Alls staðar þar sem er þéttbýli eru vatnsveitur og eru þær ein af mikilvægustu innviðum samfélagsins enda er aðgengi að nægu og heilnæmu neysluvatni ein af grunnstoðum lýðheilsu og hagsældar í hverju samfélagi.
Íslendingar eiga nóg af hreinu og fersku vatni og er ferskvatnsauðlindin áætluð um 609 þúsund rúmmetrar á íbúa á ári sem gerir Ísland að fjórðu vatnsríkustu þjóð í heimi miðað við íbúafjölda.
97% af neysluvatni til almannanota kemur frá grunnvatni sem er veitt til neytenda ómeðhöndlað. Það þýðir að efnum er ekki blandað í vatnið eða það hreinsað sérstaklega. Fyrsta vatnsveita sveitarfélags á Íslandi var lögð á Ísafirði árið 1900, 1904 í Hafnarfirði og 1909 í Reykjavík.
Vatnsveitur innhalda alls konar mannvirki.
- Borholur og inntaksmannvirki við vatnsból
- Grannsvæði og vatnsverndarsvæði
- Vatnshreinsivirki
- Aðveituæðar
- Vatnssöfnunartankar
- Dreifikerfi (pípur, dælur, lokur, brunahanar o.fl.)
Segja má að tilgangur vatnsveitna sé þríþættur: Veita nægu neysluvatni ætluðu til neyslu og matargerðar, tryggja gæði vatnsins og veita brunavatni til slökkvistarfs.
- Endurstofnvirði: 140 milljarðar króna.
Uppsöfnuð viðhaldsþörf: 15 milljarðar króna.
- 3,5 ÁSTAND
- Gult FRAMTÍÐARHORFUR
ÁSTAND
3,5 VATNSVEITUR Á ÍSLANDI
Það voru 818 eftirlitsskyldar vatnsveitur á Íslandi árið 2015. Þar af voru um 633 einkaveitur með færri en 50 íbúa í fastri búsetu en hafa verið eftirlitsskyldar vegna þess að þar eru matvæla- fyrirtæki, oftast kúabú eða ferðaþjónusta. Þá eru ótaldar mun fleiri einkavatnsveitur sem þjóna einu eða fáum býlum eða sumarhúsum.
Allar stærri vatnsveitur eru reknar af sveitarfélögum eða fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga. Um 48 vatnsveitur eru á Íslandi með yfir 500 íbúa og þjónusta þær um 93% af íbúum landsins. Þar af þjóna 9 stærstu vatnsveiturnar (>5.000 íbúa) yfir 84% landsmanna. Almennt séð eru þessar stærri vatnsveitur í nokkuð góðu ásigkomulagi. Gæði vatns í þessum vatnsveitum eru mjög mikil og uppfylla þær neysluvatnsreglugerðina varðandi saurmengun í 99,4% tilvika (99,9% tilvika hjá vatnsveitum sem þjóna fleiri en 5.000 íbúum) og er erlendur samanburður eins og best verður á kosið. Viðhaldi og eftirliti er framfylgt með innra eftirliti. Grannsvæði og vatnsverndarsvæði eru skilgreind og varavatnsöflun er oft til staðar.
Mikið átak hefur farið fram á höfuðborgarsvæðinu í vatnsvernd þar sem sameiginleg samþykkt um verndarsvæði vatnsveitna á svæðinu var undirrituð árið 2015. Svæðisskipulag á vatnsbólum og vatnsveitum hefur í framhaldinu verið útbúið. Einnig hafa sveitarfélög á Norðurlandi verið ötulir frumkvöðlar í innleiðingu á góðum verkferlum fyrir viðbragðsáætlanir vegna mengunarslysa.
