Fréttasafn



4. mar. 2016

Hugverkaráð Samtaka iðnaðarins stofnað

 Hugverkaráð Samtaka iðnaðarins var stofnað með formlegum hætti í gær en í ráðinu sitja 15 manns. Þessu nýja ráði er ætlað að styrkja þau málefni sem eru sameiginleg fyrirtækjum sem starfa á alþjóðamörkuðum og byggja afurðir sínar og þjónustu á tækni og hugverki. Að undanförnu hafa orðið miklar breytingar í hugverkaiðnaðinum og mikill vöxtur hefur einkennt starfsemi þeirra fyrirtækja sem tilheyra þessum iðnaði. 

Áætlað verðmæti útflutnings annars iðnaðar og þjónustu er 289 milljarðar króna á síðasta ári og hefur vaxið um 81% frá árinu 2009 þegar verðmætið var 161 milljarður króna. Hlutfall þessa iðnaðar hefur vaxið og er nú 24% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar sem er álíka mikið og það sem sjávar- og landbúnaðarafurðir skapa. 

Stofnun Hugverkaráðs SI er liður í því að efla samkeppnishæfni hugverka- og tæknifyrirtækja á Íslandi þar sem stefnt er að því að skapað verði rekstrarumhverfi sem jafnast á við það sem best gerist á alþjóðlegum vettvangi. Á stofnfundinum voru lagðar línur fyrir starf ráðsins á næstu misserum þar sem kom fram mikilvægi þess fyrir framtíð og vöxt íslenska hagkerfisins að iðnaðurinn vinni markvisst að lykilmálefnum til að ná þeim árangri sem að er stefnt.