Nýsköpunarstefna SI

Nýsköpun - virkjum tækifærin

Nýsköpun er ein meginforsenda framleiðniaukningar, verðmætasköpunar, samkeppnishæfni og  gjaldeyrisöflunar fyrirtækja og þjóða. Markmiðið með nýsköpunarstefnu og aðgerðum í málaflokknum er að efla þjóðarbúið í harðri alþjóðlegri samkeppni um störf og verðmætasköpun. Hætta er á að Ísland dragist aftur úr í samkeppni þjóða í sífellt opnari heimi viðskipta, fjárfestinga og starfa ef ekki verður gripið til aðgerða. Sýn og stefna í nýsköpun er þannig ein af meginstoðum öflugrar atvinnustefnu. Nýsköpunarstefna leggur grunninn að sköpun verðmætra starfa í framtíðinni og er ekki síst mikilvæg til að mæta áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar og áhrifum hennar á vinnumarkað og störf. Með vísindastarfsemi er fjármunum breytt í hugmyndir. Nýsköpun breytir hugmyndum í verðmæti. Nýsköpun á sér stað þegar hugmynd eða umbótum hefur verið hrint í framkvæmd og tekist hefur að skapa nýjar lausnir eða bæta það sem þegar er til staðar. Getur þetta átt við um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, stjórnskipulag, verklag eða leið til sölu- og markaðssetningar. Nýsköpun á sér stað í öllum fyrirtækjum og fer að verulegu leyti fram innan rótgróinna fyrirtækja og í samstarfi fyrirtækja í ólíkum greinum þar sem þarfir á markaði og lausnir ná saman.

Hér er hægt að nálgast nýsköpunarstefnu SI í PDF-formati. 


Drifkraftar-framleidni


Nýsköpun í atvinnulífi mun eiga stóran þátt í að leysa þær samfélagslegu áskoranir sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Með því að skapa kjöraðstæður fyrir nýsköpunardrifna starfsemi fyrirtækja hér á landi mun Ísland leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að mæta þessum áskorunum með tilheyrandi arði sem í því felst fyrir þjóðarbúið. Aðgerðir til að örva nýsköpun eru einnig nauðsynlegar til að uppfylla þörf fyrir aukinn útflutning, en gjaldeyristekjur þjóðarbúsins þurfa að aukast gríðarlega til að halda í við, og efla, lífskjör til framtíðar. Verður þetta einungis kleift með virkjun hugvits, nýjum útflutningi, nýsköpun og nýjum leiðum til að vinna aukin verðmæti úr takmörkuðum náttúruauðlindum þjóðarbúsins, með sjálfbærum hætti.


Atvinnustefna-nyskopun


Framtíðarsýn - Nýsköpunarlandið Ísland

2019_1549629850772

Árið er 2019. Ísland féll nýlega um tíu sæti á nýsköpunarmælikvarðanum Global Innovation Index (GII) og er í 23. sæti fyrir árið 2018 samanborið við 13. sæti árið 2017. Gefur þetta ekki góð fyrirheit um framhaldið en markmið Samtaka iðnaðarins er að Ísland verði orðið meðal fimm efstu landa samkvæmt þessum mælikvarða árið 2020. Margvíslegir veikleikar eru í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi. Skattalegir hvatar eru ekki eins og best verður á kosið, stofnanaumhverfi nýsköpunar hér á landi er flókið og óskilvirkt, ekki er hugað nægilega að hugverkarétti, skortur er á vaxtarfjármagni fyrir fyrirtæki og sala og markaðssetning stendur veikum fótum. Grunnforsenda þess að unnt sé að efla nýsköpunarumhverfið á Íslandi er sú að mótuð sé sýn og stefna, langtímamarkmið séu sett og mælikvarðar árangurs séu skilgreindir. Samkvæmt fjárlögum 2019 er heildarframlag úr ríkissjóði til málaflokksins „nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar“ um 13,5 milljarðar króna á ársgrundvelli. Skiptast útgjöld á milli stofnana og einstakra verkefna en árangur er ekki mældur. Því þarf að breyta. mynd af íslandi