Minni vatnsveitur (með íbúafjölda < 500) eiga hins vegar frekar undir högg að sækja. Fleiri vatnsból minni vatnsveitna eru frá uppsprettum eða lindarvatni sem telst ekki eins örugg aðferð og vatnsból frá borholum og mun færri vatnsból eru í góðu ásigkomulagi. Þetta sýnir sig í niðurstöðum sýnataka heilbrigðisstofnana en samkvæmt rannsókn frá Háskóla Íslands eru um 3–8% af sýnum hjá minni vatnsveitum með saurmengun. Landlægum aðstæðum til vatnstöku er að hluta til um að kenna því samkvæmt sömu rannsókn kemur fram að 59 af þeim 84 sýnum (af 2478 heildarfjölda sýna) sem greinast með saurmengun á árunum 2010 til 2012 voru á eldri blágrýtissvæðum austan- og vestanlands. Berggrunnur er mjög þéttur á þessum svæðum, vatnsöflun erfiðari og algengara að yfirborðsvatn sé notað.
Minni sveitarfélög hafa oft minni tekjur af vatnsgjöldum vegna lægra fasteignamats, færri íbúa sem vatnsveitan þjónar og dreifikerfa sem spanna oft lengri vegalengdir. Þar af leiðir eru minni tekjur til þess að setja í greiningu og viðhald á vatnsveitukerfinu og gögn um kerfið oft af skornum skammti. Leiða má líkum að því að fjárfestingar og endurnýjunarþörf sé meiri í minni vatnsveitum auk þess sem aðgangur að vatnsbólum er oft erfiðari og lengri leiðir að fara. Innleiðing á innra eftirliti vatnsveitna er styttra á veg komin; viðhaldi geislunartækja og frágangi og viðhaldi á vatnstökusvæðum er ábótavant og oft skortir tækniþekkingu hjá umsjónarmönnum vatnsveitnanna.
Þá er ótalinn fjöldi vatnsveitna sem margar hverjar þjónusta fjöldann allan af ferðamönnum svo og sumarbústaðasvæði sem vegna núverandi regluverks eru ekki eftirlitsskyldar vegna þess að fjöldi íbúa er undir 50 og engin matvælafyrirtæki eins og kúabú tengd þeim. Ör vöxtur ferðamannastraums um landið og sprenging í byggingu sumarbústaða síðustu ár kallar á breyttar reglur um eftirlit með neysluvatnsnotkun á ferðamannastöðum og sumarbústaðasvæðum.
FRAMÍÐARHORFUR
Gult
Stærsta áhættan fyrir vatnsöflun í náinni framtíð er án efa öryggi og vernd núverandi vatnsbóla og framtíðarvatnsbóla. Íslendingar hampa sér í hvívetna fyrir að vera með besta og hreinasta vatn í heimi en það er einungis svo ef vel er farið með þau landsvæði sem gefa okkur þetta hreina vatn. Skipulagi vatnsverndarsvæða þarf að vera framfylgt fyrir öll vatnsból og áhættugreining á mengunarslysum skilgreind svo hægt sé að tryggja vatnsöflun til framtíðar. Yfirvöld þurfa að styðja við minni byggðir úti á landi svo að öryggi vatnsöflunar sé tryggt um allt land.
Auk þess eru lagnir í jörðu að eldast og afskrifast á 40–60 ára tímabili. Mikil uppbygging á vatnsveitum fór fram um miðbik síðustu aldar og fram undir 1980 sem þýðir að margar lagnir í jörðu og miðlunartankar eru komnir á aldur. Stærri vatnsveitur hafa haldið í við endurnýjunarþörf vatnsveitukerfisins að mestu leyti þó hægst hafi á fjárfestingu í viðhaldi á árunum eftir hrun. Mikilvægt er að halda áfram að endurnýja kerfið, leita kerfisbundið að lekum og styrkja innviðina til framtíðar. Einnig er mikilvægt að sú þekking, reynsla og fjárfesting sem unnist hefur hjá stærri sveitarfélögum sé yfirfærð á minni vatnsveitur þar sem um mun meiri uppsafnaða þörf fyrir endurnýjun lagna og mannvirkja er að ræða á mörgum stöðum.
