Iðnaður skapar 23% landsframleiðslunnar

Íslenskur iðnaður er mjög umfangsmikill í íslensku efnahagslífi. Skapaði greinin tæplega 23% landsframleiðslunnar með beinum hætti á árinu 2017 eða um 582 ma.kr. Lætur því nærri að iðnaður hafi á því ári skapað eina af hverjum fjórum krónum sem urðu til innan íslenska hagkerfisins. Ef með er tekið óbeint framlag greinarinnar til verðmætasköpunar hagkerfisins er umfang hennar umtalsvert meira. Iðnaður er því ein af megin undirstöðum íslensks efnahagslífs. 


Hlutur-idnadar-i-landsframleidslu2

Skipta má iðnaði upp í þrjár greinar, þ.e. byggingar-, framleiðslu- og hugverkaiðnað. Innan þessara greina iðnaðar er fjölbreytt flóra af fyrirtækjum sem eru samofin öllum sviðum efnahagslífsins. Fyrirtækin eru bæði stór og lítil og með starfsemi um allt land.

Hlutur byggingariðnaðar var um 7,7% af landsframleiðslunni í fyrra en verðmætasköpun greinarinnar nam 197 mö.kr á árinu. Greinin hefur vaxið mjög á síðustu árum samfara auknu umfangi hagkerfisins en við upphaf uppsveiflunnar var vægi greinarinnar 4,4% af landsframleiðslu enda fjárfestingarstigið þá í sögulegu lágmarki eftir efnahagsáfallið 2008. Byggingar og mannvirki víða um land eru til vitnis um verk greinarinnar en innviðir sem greinin hefur byggt mynda lífæðar samfélags og atvinnulífs landsmanna.

Vöxtur byggingar- og mannvirkjagerðar á undanförnum árum má að hluta rekja til aukningar í fjárfestingum í innviðum vegna þjónustu við vaxandi fjölda ferðamanna, m.a. fjárfestingar í gistirýmum og samgöngum. Þannig hafa auknar gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum haft mikil áhrif á hagkerfið í gegnum byggingariðnaðinn. Fjárfesting hefur þá tekið við sér í annarri starfsemi í hagkerfinu og nú undanfarið sérstaklega í íbúðafjárfestingu til að mæta vaxandi fólksfjölda. Kemur sú aukning í kjölfar mikillar ládeyðu á því sviði þar sem lengi var fjárfest langt undir þörf. 

Framleiðsluiðnaður án fiskvinnslu skapaði í fyrra 7,8% af landsframleiðslu eða sem nemur 199 ma.kr. Greinin er samsett af mjög fjölbreytilegum fyrirtækjum sem bæði eru í útflutningi og framleiðslu fyrir 

innlendan markað. Greinin samanstendur af nokkrum stórfyrirtækjum og fjölmörgum minni fyrirtækjum. Afurðir greinarinnar eru margar hluti af daglegu lífi og starfi landsmanna. 

Hlutur-idnadar-i-landsframleidslu_1535535502164

Sambúð iðnaðar við efnahagssveiflur hér á landi hefur þó löngum verið erfið. Sveiflunum hafa fylgt miklar breytingar í starfsskilyrðum iðnfyrirtækja. Eftirspurn, framboð framleiðsluþátta og verð þeirra ásamt gengi krónunnar hafa þannig verið á mikilli hreyfingu með efnahagsframvindunni. Hefur þetta staðið í vegi fyrir uppbyggingu iðnaðar hér á landi, fjárfestingu greinarinnar og framleiðniþróun innan hennar. Koma sveiflurnar þannig niður á verðmætasköpun greinarinnar og hagkerfisins alls. Þessi þróun hefur ekki síst komið niður á framleiðsluiðnaði en sú grein iðnaðar hefur undanfarið liðið fyrir háan innlendan framleiðslukostnað í samanburði við framleiðslukostnað erlendra keppinauta, en kostnaðurinn hefur hækkað mikið í þessari efnahagsuppsveiflu. Þróunin er áhyggjuefni og undirstrikar mikilvægi þess að tryggja stöðugra starfsumhverfi til framtíðar fyrir íslenskan iðnað og hagkerfið allt.  

Hlutur-idnadar-i-landsframleidslu3

Hugverkaiðnaður skapaði  um 7,3% landsframleiðslunnar í fyrra en mikill vöxtur hefur verið í þeim hluta iðnaðarins á undanförnum árum en vægi greinarinnar var um 5,8% þegar núverandi uppsveifla í efnahagslífinu hófst. Innlend verðmætasköpun greinarinnar var 186 ma.kr. á árinu 2017. Ber greinin merki þess mikla mannauðs sem í landsmönnum býr og þeirri verðmætasköpun sem hugverkið fær áorkað.  Stór hluti greinarinnar er í  upplýsinga- og fjarskiptaiðnaði en sú grein hefur verið leiðandi í miklum samfélagsbreytingum sem hafa m.a. tengt íslenskt efnahagslíf og samfélag betur við umheiminn en nokkru sinni áður og skapað miklar gjaldeyristekjur. Annar hugverkaiðnaður hefur einnig átt stóran þátt í framþróun íslensks efnahagslífs á síðustu árum og skapað gjaldeyristekjur bæði beint og óbeint.  

Hér er hægt að nálgast greiningu SI um vægi iðnaðar í landsframleiðslunni.