Iðnaður skapar 23% landsframleiðslunnar

Íslenskur iðnaður er ein af undirstöðum íslensks efnahagslífs. Greinin skapaði rúmlega 23% landsframleiðslunnar með beinum hætti á árinu 2021 eða tæplega fjórðung. Ef með er  tekið óbeint framlag greinarinnar til verðmætasköpunar hagkerfisins er umfang hennar hins vegar talsvert meira. Hlutur greinarinnar í verðmætasköpun hagkerfisins hefur verið að aukast síðustu ár. 

Verðmætasköpun iðnaðar nam 675 mö.kr. árið 2021 ári og hefur vaxið talsvert á síðustu árum. Við upphaf síðustu efnahagsuppsveiflu, árið 2011, nam hún 432 mö.kr. á núverandi verðlagi. Jókst verðmætasköpun greinarinnar um 56% á þessu tíu ára tímabili eða um 243 ma.kr. Aukinn verðmætasköpun hefur verið á flestum sviðum iðnaðar, þ.e. í iðnaði sem þjónustar og framleiðir fyrir innlendan og erlendan markað.

Innan iðnaðar starfar fjölbreytt flóra af fyrirtækjum sem eru samofin öllum sviðum efnahagslífsins með einum eða öðrum hætti. Fyrirtækin eru bæði lítil og stór, í rótgrónum og nýjum iðngreinum með starfsemi um allt land. Skipta má iðnaði upp í þrjár greinar, þ.e. byggingariðnað, framleiðsluiðnað og hugverkaiðnað. Hver þessara greina iðnaðarins er mikilvæg stoð hagkerfisins og á síðasta ári var hlutur hverrar þeirra í landsframleiðslu 6-9%. Greinarnar eru allar drifkraftur síbreytilegs efnahagslífs og lifnaðarhátta landsmanna en afurðir greinarinnar móta allt daglegt líf landsmanna með einum eða öðrum hætti. 

Byggingariðnaður

Byggingariðnaður skapaði 8% landsframleiðslunnar á árinu 2021 eða sem nemur rúmlega 228 milljörðum króna á verðlagi ársins 2021.

Umtalsverður vöxtur hefur verið í byggingariðnaði á síðustu árum en hlutur greinarinnar í landsframleiðslu var aðeins 5,4% árið 2015. Greinin hefur spilað lykilhlutverk í að halda uppi hagvexti frá þeim tíma, m.a. með kröftugri uppbyggingu innviða á ýmsum sviðum efnahagslífsins. Viðfangsefni greinarinnar eru fjölmörg, m.a. á sviði húsnæðisuppbyggingar og samgangna. Auka verður stöðugleika í starfsumhverfi greinarinnar til að hún geti mætt þessum áskorunum en greinin hefur verið ein sveiflukenndasta atvinnugreinin í íslensku hagkerfi á síðustu áratugum.

Framleiðsluiðnaður

Framleiðsluiðnaður skapaði árið 2021 6,2% af landsframleiðslu eða sem nemur 183 mö.kr. Greinin er samsett af mjög fjölbreytilegum fyrirtækjum sem bæði eru í útflutningi og framleiðslu fyrir innlendan markað. Afurðir greinarinnar eru órjúfanlegur hluti af okkar daglega lífi, m.a. innlend matvælaframleiðsla sem spilar lykilhlutverk á tímum hremminga í heimshagkerfinu. Aðrar greinar, t.d. orkusækinn iðnaður, hafa spilað veigamikið hlutverk í lífskjarabata þjóðarinnar síðustu 50 árin en áætla má að framlag stórnotenda raforku til verðmætasköpunar síðustu 50 árin hafi verið um 2.100 milljarðar króna. Um 80% þess framlags hefur fallið til á 21. öldinni.

Hugverkaiðnaður

Hugverkaiðnaður skapaði um 9% landsframleiðslunnar árið 2021 eða um 264 ma.kr. Mikill vöxtur hefur verið í þeim hluta iðnaðarins á undanförnum árum en vægi greinarinnar var um 6,5% fyrir um áratug. Um er að ræða grein fyrirtækja í upplýsinga- og fjarskiptaiðnaði, lyfja-, líftækni- og heilbrigðisiðnaði og öðrum hátækniiðnaði. Greinin er byggð á hugviti og nýsköpun. Ljóst er að mikil tækifæri eru í greininni til frekari vaxtar m.a. í útflutningi þar sem þessi grein hefur á síðust árum orðið að fjórðu stoð útflutningstekna þjóðarbúsins. Ber greinin merki þess mikla mannauðs sem í landsmönnum býr og þeirri verðmætasköpun sem hugverkið fær áorkað. Hefur greinin verið leiðandi í miklum samfélagsbreytingum á undanförnum árum sem hafa m.a. tengt íslenskt efnahagslíf og samfélag betur við umheiminn en nokkru sinni áður og skapað miklar gjaldeyristekjur. 

Verðmætasköpun í íslenskum iðnaði, ma. kr. á föstu verði 2020 og % af VLF