Iðnaður skapar 22% landsframleiðslunnar og þriðjung hagvaxtar

Íslenskur iðnaður er mjög umfangsmikill í íslensku efnahagslífi. Skapaði greinin tæplega 22% landsframleiðslunnar með beinum hætti á árinu 2018 eða um 624 milljarða króna. Lætur því nærri að iðnaður hafi á því ári skapað eina af hverjum fjórum krónum sem urðu til innan íslenska hagkerfisins. Ef með er tekið óbeint framlag greinarinnar til verðmætasköpunar hagkerfisins er umfang hennar umtalsvert meira. Iðnaður stóð jafnframt undir þriðjungi hagvaxtar á árunum 2011 til 2018. Greinin hefur þannig átt stóran þátt í því að bæta hag heimilanna á síðustu árum, auka kaupmátt ráðstöfunartekna og skapa störf.  


Hlutdeild-idnadar-i-verdmaetaskopun

Skipta má iðnaði upp í þrjár greinar, þ.e. framleiðsluiðnað, byggingastarfsemi og mannvirkjagerð og hugverkaiðnað. Innan þessara greina starfar fjölbreytt flóra af fyrirtækjum sem eru samofin öllum sviðum efnahagslífsins. Fyrirtækin eru bæði stór og lítil og með starfsemi um allt land.

Hlutur-greinar-idnadar-i-thessari-hagsveiflu

Byggingariðnaður skapaði 7,6% landsframleiðslunnar á árinu 2018. Umtalsverður vöxtur hefur verið í greininni á síðustu árum en hlutur greinarinnar í landsframleiðslu var aðeins 4,2% á árinu 2011. Greinin hefur spilað lykilhlutverk í að halda uppi hagvexti frá þeim tíma m.a. með kröftugri uppbyggingu innviða tengt ferðaþjónustu. Viðfangsefnin eru fjölmörg á næstu árum m.a. bætt húsnæðisöryggi landsmanna og aukin fjárfesting í samgönguinnviðum. Auka verður stöðugleika í starfsumhverfi greinarinnar til að hún geti mætt þessum áskorunum en greinin hefur verið ein sveiflukenndasta atvinnugreinin í íslensku hagkerfi á síðustu áratugum.

Framleiðsluiðnaður skapaði í fyrra 7,9% af landsframleiðslu eða sem nemur 222 ma.kr. Greinin er samsett af mjög fjölbreytilegum fyrirtækjum sem bæði eru í útflutningi og framleiðslu fyrir innlendan markað. Greinin samanstendur af nokkrum stórfyrirtækjum og fjölmörgum minni fyrirtækjum. Afurðir greinarinnar eru órjúfanlegur hluti af okkar daglega lífi. Orkusækinn iðnaður hefur t.d. spilað veigamikið hlutverk í lífskjarabata þjóðarinnar síðustu 50 árin en áætla má að framlag stórnotenda raforku til verðmætasköpunar síðustu 50 árin hafi verið um 2.100 milljarðar króna. Um 80% þess framlags hefur fallið til á 21. öldinni.

Hugverkaiðnaður skapaði um 6,7% landsframleiðslunnar í fyrra en mikill vöxtur hefur verið í þeim hluta iðnaðarins á undanförnum árum en vægi greinarinnar var um 5,9% þegar núverandi uppsveifla í efnahagslífinu hófst. Innlend verðmætasköpun greinarinnar var 188 ma.kr. á árinu 2018. Ber greinin merki þess mikla mannauðs sem í landsmönnum býr og þeirri verðmætasköpun sem hugverkið fær áorkað. Stór hluti greinarinnar er í upplýsinga- og fjarskiptaiðnaði en sú grein hefur verið leiðandi í miklum samfélagsbreytingum sem hafa m.a. tengt íslenskt efnahagslíf og samfélag betur við umheiminn en nokkru sinni áður og skapað miklar gjaldeyristekjur.

Hlutur-hugverkaidnadar-i-VLF