Einn af hverjum fimm starfa í iðnaði

Iðnaður er umfangsmikill á íslenskum vinnumarkaði en  ríflega 40 þúsund manns störfuðu í iðnaði á síðastliðnu ári eða einn af hverjum fimm launþegum í landinu. Eru störfin fjölbreytileg á sviði framleiðsluiðnaðar, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar og tækni- og hugverkaiðnaðar. 


Launthegar-i-idnadi_1530618517418

Mikil gróska hefur verið í iðnaði á síðustu árum. Hefur starfandi fólki í greininni fjölgað um 8.000 frá því að hagkerfið byrjaði að taka við sér í núverandi efnahagsuppsveiflu. Er þetta um 23% af öllum störfum sem skapast hafa í hagkerfinu á þessum tíma. Undirstrika tölurnar þátt greinarinnar í að ná niður atvinnuleysi á tímabilinu en atvinnuleysið var eitt helsta böl íslensks samfélags eftir efnahagsáfallið 2008. 

Ofangreindar tölur bera það með sér að iðnaðarstarfsemi hér á landi er afar mikilvægur þáttur í gangverki hagkerfisins. Skapar greinin margvísleg störf á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Ef tekið er með óbeint framlag greinarinnar til atvinnusköpunar er umfang hennar hins vegar umtalsvert meira. Má nefna að í nýlegu mati Business Europe kemur fram að tíu störf í iðnaði skapi ríflega 6 störf í öðrum greinum hagkerfisins s.s. í ýmsum þjónustugreinum. Séu tölurnar yfirfærðar á Ísland má því leiða líkum að því að iðnaðarstarfsemi skapi um 25 þúsund afleidd störf og iðnaðurinn standi því beint og óbeint undir einum þriðja af öllum störfum landsins. 

Byggingariðnaður í mikilli uppsveiflu

Heildarfjöldi launþega í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var 12.600 á síðasta ári samanborið við 7.200 árið 2012 þegar uppsveiflan í þeirri grein hófst og fjárfesting í hagkerfinu fór að vaxa að nýju. Fjölgunin er 5.400 eða um 18% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á þeim tíma. Hefur fjölgunin haldið áfram á þessu ári en að meðaltali hafa tæplega 13.000 starfað í greininni á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs sem er um 14% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Vöxturinn í þessari grein vegur 22% af heildarfjölgun launþega í öllum atvinnugreinum hagkerfisins á þessum tíma. 

Umfang greinarinnar hefur aukist í uppsveiflunni og undirstrikar það stóran þátt greinarinnar í hagvextinum um þessar mundir. Mikið hefur hvílt á byggingariðnaði í uppbyggingu innviða hagkerfisins m.a. fyrir ferðamenn en tekjur af þeim hefur verið grundvöllur þess mikla vaxtar í þjónustuútflutningi sem einkennt hefur þessa efnahagsuppsveiflu. Hafa fyrirtæki í greininni, svo dæmi sé tekið, staðið í ströngu undanfarið við uppbyggingu gistirýmis fyrir ferðamenn. Þá hefur talsverð aukning verið í byggingu íbúðarhúsnæðis undanfarið eftir ládeiðu í þeim efnum langt frameftir núverandi efnahagsuppsveiflu. Hefur greinin auk þess verið í stórum verkefnum á sviði fjárfestinga atvinnuveganna á þessum tíma.

Fjoldi-launthega-i-byggingarstarfsemi-og-mannvirkjagerd

Hægt hefur á vexti framleiðsluiðnaðar

Heildarfjöldi launþega í framleiðsluiðnaði án fiskvinnslu var 17.200 á síðasta ári samanborði við 15.000 á árinu 2010 þegar uppsveiflan hófst. Launþegum hefur fjölgað hlutfallslega mest í meðal- og hátækniframleiðslu. Er vægi þessa vaxtar af heildarfjölgun starfa í hagkerfinu á þessum tíma nálægt því að eitt að hverjum tíu störfum sem skapast hafa í hagkerfinu á þeim tíma verið í framleiðsluiðnaði.

Fjoldi-launthega-i-framleidsluidnadi-an-fiskvinnslu

Nokkuð hægði á vexti framleiðsluiðnaðar á síðastliðnu ári en vöxtur í fjölda launþega í greininni mældist einungis 1% árið 2017 samanborið við ríflega 3% á árinu 2016. Hefur þessi þróun haldið áfram á þessu ári. Má telja að skýringuna sé að finna í framleiðnivexti, hægari hagvexti ásamt háu raungengi krónunnar en hröð hækkun raungengisins hefur dregið umtalsvert úr samakeppnisshæfni íslensks framleiðsluiðnaðar á síðustu árum vegið að markaðshlutdeild hans og flutt störf í greininni erlendis.  