Loftslagsbreytingar munu hafa verulegar afleiðingar á vatnsöflun til lengri tíma litið. Næstu 50–100 árin er gert ráð fyrir breytingum á stærð jökla, úrkomuhegðun og hitastigi sem geta haft í för með sér breytingar á vatnsbúskapi í landinu. Ekki er þó líklegt að mikil áhrif verði á vatnsöflun á Íslandi í náinni framtíð (næstu 10–15 ár) þar sem nánast öll vatnsöflun er með grunnvatni. Um 3–5% af vatnstöku er frá yfirborðsvatni. Það er mun líklegra til þess að verða fyrir áhrifum á breytingum á loftslagi og mælt er með því að yfirvöld forgangsraði því að tryggja öryggi vatnsöflunar með borholum á þeim svæðum á landinu sem eldri blágrýtismyndanir valda töluverðum erfiðleikum í vatnsöflun.
HVERNIG KOMUM VIÐ Á BREYTINGUM?
VIÐHALD ELDRI LAGNAKERFA
Sveitarfélög þurfa að leggja aukna áherslu á og fjármagn í að uppfæra og endurnýja lagnakerfið. Með því að minnka leka í lagnakerfinu mun flutningsgeta núverandi kerfis aukast sem er mikilvægt vegna íbúafjölgunar og öryggisráðstafana ef þrýstingur fer af kerfum.
Minni vatnsveitur þurfa að fá betri yfirsýn yfir núverandi vatnsveitukerfi til þess að forgangsraða aðgerðum til þess að uppfylla kröfur um gæði vatns í neysluvatnsreglugerðinni. Kerfisbundin kortlagning vatnsveitna í landupplýsingakerfum, uppbygging líkana, eftirlit með lekum, úttektir á ástandi lagna og annarra mannvirkja, aukin áhersla á viðhald á geislatækjum og endurbætur á núverandi vatnsbólum eru nauðsynlegar til þess að tryggja öryggi afhendingar hreins neysluvatns. Mikilvægt er að styðja við minni sveitarfélög svo að tryggt sé að þessi vinna geti farið fram um allt land.
ENDURSKOÐUN Á REGLUVERKI, SAMRÆMING Á GAGNASÖFNUN
Stefnumörkun stjórnvalda varðandi neysluvatn þarf að vera skýr. Endurskoða þarf núverandi reglugerðir og sjá til þess að vatnsveitur séu eftirlitsskyldar miðað við notkun óháð íbúafjölda. Sýnatökur þurfa einnig að endurspegla notkun, veðurfar og aðrar aðstæður á svæðum þar sem fjöldi notenda er breytilegur og ótengdur íbúafjölda, svo sem á ferðamannastöðum og sumarbústaðasvæðum. Samræma þarf gagnasöfnun og sýnatöku með það að markmiði að allar upplýsingar gefi rétta mynd af ástandi vatnsins og styrkja þarf eftirlitsaðila til þess að auka opinbert eftirlit.
INNRA EFTIRLIT
Fáar minni vatnsveitur hafa komið sér upp innra eftirliti. Innra eftirlit snýr að skilgreiningu á verklagsreglum, áhættugreiningu og aðgerðum til þess að fyrirbyggja mengun. Ávinningur af innleiðingu innra eftirlits hjá stærri vatnsveitum sem þjóna yfir 80% landsmanna hefur verið ótvíræður. Því er mikilvægt að bæta kröfum um innra eftirlit í reglugerð í samræmi við nýlega viðbót við Evróputilskipunina um neysluvatn. Þannig kröfum þarf þó að fylgja eftir með öflugum leiðbeiningum um innleiðingu innra eftirlits og skýrum og einföldum gátlistum eða bæklingum fyrir ábyrgðaraðila minni vatnsveitna.
ÞJÁLFUN, FRÆÐSLA OG LEIÐBEININGAR
Mikilvægt er að auka þjálfun og fræðslu umsjónarmanna og starfsmanna vatnsveitna. Stutt námskeið í samvinnu við háskóla landsins og samtök innan vatnsveituiðnaðarins, t.d. Samorku, ættu að leggja áherslu á mikilvægi mengunarhættu, innra eftirlits og fyrirbyggjandi aðgerða. Einnig er þörf á því að samræma verkferla og útbúa leiðbeiningar fyrir opinbera eftirlitsaðila, svo sem hvernig gera eigi úttektir á vatnsbólum og vatnsveitum, úttektir á innra eftirliti og innleiðingu þess.
