Velta í iðnaði 1.324 milljarðar króna

Velta í iðnaði nam 1.324 mö.kr. á síðasta ári. Um er að ræða rétt tæplega 31% af allri virðisaukaskattskyldri veltu fyrirtækja í landinu og undirstrikar það hlutfall mikið umfang iðnaðar í hagkerfinu. Hlutfallið hefur verið að hækka undanfarin ár en á árinu 2019 var það 29%, sem sýnir vaxandi mikilvægi iðnaðar fyrir hagkerfið.

Velta í iðnaði nam 1.324 mö.kr. á síðasta ári. Um er að ræða rétt tæplega 31% af allri virðisaukaskattskyldri veltu fyrirtækja í landinu og undirstrikar það hlutfall mikið umfang iðnaðar í hagkerfinu. Hlutfallið hefur verið að hækka undanfarin ár en á árinu 2019 var það 29%, sem sýnir vaxandi mikilvægi iðnaðar fyrir hagkerfið.

Velta í iðnaði dróst saman á síðasta ári um 3,4% á föstu verði. Var samdrátturinn í greininni öllu minni en samdrátturinn í heildarveltu allra greina hagkerfisins sem mældist 10,7%. Hækkandi hlutfall iðnaðar af veltu fyrirtækja í hagkerfinu endurspeglar þetta.

Þegar skoðað er tímabil síðustu efnahagsuppsveiflu, þ.e. tímabilið frá 2010 til ársins 2019 þá jókst velta í iðnaðinum um 47% á föstu verði en 28% í hagkerfinu í heild. Var vægi aukinnar veltu í iðnaði um 32% af heildaraukningu veltu í hagkerfinu á þessum tíma. Endurspeglar þetta mikilvægi iðnaðarins í síðustu efnahagsuppsveiflu. Þá jókst hlutdeild iðnaðar í heildarveltu á þessum tíma en á árinu 2010 var hún 27%.

Í síðustu efnahagsuppsveiflu var mestur vöxtur í veltu iðnaðar sem tengdist innlendri eftirspurn, þ.e. bæði fjárfestingu og neyslu. Vöxturinn var minni í þeim hluta iðnaðar sem var í hvað mestri samkeppni við erlend fyrirtæki en þar vóg hátt gengi krónunnar ásamt miklum innlendum kostnaðarverðshækkunum að samkeppnisstöðunni og markaðshlutdeild iðnfyrirtækja.

Í samdrættinum undanfarið hefur þetta snúist við. Samdrátturinn mældist þannig mestur á síðast ári í byggingariðnaði og mannvirkjagerð eða ríflega 9%, þó minni en í hagkerfinu í það heila. Á eftir kemur framleiðsluiðnaðurinn með 3% samdrátt en í hugverkaiðnaði mældist um 2% vöxtur. Hugverkaiðnaðurinn hefur verið í sókn á undanförnum árum og var velta í greininni í fyrra sú mesta sem mælst hefur hér á landi. 

Velta í iðnaði, ma.kr á föstu verði 2020