Óstöðugleiki og launahækkanir umfram framleiðnivöxt

Laun hafa verið að hækka mun hraðar hér á landi á síðustu árum en í löndum helstu samkeppnisfyrirtækja íslenska iðnaðar. Hefur þetta ásamt mikilli hækkun á gengi krónunnar veikt samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar gagnvart erlendum keppinautum og vegið að markaðshlutdeild hans. Eru laun á Íslandi orðin ein þau hæðstu sem fyrirfinnast. Voru mánaðarlaun á íslandi t.d. árið 2017 þau önnur hæstu innan OECD ríkjanna á eftir Sviss. 

Medallaun-a-manudi-2017

Við þetta bætist síðan háir skattar og háir vextir hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Hefur þetta ekki sýst komið niður á starfsemi íslenskra framleiðslufyrirtækja en allnokkur þeirra hafi að undanförnu brugðist við stöðunni með því að draga úr eða hætta sinni starfsemi hér á landi. Hefur þetta komið niður á umfangi og vexti  framleiðsluiðnaðar hér á landi.  

Raungengi-kronunnar-m-v-laun-visitala

Mikil óstöðugleiki í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja gangvart erlendum hefur verið á síðustu áratugum m.t.t. launa og gengisþróunar. Mikilvægt verkefni litið til framtíðar er að skapa aukinn stöðugleika m.t.t. þessara þátta. Með því er lyft undir framleiðnivöxt, nýsköpun, vöxt og verðmætasköpun íslensks iðnaðar og atvinnulífsins alls.

Í þessu sambandi eru mikilvægt að í komandi kjarasamningum sé horft til mikilvægi þeirra í að skapa ofangreindan stöðugleika. Stöðugleikinn er ekki bara til hagsbóta fyrir fyrirtæki heldur allt íslenskt samfélag. Launahækkanir verða að eiga sér innistæðu í aukinni framleiðni. Vinnumarkaðurinn, peningastefnan og opinber fjármál þurfa að ganga í takt í að tryggja stöðugleikann. Hið opinbera hefur þar víðtæk áhrif með m.a. aðgerðum í skattamálum og núna ekki sýst aðkomu að íbúðamarkaðinum en mikil verðhækkun íbúða umfram launahækkanir hefur verið hluti af ástæðum þess óróleika sem nú má greina á vinnumarkaði.      

Tækni- og hugverkaiðnaður umfangsmikill

Tækni- og hugverkaiðnaður er umfangsmikill hér á landi en launþegar voru 13.300 í þeirri grein á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar. Um er að ræða 7% af heildarfjölda launþega í landinu og undirstrikar það mikilvægi greinarinnar fyrir hagkerfið allt. Hefur störfum í þeirri grein iðnaðar fjölgað um 1.800 síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér í núverandi efnahagsuppsveiflu. Um er að ræða 5% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á tímabilinu.  Tækni- og hugverkaiðnaður hefur bæði beint og óbeint verið þáttur í þeim vexti gjaldeyristekna sem drifið hefur núverandi hagvaxtarskeið. Þjónusta við mikla fjölgun ferðamanna hvílir, svo dæmi sé tekið, að stórum hluta á þessari grein. 

Fjoldi-launthega-i-taekni-og-hugverkaidnadi

Vel launuð störf

Iðnaðurinn skapar vel launuð störf. Í fyrra var launakostnaður á hvern launþega í iðnaði 7,5 m.kr. en til samanburðar var hann 6,8 m.kr. á hvern launþega í viðskiptahagkerfinu. Munurinn er um 10% sem bendir til þess að laun séu að meðaltali hærri í iðnaði en í viðskiptahagkerfinu almennt. Launakostnaður á hvern launþega hefur hækkað umtalsvert á síðustu árum í iðnaði og öllu meira en í viðskiptahagkerfinu almennt. Nemur hækkunin í iðnaði 47% í iðnaði síðan 2010 eða frá því að núverandi efnahagsuppsveifla byrjaði. Hækkunin í viðskiptahagkerfinu almenn var hins vegar 36% á sama tíma. 

Medal-launakostnadur-a-hvern-launthega