Fréttasafn  • Orka-fyrir-samgongur

27. maí 2011

Endurnýjanlegir orkugjafar fyrir samgöngur

Þriðji og síðasti fundurinn í fundaröð SI, HR og Samáls um orkumál fór fram í morgun í Háskólanum í Reykjavík. Fjallað var um orku fyrir samgöngur en áður hefur verið fjallað um ný tækifæri í orkuöflun og þjóðhagsleg áhrif orkunýtingar.

Mikil gróska er í þróun endurnýjanlegra orkugjafa fyrir samgöngur. Verkefnið er flókið, breyta þarf ökutækjum, framleiða nýja tegund orkugjafa og endurskipuleggja innviði og dreifingarleiðir. Samstarf margra aðila er því nauðsynlegt.

Gestafyrirlesari var Philip Metcalfe, ráðgjafi á sviði endurnýjanlegrar orku. Philip er rafmagnsverkfræðingur og starfar sem ráðgjafi með áherslu á fjárfestingar í endurnýjanlegri orku. Hann hefur m.a. starfað í verkefnum um lífdísel, vindmyllur og kolefnisviðskipti.

Auk hans fluttu erindi Guðrún Sævarsdóttir, lektor við Tækni- og verkfræðideild HR og Sverrir Viðar Hauksson, formaður verkefnisstjórnar Grænu orkunnar. Erindi Guðrúnar snerist um orkulausnir í samgöngum og Sverrir fjallaði um Grænu orkuna sem er vettvangur stefnumótunar í orkuskiptum. 

Philip skoðaði framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa út frá virðiskeðju orkuframleiðslu. Viðskipatækifærin liggja víða og beindi hann sjónum að orkuframleiðslunni sjálfri annars vegar og tækni til framleiðslu hins vegar. Viðskiptaumhverfið er flókið og samkeppnisaðilarnir eru ekki alltaf augljósir, þeir geta verið t.d. matvælaframleiðendur. Hvatakerfi opinberra aðila spila gjarnan stórt hlutverk en reynslan sýnir að fara þarf varlega í að treysta um of á slíkt í viðskiptaákvörðunum. Viðskiptalegir hvatar eru mismunandi milli landa og horfa þarf til orkuframleiðslunnar sem fyrir er í landinu. 

Guðrún bar í erindi sínu saman mismunandi orkulausnir fyrir samgöngur. Hún skoðaði orkunýtni í framleiðsluferli og notkun orkunnar. Talsverður munur er á nýtninni eftir tegund orkugjafa og tækni sem notuð er. Ekki er nóg að horfa á ökutækið sjálft, skoða þarf allt framleiðsluferlið. Guðrún skoðað einnig áhrif á gjaldeyrissparnað og þar var talsverður munur eftir tegund orkugjafa. Orkunýtni leikur þar einnig lykilhlutverk. 

Sverrir Viðar sagði frá Grænu orkunni, verkefni sem iðnaðarráðherra setti á fót árið 2010 og er ætlað að leiða stefnumótunarvinnu í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi. Um langtímaverkefni er að ræða sem m.a. á að kortleggja umhverfið og skapa vettvang utanumhalds og rekstrar til lengri tíma. Verkaskipting á milli einkaframtaksins, fræðasamfélagsins, opinberra aðila og stofnana þarf að liggja fyrir og samræma þarf markmið Íslands við alþjóðasamfélagið.  Sverrir segir engan einn orkugjafa verða allsráðandi í framtíðinni og enn sé eftir umtalsverð þróun til bættrar nýtingar og minni mengunar. Mikilvægt sé að stíga skynsamleg skref með skýr lokamarkmið.