2050

Árið er 2050. Á Íslandi eru umgjörð og hvatar til nýsköpunar með því besta sem þekkist í heiminum. Ísland er eftirsótt til búsetu og atvinnurekstrar og hefur tekist að laða íslensk fyrirtæki, sem flutt hafa starfsemi sína til útlanda á síðustu árum, til Íslands aftur. Framboð af sérfræðingum í hátækni- og hálaunastörf mætir eftirspurn íslensks atvinnulífs. Íslensk fyrirtæki sjá hag sínum best borgið með því að stunda rannsóknir og þróun hér á landi, enda eru aðstæður og skattalegir hvatar með því sem best gerist. Ísland er álitlegur kostur í vali frumkvöðla um hvar þeir eigi að stofna fyrirtæki utan um hugmyndir sínar og er hagvöxtur drifinn áfram af rannsóknum, þróun og fjárfestingu í hugviti og árangri af þeirri starfsemi. Íslenska ríkið styður við nýsköpunarverkefni og veitir styrki til fyrirtækja á byrjunarstigum vaxtar í samvinnu, ekki samkeppni, við einkaaðila. Markmið með slíkum styrkjum, og eftir atvikum fjárfestingu, eru vel skilgreind, efla samkeppnisforskot Íslands og taka mið af þörfum atvinnulífs og þörfum um vöxt útflutnings. Sérstök tækniyfirfærsluskrifstofa tryggir að framúrskarandi háskólarannsóknir skili sér út í atvinnulífið og skapi verðmæti. Íslensk fyrirtæki eru meðvituð um mikilvægi þess að verja hugverk sín með einkaleyfum eða öðrum leiðum og njóta þar af leiðandi samkeppnisforskots á erlendum mörkuðum. Öll verkefni á vegum hins opinbera til að styðja við og örva nýsköpun eru á höndum einnar stofnunar þar sem öll upplýsingagjöf á sér stað, hvort sem varðar fjárfestingar, innlenda og erlenda styrki, eða skattalagaákvæði sem hvetja til nýsköpunar og einstaklingar og fyrirtæki geta nýtt sér til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Stofnunin er, eðli samkvæmt, í stöðugri mótun.

Baksidumynd

Markmið og aðgerðir

Til að unnt sé að ná fram metnaðarfullri framtíðarsýn þurfa skilyrði til nýsköpunar á
Íslandi að vera með því besta sem þekkist í heiminum.

#1 Auka fjárfestingu í rannsóknum og þróun og framboð áhættufjármagns til vaxtar

Fjárfesting í rannsóknum og þróun er forsenda þess að nýsköpun dafni. Getur þetta átt við um fjárfestingu í vísindarannsóknum sem leiðir til nýrra uppgötvana og fjárfestingu í þróun á vörum og þjónustu. Með skýrum hvötum í skattkerfinu er hægt að örva fjárfestingu í rannsóknum og þróun og auka framboð á áhættufjármagni til vaxtarfyrirtækja.
 • Afnema þök á endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarverkefna.
 • Hækka endurgreiðsluhlutfall vegna rannsókna- og þróunarverkefna í 33% í skrefum til ársins 2025 og laða þannig starfsemi til Íslands sem hefur verið færð úr landi. Skilyrði að móðurfélagið sé skráð á Íslandi, annars er endurgreiðsla 20%.
 • Bjóða skattaívilnanir til einstaklinga vegna fjárfestinga í fyrirtækjum í vexti – endurbætt kerfi að breskri fyrirmynd.
 • Leggja lægri skattprósentu á tekjur fyrirtækja sem koma til vegna skráðra hugverka og örva þar með hvata fyrirtækja til að fjárfesta í nýsköpun og verja hugverk sín.

#2 Auka framboð af sérfræðingum

Aðgangur að hæfu starfsfólki með sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum vísinda og hátækni er lykillinn að því að styðja við nýsköpun og sýn um hugvitsdrifið hagkerfi til framtíðar.
Uppbygging menntakerfisins styðji við markmið um að fjölga sérfræðingum
og hátæknimenntun sé efld. Tryggja að hæfni starfsfólks á vinnumarkaði
mæti þörfum atvinnulífsins.

 • Efla umgjörð til að taka á móti sérfræðingum í hálaunuð störf með því að:
    I. Bjóða 3–5 ára skattleysismörk.
    II. Einfalda umsóknarferli með atvinnuleyfi og gera það rafrænt.
    III. Efla upplýsingagjöf og laða að hæfileikaríkt fólk með einni upplýsingagátt fyrir Ísland.
    IV. Endurskoða skilgreiningu á því hvaða sérfræðingar falla undir skilmálana.

