Fréttasafn



30. ágú. 2013

Úttekt á samkeppnishæfni Norðurlanda

Markmiðið að efla atvinnulíf og bæta lífskjör

Formenn og framkvæmdastjórar samtaka atvinnulífs og iðnaðar á Norðurlöndunum samþykktu á fundi í Reykjavík í gær að ráðast í sameiginlega úttekt á samkeppnishæfni Norðurlanda. Markmið úttektarinnar er að finna leiðir til að efla atvinnulíf í löndunum og bæta lífskjör fólks sem þar býr, en kraftmikið atvinnulíf er forsenda öflugrar norrænnar velferðar.

Þó að margt sameini Norðurlöndin er annað ólíkt. Í úttektinni verða nokkrir lykilþættir skoðaðir og það dregið fram sem best er gert, hvað megi betur fara og á hvaða sviðum er hægt að læra af reynslu annarra. Stefnt er að því að niðurstöður úttektarinnar liggi fyrir vorið 2014.

Á fundi samtakanna var rætt um stöðu og horfur í efnahagslífi Íslands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Íbúar Norðurlandanna eru um 26 milljónir en á norrænum vinnumarkaði eru um 13,4 milljónir manna þar af 12,3 milljónir starfandi en um 900 þúsund atvinnulausir. Atvinnuþátttaka er mikil og hlutfall þeirra sem standa utan vinnumarkaðar er tiltölulega lágt í alþjóðlegum samanburði.

Í efnahagslægð síðustu ára hefur verið horft til Norðurlandanna sem fyrirmynda á mörgum sviðum en þó er ljóst að áskoranir sem löndin standa frammi fyrir eru margar. Til að viðhalda samkeppnisstöðu sinni og til að geta sótt fram verða Norðurlöndin að skapa nýjar hugmyndir og lausnir. Þess vegna verða þjóðirnar að leggja mikla áherslu á nýsköpun, rannsóknir, þróun og menntun til að dragast ekki aftur úr. Norðurlöndin verða jafnframt að búa svo um hnútana að þar sé eftirsóknarvert að búa. Þar skipta launakjör, verðlag og skattar verulegu máli auk velferðarþjónustu og menningar.

Fundinn sátu forystumenn og -konur stærstu samtaka vinnuveitenda á Norðurlöndum, DI (Dansk industri), DA (Dansk arbejdsforgivening), NHO (Næringslivets Hovedorganisasjon), SN (Svenskt Näringsliv), EK (Elinkeinoelämän keskusliitto), SA (Samtök atvinnulífsins) og SI (Samtök iðnaðarins). Innan samtakanna starfa um 130.000 fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum í fjölbreyttum atvinnugreinum.