsemi ríkis- og sveitarfélaga m.a. með útvistun verkefna og PPP-þróunarsamstarfi.   Aukin nýsköpunarvirkni skili mælanlegum árangri í veltu, framleiðni, starfsmannafjölda, verðmætasköpun og útflutningi fyrirtækja í sem flestum greinum. Árangur sé mældur reglulega af Hagstofu Íslands, hagtölugerð um íslenskt atvinnulíf verði efld og leitað alþjóðlegs samanburðar þar sem það á við.   Markmiðið er að hvetja fyrirtæki í sem flestum starfsgreinum innan SI til dáða í nýsköpunarstarfi m.a. með þátttöku í klasasamstarfi með ólíkum fyrirtækjum og opinberum aðilum sem þeim tengjast.  Verkefnið er að hluta á aðgerðalista V&T-ráðs og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar (nr. 4.4).  Fylgja þarf málinu fast eftir í samstarfi við Hagstofu Íslands og í fjárlagagerð 2016.

Afnám gjaldeyrishafta

Afnám gjaldeyrishafta á starfsemi fyrirtækja. Markmiðið er að snúa þeirri þróun við að fólk og höfuðstöðvar íslenskra fyrirtækja í nýsköpun hröklist frá Íslandi vegna gjaldeyrishaftanna, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt þjóðarbú. Málið verður að klárast á árinu 2015 – annað er ekki í boði. 

Ný lög um skattalega hvata til eflingar fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum

Að innleidd verði ný lög um skattalega hvata til að efla fjárfestingu í fyrirtækjum sem byggja á nýsköpun.  Verkefnið er á aðgerðalista V&T-ráðs og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar (nr. 1.7). Markmiðið er að verkefnið klárist á árinu 2015.


Stofnsetning markaðar og upplýsingamiðlunar milli fjárfesta og frumkvöðla

Að komið verði á fót virkum markaði og upplýsingamiðlun milli fjárfesta og frumkvöðla um fjárfestingar í framangreindum félögum um leið lögin verða innleidd.  Verkefnið er á aðgerðalista V&T-ráðs og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar  (nr. 1.8). Markmiðið er að verkefnið klárist á árinu 2015.


Endurskoðun laga nr. 152/2009

Að lög nr. 152/2009 um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki verði endurskoðuð þannig að þök endurgreiðslu til fyrirtækja verði hækkuð.   Verkefnið er á aðgerðalista V&T-ráðs og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar (nr. 1.6) Markmiðið er að verkefnið klárist á árinu 2015.

Efling Tækniþróunarsjóðs og annarra samkeppnissjóða

Að efla Tækniþróunarsjóð og aðra samkeppnissjóði sem styðja nýsköpunarstarf fyrirtækja um leið og áfram verði hugað að skilvirkni sjóðanna m.t.t. verðmætasköpunar.   Verkefnið er á aðgerðalista V&T-ráðs og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar (nr. 1.3) Markmiðið er að fylgja málinu fast eftir í fjárlagagerð 2016.

Mælanlegur árángur í European Innovation Scoreboard og Global Innovation Index

Aukin nýsköpunarvirkni skili mælanlegum árangri í samanburðarmælingum European Innovation Scoreboard og Global Innovation Index. Markmiðið er að Ísland færist ofar á listann, (er í dag nr. 19 af 143 löndum 2014 en var nr. 13 2013).          

Sjá nánar:   
http://ec.europa.eu/enterprise/policies/innovation/policy/innovation-scoreboard/index_en.htm
http://www.globalinnovationindex.org/content.aspx?page=data-analysis

Atburðir

Samtök iðnaðarins koma að mörgum atburðum sem snúa að nýsköpun. Stærri atburðina má sjá hér: 

Tækni- og hugverkaþing

Tækni- og hugverkaþing 2015:

Fulltrúar tækni- og hugverkafyrirtækja, stuðningsaðila og alþingismenn komu saman í sjötta sinn á Tækni- og hugverkaþingi, föstudaginn 4. desember undir kjörorðini "Aðlaðandi Ísland fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun".

Á þinginu var fjallað um framtíðarsýn tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi til ársins 2020 og hvernig stjórnvöld og atvinnulífið geta unnið saman á markvissan hátt við að hraða nauðsynlegum umótum í starfsumhverfi greinarinnar. Kynnt voru tíu áherlsuverkefni sem tækni og hugverkageirinn kom sér saman um að setja í forgang í stefnumótun sl. sumar.

Meðal ræðumanna á þinginu voru Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra sem greindu frá mikilvægum aðgerðum til að bæta starfsumhverfi tækni og hugverkagreina.

Tækni- og hugverkaþing 2013:

Í samstarfi Samtaka iðnaðarins, Hátækni- og sprotavettvangs, þingflokka stjórnmálaflokka, ráðuneyta forsætis-, atvinnuvega- og nýsköpunar-, fjármála-, mennta, utanríkis- og velferðar, háskóla og annarra aðila stoðkerfis og atvinnulífs var efnt til Tækni- og hugverkaþings 2013 föstudaginn 15. febrúar 2013 í Salnum, Kópavogi. 