 • Fyrirtæki þurfa einungis að sýna fram á að launin séu í samræmi við markaðslaun í greininni.

#3 Einfalda og efla stuðningsumhverfi

Með því að greina ríkisútgjöld til málaflokks nýsköpunar og endurskoða stuðningskerfi hins opinbera í heild sinni er unnt að ná fram meiri skilvirkni. Stuðningur ríkisins við málaflokkinn í gegnum bein fjárframlög ætti að byggja á skýrum og mælanlegum markmiðum og ráðast að veikleikum í nýsköpunarumhverfinu. Ef málaflokkurinn er á höndum margra stofnana er hætta á því að sömu verkefni séu á margra höndum og öðrum ekki sinnt.

 • Stuðningsumhverfi nýsköpunar á að vera skilvirkt og styðja við opinbera stefnu í nýsköpun. Hagræða á þannig að fjármunir nýtist sem best. Greina ríkisútgjöld til málaflokksins og kortleggja hlutverk mismunandi stofnana til að tryggja samfellu og auka skilvirkni. Sameina málaflokkinn undir einni stofnun.
 • Einfalda umsóknarferli fyrir styrki til nýsköpunarverkefna og endurskoða ferli endurgreiðslu á kostnaði vegna R&Þ með það að markmiði að gera það skilvirkara.
 • Setja á laggirnar tækniyfirfærsluskrifstofu (Technology Transfer Office, TTO).

#4 Efla kynningar- og markaðsstarf

Ýmis framfaraskref hafa verið stigin á undanförnum árum til að styðja við nýsköpun á Íslandi. Til að mynda voru nýsköpunarlög sett árið 2016. Minna hefur farið fyrir því að kynna og markaðssetja Ísland sem ákjósanlegan stað fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun.

 • Ísland markaðssett sem nýsköpunarland, öll upplýsingagjöf verði á ensku og aðgengi að upplýsingum stóreflt. Kynna Ísland sem valkost fyrir fyrirtæki í ákveðnum greinum, t.d. líftækni, heilbrigðistækni og hugbúnaðarþróun þar sem í boði eru verðmæt störf og tækifæri.
 • Ráðast að veikleikum sem snúa að sölu og markaðssetningu. Íslandsstofu falið aukið hlutverk í því samhengi.

Mynd-af-forsidu

FJÁRFESTINGAR Í SPROTAFYRIRTÆKJUM

Núverandi ákvæði um skattaafslátt til einstaklinga vegna fjárfestinga í sprotafyrirtækjum hafa ekki skilað sér í því að auka slíkar fjárfestingar í ríkum mæli. Skilyrði í núverandi löggjöf eru enn of þröng. Lagt er til að umgjörðin verði endurskoðuð í heild sinni og að horft verði til Bretlands við hönnun á skattahvötum vegna fjárfestinga einstaklinga og sjóða í nýsköpun og fyrirtækjum í vexti. Svokallað „Enterprise Investment Scheme“ sem tekið var upp í Bretlandi árið 1994 hefur skilað góðum árangri og náð fótfestu þar í landi. Fyrirkomulagið var valið það besta í Evrópu í skýrslu á vegum OECD fyrir árið 2017 en það er hannað með það að markmiði að hvetja til fjárfestinga í litlum óskráðum félögum.

PATENT BOX

Ísland er að dragast aftur úr nágrannaríkjum sínum í verndun og skráningu hugverka. Öfugt við alþjóðlega þróun hefur einkaleyfaumsóknum íslenskra lögaðila fækkað sé litið til þróunarinnar á árunum 2007–2017. Fjölmörg ríki í Evrópu og Asíu hafa á undanförnum áratugum innleitt sérstakar skattaívilnanir til fyrirtækja vegna hagnaðar sem kemur til vegna skráðra hugverka. Hafa þessar ívilnanir verið nefndar „PATENT BOX“. Ýmis skilyrði eru fyrir því að fyrirtæki geti nýtt sér slíka ívilnun, meðal annars að starfsemin skili hagnaði og að rannsóknir og þróun sem leiddu til einkaleyfis hafi átt sér stað hjá fyrirtækinu. Fyrirkomulagið gæti hvatt til aukinnar fjárfestingar í rannsóknum og þróun hjá íslenskum fyrirtækjum ásamt því að fjölga einkaleyfaumsóknum þar sem skýr hvati yrði til að skrá hugverk.