RÁÐLEGGINGAR
Neysluvatn er í raun matvæli og vatnsveitur því helstu matvælafyrirtæki hvers byggðarlags. Því þarf að skerpa á mikilvægi vatnsveitna landsins sem undirstöðu lýðheilsu og sjálfsagðra mannréttinda hér á landi. Íslendingar taka því oft sem sjálfsögðum hlut að hafa aðgang að hreinu ómeðhöndluðu vatni. Með auknum fólksfjölda, ágangi að landsvæðum í kringum vatnsból, eldri lögnum og öðrum vatnsveituinnviðum er aukin hætta á því að þessi aðgangur verði ekki lengur svo sjálfsagður.
Það þarf að safna saman og skrá upplýsingar frá eftirlitsskyldum vatnsveitum í miðlægan gagnagrunn og opna upplýsingagátt þar sem neytendur geta sótt helstu upplýsingar um uppruna og ástand á sínu neysluvatni. Gæði neysluvatns eru ekki einkamál vatnsveitna. Neytandinn ætti að fá tækifæri til þess að kynna sér gæði vatnsins sem hann neytir svo hann geti tekið upplýsta ákvörðun um það hvort hann neyti vatnsins eða noti það yfirleitt.
Aukin áhersla á yfirsýn, eftirlit og upplýsingagjöf leiðir af sér að sterka framtíðarsýn þarf frá yfirvöldum sem þurfa svo að framfylgja þeirri sýn með auknu fjármagni og skýrri stefnumörkun.
Hvergi á það betur við en hér að byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann. Aukin áhersla á upplýsingagjöf og fræðslu til almennings og ábyrgðarmanna vatnsveitna og vitundarvakning um mikilvægi vatnsveitna er nauðsynleg og mun styðja við það að allir geti staðið saman í að standa vörð um eina mikilvægustu auðlind okkar Íslendinga og treysta innviði okkar til framtíðar.
RÝNI
Íslenska vatnið er líklega eitt af því allra dýrmætasta sem þessi þjóð á. Mikilvægt er að taka því ekki sem sjálfsögðu og gera þær ráðstafanir sem þarf til að njóta og viðhalda því sem best. Kaflinn er góð greining á ástandi og þörf í þjóðfélaginu í vatnsveitumálum. Í greiningunni kemur vel fram að það er nauðsynlegt að viðhalda og bæta úr menntun á þessu sviði til að geta uppfyllt þau skilyrði sem væntingar eru til.
Aldís Ingimarsdóttir, aðjúnkt, tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
HEIMILDIR
- Ársskýrslur vatnsveitufyrirtækja og sveitarfélaga.
- Gunnarsdottir, M.J. & Gardarsson, S.M. (2011) Að byrgja brunninn. Rannsókn á innra eftirlit vatnsveitna. Ritrýnd vísindagrein í Árbók VFÍ/TFÍ 2011.
- Gunnarsdottir, M.J. & Gardarsson, S.M. (2014) Gæði neysluvatns í ferðaþjónustu á Íslandi. Ritrýnd vísindagrein í Verktækni 2015/21.
- Gunnarsdottir, M.J. & Gardarsson, S.M. (2015) Gæði neysluvatns á Íslandi 2002–2012. Skýrsla unnin fyrir Matvælastofnun.
- Gunnarsdottir, M.J. & Gardarsson, S.M. (2016) Íslenskt neysluvatn: Yfirlit og staða gæða. Ritrýnd vísindagrein í Verktækni 2016/22.
- Niðurstöður starfshóps um litlar vatnsveitur skipuðum af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (óútgefið).
- Talnaefni Orkustofnunar.
- Vatnsveituhandbók Samorku.
- Viðlagatrygging Íslands.