Fréttasafn



  • Seðlabanki Íslands

25. maí 2011

Verðbólgan og Seðlabankinn áhyggjuefni

Verðbólgan er á hraðri uppleið en í maí hækkaði vísitala neysluverðs um 0,94%. Verðbólgan mælist nú 3,4% á ársgrundvelli en var til samanburðar aðeins 1,9% í febrúar sl.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, segist hafa verulegar áhyggjur af þessari þróun en ekki síst af mögulegum viðbrögðum Seðlabankans enda þurfi hagkerfið síst á vaxtahækkunum að halda við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja. „Þetta er nokkru meiri hækkun en flestir spáðu en talsverðar hækkanir voru þó klárlega í kortunum. Því miður bendir ýmislegt til að þessi þróun muni halda áfram á næstu mánuðum. Nýir kjarasamningar leggjast á fullum þunga á atvinnulífið um þessar mundir og þróun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði gefur væntingar um vaxandi verðbólgu skýrt til kynna“, segir Bjarni Már.

Stýrivextir Seðlabankans eru nú 4,25% miðað við vexti á lánum gegn veði en 3,63% sé horft á skilgreiningu Seðlabankans sjálfs á virkum stýrivöxtum. „Miðað við verðbólguna núna eru raunstýrivextir mjög lágir um þessar mundir. Í ljósi yfirlýsinga bankans má leiða að því líkur að bankinn fari að huga að vaxtahækkun jafnvel þótt slakinn í hagkerfinu sé enn afar mikill. Ég tel að það væri afar slæm þróun. Við þurfum að nýta önnur hagstjórnartæki til að vinna okkur út úr þessum vanda. Í því samhengi skiptir mestu að fá almenna eftirspurn í gang og greiða götu stórfjárfestinga. Það getur skotið stoðum undir eftirspurnina og stutt við gengi krónunnar og þar með unnið gegn verðbólgu“, segir Bjarni