Stefna SI í nýsköpunarmálum

Nýsköpun styrkir framþróun. Við vinnum að nýsköpun í allri sinni fjölbreytni

Markmið SI er að Ísland sé í fremstu röð þegar kemur að nýsköpun og því setjum við okkur skýr mælanleg markmið um að: Ísland verði orðið meðal fimm efstu landa í European Innovation Scoreboard og Global Innovation Index árið 2020.

Samtök iðnaðarins vilja að starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi sé alþjóðlega samkeppnishæft og það hvetji til nýsköpunar og fjárfestingar í þróun og uppbyggingu fyrirtækja á sem flestum sviðum.

Íslenskst fjármálaumhverfi þarf að komast í fremstu röð með samfellda þjónustu og lausnir í takti við þarfir fyrirtækja, allt frá frumstigi til úrvalsdeildar á alþjóðlegum markaði. Afnám gjaldeyrishafta á starfsemi fyrirtækja og stöðugleiki í gjaldeyrismálum eru mikilvægar forsendur þess að fyrirtæki á alþjóðlegum markaði geti haft höfuðstöðvar á Íslandi.

Samtök iðnaðarins hvetja stjórnvöld til að halda áfram að efla nýsköpunarumhverfið þannig að það standist samkeppni við lönd sem ganga hart fram í að laða til sín framsækin fyrirtæki og fólk í nýsköpun.

Samtök iðnaðarins leggja áherslu á faglegt mat við forgangsröðun verkefna sem njóta stuðnings hins opinbera og tala fyrir kröfum um að verkefni miði að því að skapa afurðir og betri lausnir sem fela í sér verðmætasköpun, útflutning og hagsæld fyrir land og þjóð.

Samtök iðnaðarins leggja sitt af mörkum til að hvetja til nýsköpunar- og klasasamstarfs fyrirtækja í ólíkum greinum bæði hér heima og á alþjóðlegum vettvangi.

Samtök iðnaðarins hvetja til betri stjórnunar, verklags og aukinnar framleiðni á öllum sviðum atvinnulífs og í stjórnsýslu m.a. með aðferðum á gæða- og straumlínustjórnunar.

Með því að starfrækja formlegan samstarfsvettvang atvinnulífs og stjórnvalda um nýsköpunarmál má stuðla að hraðari og vandaðri framgangi umbótaverkefna í starfsskilyrðum atvinnulífs.

Mælanleg markmið SI í nýsköpunarmálum:

Aukin nýsköpunarvirkni í sem flestum starfsgreinum innan SI og betri þjónusta fyrir minna fé í starfsemi ríkis- og sveitarfélaga m.a. með útvistun verkefna og PPP-þróunarsamstarfi. Aukin nýsköpunarvirkni skili mælanlegum árangri í veltu, framleiðni, starfsmannafjölda, verðmætasköpun og útflutningi fyrirtækja í sem flestum greinum. Árangur sé mældur reglulega af Hagstofu Íslands, hagtölugerð um íslenskt atvinnulíf verði efld og leitað alþjóðlegs samanburðar þar sem það á við. Markmiðið er að hvetja fyrirtæki í sem flestum starfsgreinum innan SI til dáða í nýsköpunarstarfi m.a. með þátttöku í klasasamstarfi með ólíkum fyrirtækjum og opinberum aðilum sem þeim tengjast. Verkefnið er að hluta á aðgerðalista V&T-ráðs og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar (nr. 4.4). Fylgja þarf málinu fast eftir í samstarfi við Hagstofu Íslands og í fjárlagagerð 2016.

Afnám gjaldeyrishafta á starfsemi fyrirtækja. Markmiðið er að snúa þeirri þróun við að fólk og höfuðstöðvar íslenskra fyrirtækja í nýsköpun hröklist frá Íslandi vegna gjaldeyrishaftanna, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt þjóðarbú. Málið verður að klárast á árinu 2015 – annað er ekki í boði.

Að innleidd verði ný lög um skattalega hvata til að efla fjárfestingu í fyrirtækjum sem byggja á nýsköpun.  Verkefnið er á aðgerðalista V&T-ráðs og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar (nr. 1.7). Markmiðið er að verkefnið klárist á árinu 2015.

Að komið verði á fót virkum markaði og upplýsingamiðlun milli fjárfesta og frumkvöðla um fjárfestingar í framangreindum félögum um leið lögin verða innleidd.  Verkefnið er á aðgerðalista V&T-ráðs og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar (nr. 1.8). Markmiðið er að verkefnið klárist á árinu 2015.

Að lög nr. 152/2009 um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki verði endurskoðuð þannig að þök endurgreiðslu til fyrirtækja verði hækkuð.  Verkefnið er á aðgerðalista V&T-ráðs og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar (nr. 1.6) Markmiðið er að verkefnið klárist á árinu 2015.

Að efla Tækniþróunarsjóð og aðra samkeppnissjóði sem styðja nýsköpunarstarf fyrirtækja um leið og áfram verði hugað að skilvirkni sjóðanna m.t.t. verðmætasköpunar.  Verkefnið er á aðgerðalista V&T-ráðs og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar (nr. 1.3) Markmiðið er að fylgja málinu fast eftir í fjárlagagerð 2016.

Aukin nýsköpunarvirkni skili mælanlegum árangri í samanburðarmælingum European Innovation Scoreboard (EIS) og Global Innovation Index (GII). Markmiðið er að Ísland færist ofar á listann, (er í dag nr. 19 af 143 löndum 2014 en var nr. 13 2013).  Sjá nánar: EIS og GII.