Eitt af hverjum fimm störfum

Iðnaður er umfangsmikill á íslenskum vinnumarkaði en tæplega 44 þúsund manns störfuðu í iðnaði á síðastliðnu ári eða einn af hverjum fimm hér á landi. Undirstrika tölurnar umfang iðnaðarins á íslenskum vinnumarkaði og mikilvægan þátt greinarinnar í gangverki hagkerfisins. 

Á margan máta hefur vel tekist til við að efla iðnað hér á landi á síðustu árum. Það sést m.a. í því að starfandi í iðnaði hefur fjölgað umtalsvert. Í greininni í fyrra voru starfandi ríflega 10 þúsund fleiri í fyrra en árið 2010, á botni síðustu efnahagsniðursveiflu. Telur það tæplega eitt af hverjum fjórum störfum sem urðu til í hagkerfinu á þessum tíma. Hlutfallið er vísbending um veigamikinn þátt greinarinnar í hagvexti tímabilsins og framlag hennar til bættra efnahagslegra lífsgæða í landinu.

Íslenskur iðnaður lagði þannig meira til endurreisnarinnar heldur en stærð hans gaf til kynna, Iðnaðurinn getur á enn kröftugri hátt verið drifkraftur viðspyrnu hagkerfisins nú. Til þess þurfa stjórnvöld og atvinnulíf að taka höndum saman og vinna hratt að uppbyggingu og bættum skilyrðum. Nýjar útflutningsgreinar og aukin verðmæti með nýsköpun í rótgrónum greinum þurfa að knýja vöxtinn til að viðhalda þeim lífskjörum sem við höfum búið við.

Þrjár megingreinar iðnaðar umfangsmiklar

Starfsemi fyrirtækja í iðnaði er fjölbreytileg á sviði framleiðsluiðnaðar, mannvirkjagerðar og hugverkaiðnaðar. Þá skapar greinin margvísleg störf á fjölmörgum sviðum samfélagsins bæði beint og óbeint. Fyrirtækin í greininni eru af ýmsum stærðum um allt land í útflutningi og þjónustu við innlendan markað. Ólík flóra fyrirtækja innan raða iðnaðar er mikilvægt sérkenni atvinnugreinarinnar og uppspretta afar fjölbreyttra starfa í íslensku efnahagslífi. Þessi fjölbreytileiki er mikill kostur en hann skapar kærkomið mótvægi og myndar grundvöll stöðugleika og framfara í efnahagslífinu.

Heildarfjöldi starfandi í mannvirkjagerð var 14.200 á síðasta ári samanborið við 7.300 árið 2012 þegar uppsveiflan í þeirri grein hófst og fjárfesting í hagkerfinu fór að vaxa að nýju. Það sem af er árinu 2020 hafa að meðaltali verið 13.100 starfandi í greininni. Fjölgun starfandi frá 2012-2019 nemur 6.900 sem stendur undir ríflega 18% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á þeim tíma. Umfang greinarinnar jókst í undangenginni uppsveiflu og undirstrikar það stóran þátt greinarinnar í velgengni íslensks efnahagslífs á liðnum árum. Greinin hefur verið í uppbyggingu atvinnuhúsnæðis, íbúða og annarra innviða sem undirbyggja hagvöxt til framtíðar.

Efnahagssveiflurnar hér á landi birtast í sveiflum í þessari grein með ýktum hætti. Stöðugleikinn er greininni því afar mikilvægur en sveiflurnar koma niður á uppbyggingu og framleiðni innan greinarinnar. Niðursveiflan nú er sérstaklega að koma fram í samdrætti í fjárfestingu atvinnuveganna. Mikilvægt er að þessu sé mætt af hálfu hins opinbera með auknum innviðaframkvæmdum en þannig er bæði niðursveiflan milduð og unnið á uppsafnaðri þörf á þeim vettvangi sem myndar grundvöll hagvaxtar til lengri tíma. Litið til tólf mánaða fram til ágúst í ár fækkaði starfandi í greininni um ríflega 9%. Ánægjulegt er að sjá að niðursveiflan í greininni er nú mun minni en almennt hefur verið raunin í niðursveiflum hér á landi. Ber að þakka það m.a. viðbrögðum í hagstjórn.

Heildarfjöldi starfandi í framleiðsluiðnaði án fiskvinnslu var 17.500 á síðasta ári sem var um 8% af heildarfjölda starfandi í hagkerfinu á því ári. Starfandi í greininni hafði þá fjölgað um 2.700 frá því að hagkerfið byrjaði að taka við sér 2011 og nemur það um 6,8% af heildarfjölgun starfandi í hagkerfinu á tímabilinu. Hlutfallslega hefur fjölgað mest í hátækniframleiðslu. Litið til síðustu mánaða má hins vegar greina samdrátt í greininni. Á tólf mánaða tímabili fram til ágúst í ár nemur fækkun starfandi 7% sem er jafn mikið og í iðnaðinum í heild á því tímabili.

Hugverkaiðnaður er umfangsmikill hér á landi en starfandi voru 12.100 í þeirri grein á síðasta ári. Það var 5,5% af heildarfjölda starfandi í landinu þá og undirstrikar mikilvægi greinarinnar fyrir hagkerfið allt. Störfum í þeirri grein iðnaðar hefur fjölgað um 1.500 síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér árið 2011. Um er að ræða 4% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á tímabilinu. Hugverkaiðnaður hefur bæði beint og óbeint verið þáttur í þeim vexti gjaldeyristekna sem dreif síðustu efnahagsuppsveiflu áfram enda hafa fyrirtæki í greininni meirihluta tekna sinna erlendis frá. Fyrirtæki í hátækniframleiðslu fluttu þannig út 75% af veltu sinni á árunum 2017-2019 sem er tvöfalt á við meðaltalið í einkageiranum. Samdráttur mælist í nú í greininni og nemur fækkun starfandi á tólf mánaða tímabili fram til ágúst í ár 4% sem er nokkuð undir bæði því sem almennt hefur verið í iðnaðinum og í einkageiranum í heild á sama tímabili.

Fjöldi starfandi í greinum iðnaðar