Fréttasafn



7. maí 2013

Gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi Steinullar hf. vottuð

Gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi Steinullar hf. á Sauðárkróki hafa nú verið vottuð samkvæmt ISO 9001:2008 og ISO 14001:2004 stöðlunum. Vottunin nær yfir framleiðslu og sölu á steinullinni og einnig er hráefnatakan á Sauðárkróki innan kerfisins.

Undirbúningur verkefnanna hófst í byrjun árs 2011 og hlaut gæðastjórnunarkerfið vottun í september 2012 og umhverfisstjórnunarhlutinn var síðan vottaður í apríl síðastliðnum.

Steinull naut ráðgjafar fyrirtækisins 7.is við innleiðingu kerfanna en alþjóðlegi vottunaraðilinn VTT, Technical Research Centre í Finnlandi annaðist vottunarferlið.

ISO staðlarnir eru alþjóðleg viðmið í viðskiptum milli fyrirtækja og viðurkenndir til að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri.

Vegna framangreindra vottana eru afurðir Steinullar hf. nú gjaldgengar, sem byggingarefni í vistvænar byggingar. Miðað er við kröfur BREEAM matskerfis, sem var byggt upp í Bretlandi en hefur hlotið talsverða útbreiðslu í Evrópu og víðar. Þau viðmið sem þar eru sett ryðja sér nú mjög rúms og grundvallast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Framleiðsla Steinullar hf. er um margt einstök varðandi umhverfisáhrif. Hráefnið kemur ekki úr grjótnámu og ekki er notað jarðefnaeldsneyti til að bræða grjótið, sem er hin hefðbundna aðferð. Í staðinn eru notaðir íslenskir endurnýjanlegir orkugjafar við framleiðsluna en ekki er síður athyglisverð hráefnatakan úr fjörunni á Sauðárkróki þar sem umhverfisáhrif eru ekki merkjanleg eftir nærri 30 ára starfssemi fyrirtækisins. Segja má að náman endurnýi sig sjálf með framburði Héraðsvatna, sem sjórinn skilar upp í fjöruna.

Þrátt fyrir hrun íslenska byggingamarkaðarins hefur rekstrarafkoma Steinullar hf. verið viðunandi enda efnahagur fyrirtækisins afar traustur og það verið í hópi „ Framúrskarandi fyrirtækja“, allt frá því að CREDITINFO fór að veita þær viðurkenningar.