Velta í iðnaði 1.328 milljarðar króna á síðasta ári

Velta í iðnaði nam 1.357 mö.kr. á síðasta ári. Um er að ræða um 33% af allri virðisaukaskattskyldri veltu fyrirtækja í landinu. Undirstrikar það hlutfall mikið umfang iðnaðar í hagkerfinu. Er hlutfallið svipað og það hefur mælst að meðaltali í þessari efnahagsuppsveiflu.

Velta-i-idnadi-lokautgafa

 

Veltan í iðnaði hefur aukist um 382 ma.kr. í þessari efnahagsuppsveiflu þ.e. síðan árið 2010. Er þetta um 31% af allri veltuaukningu í hagkerfinu á tímabilinu. Undirstrikar það vægi iðnaðar í hagvexti og fjölgun starfa í hagkerfinu. 

Veltan hefur haldið áfram að vaxa af krafti á þessu ári. Var hún 7,1% meiri á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra. Er þetta aukning um ríflega 28 ma.kr. sem er umtalsverð viðbót og ljóst að iðnaðurinn er áfram ein aðal driffjöður hagvaxtarins.  

 

Mestur hefur vöxturinn undanfarið verið í veltu tengdri innlendri eftirspurn, þ.e. tengt bæði fjárfestingu og neyslu. Vöxturinn var minni í þeim hluta iðnaðar sem er í hvað mestri samkeppni við erlend fyrirtæki en þar hefur hátt gengi krónunnar ásamt miklum innlendum kostnaðarverðshækkunum vegið að samkeppnisstöðunni og markaðshlutdeild iðnfyrirtækja.

Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var vöxturinn umtalsverður á ofangreindu tímabili eða 22%. Þetta eru tæpir 15 ma.kr. Einnig má greina mikinn vöxt í upplýsingatækniiðnaði en hann var 11,1% á þessu tímabili eða 2,5 ma.kr. Vöxturinn í framleiðsluiðnaði var minni en engu að síður umtalsverður. Jókst hann um 7,1% eða um ríflega 13 ma.kr. Munar þar mestu um vöxt í veltu í framleiðslu á málmum og málmvörum en veltan jókst í þeim hluta iðnaðar um 10,1% á þessu tímabili eða um 7,7 ma.kr.