Þema þingsins var Forsendur árangurs í tækni- og hugverkaiðnaði. Á þinginu var fjallað um framtíðarsýn í tækni- og hugverkagreinum hjá þeim stjórnmálaflokkum sem voru í framboði til Alþingiskosninga 2013 og áherslur þeirra til að ná árangri í verðmætasköpun og uppbyggingu atvinnulífs sem byggir á þekkingarauðlindum. Horft var til stöðu og starfsskilyrða tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi og hvernig stjórnvöld, stoðkerfi og atvinnulíf geta unnið saman að því að koma umbótum í framkvæmd með aukinn árangur að leiðarljósi.

Tækni- og hugverkaþing 2011:

Fulltrúar tækni-og hugverkafyrirtækja, stuðningsaðilar og alþingismenn komu saman í fjórða sinn á Tækni- og hugverkaþingi 2011, föstudaginn 7. október undir kjörorðinu ”Nýsköpun – uppspretta verðmæta“.

Á þinginu var fjallað um stöðu og starfsskilyrði tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi og hvernig stjórnvöld, stoðkerfi og atvinnulíf geta unnið saman að því að koma nauðsynlegum umbótum í framkvæmd. Góður samhljómur var í stefnu stjórnvalda og tækni- og hugverkaiðnaðar og fátt ætti því að vera til fyrirstöðu að hrinda áhersluverkefnum í framkvæmd.

Hátækni- og sprotaþing

Hátækni og sprotaþing 2009: 

Í samstarfi SI, Hátækni- og sprotavettvangs, þingflokka stjórnmálaflokka, ráðuneyta iðnaðar, utanríkis, mennta- og fjármála, háskóla og aðila stoðkerfis og atvinnulífs var efnt til Hátækni-og sprotaþings 2009 föstudaginn 6. nóvember. Á þinginu var fjallað um stöðu og starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi.

Sprotaþing 2007:

Í samstarfi við þingflokka stjórnmálaflokka, ráðuneyti iðnaðar-, viðskipta- og menntamála, háskóla og aðila stoðkerfis og atvinnulífs efndu SI og aðildarfélög til Sprotaþings 2007 föstudaginn 2. febrúar 2007. Á þinginu var fjallað um stöðu og starfsskilyrði sprota- og hátæknifyrirtækja á Íslandi og tillögur þingheims lagðar fram til afgreiðslu. Sprotaþing 2007 markaði einnig upphaf Sprotavettvangs sem formlega hefur störf í kjölfarið.

Sprotaþing 2005:

Samtök sprotafyrirtækja (SSP) og Samtök iðnaðarins (SI) stóðu fyrir Sprotaþingi föstudaginn 18. febrúar 2005 þar sem fjallað var um framtíð og forsendur sprotafyrirtækja á Íslandi. Þingið var haldið í samstarfi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, Rannís, Iðntæknistofnun Íslands, Útflutningsráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Marel sem sérstaks stuðningsaðila.

Samstarf

Íslenska og evrópska ánægjuvogin

Samtök iðnaðarins eru stofnendur og aðilar að Íslensku ánægjuvoginni sem er félag í eigu SI, Stjórnvísi og Gallup um þátttöku í Evrópsku ánægjuvoginni. Markmið félagsins er að láta fyrirtækjum í té samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina. Að loknu þriggja ára uppbyggingastarfi hefur verið unnið að því að því að festa þessar mælingar enn frekar í sessi. Nokkur ný fyrirtæki bættust í hóp þeirra 25 sem fyrir voru á síðasta ári.

Samstarfsvettvangur sjávarútvegs og iðnaðar

Samstarfsvettvangur sjávarútvegs og iðnaðar hefur verið starfræktur frá 1995. Vettvangurinn styður samstarfsverkefni fyrirtækja í iðnaði og sjávarútvegi og hefur tekist að festa sig í sessi sem góður grundvöllur að samstarfi ólíkra aðila sem tengjast sjávarútvegi og fiskvinnslu.  Á síðasta ári tók vettvangurinn að sér að meta verkefnisumsóknir vegna átaksverkefnis sjávarútvegsráðherra um aukið vinnsluvirði sjávarútvegs eða AVS- verkefnisins.   

Aðilar Samstarfsvettvangs sjávarútvegs og iðnaðar eru auk Samtaka iðnaðar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, sjávarútvegsráðuneytið, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.  Ráðstöfunarfé vettvangsins er um 10 milljón kr. á ári. 

Hátækni- og sprotavettvangur

Hátækni og sprotavettvangur er samstarfsvettvangur forsætisráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins, menntamálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, velferðarráðuneytisins, Samtaka leikjaframleiðenda, Clean Tech Iceland, Samtaka heilbrigðisiðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Samtaka íslenskra líftæknifyrirtækja, Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja og Samtaka iðnaðarins, um uppbyggingu tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi. Markmið vettvangsins er að vinna að eflingu starfsskilyrða og uppbyggingu tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi.

Álklasinn

Markmið Álklasans er að efla samkeppnishæfni með virðisauka fyrir þau fyrirtæki sem í Álklasanum eru og auka sýnileika, rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði.

Á meðal stofnaðila eru verkfræðistofur, vélsmiðjur, tæknifyrirtæki, málmsteypur, skipafélög, verktakafyrirtæki, fjármálastofnanir, rannsókna- og menntastofnanir, auk allra álveranna á Íslandi.

Jarðvarmaklasinn

Þátttakendur í verkefninu eru yfir 60 talsins, en aðkoma þeirra felst í framlögum í formi fjármagns, vöru og þjónustu auk upplýsingagjafa. Meðal þeirra stofnana sem koma að jarðvarmaklasanum má telja Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.