Skólarnir í fókus

Samtök iðnaðarins vilja auka skilning, áhuga og virðingu nemenda og foreldra þeirra á  öllu starfsnámi. Sérstök áherslu á er á iðn-, verk- og tæknimenntun og leggja þau sitt að mörkum til að gera umhverfi bæði fyrirtækja og skóla skilvirkara og meira aðlaðandi fyrir nemendur. Þarna reiðum við okkur oftar en ekki á þátttöku öflugra fyrirtækja við framkvæmd verkefnanna.


GERT - Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni

Samstarf tókst með Samtökum iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2012. Helsta markmiðið er að leggja því viðamikla verkefni lið að „brúa bilið milli núverandi stöðu og framtíðarþarfa nemenda og vinnumarkaðar. Samstarfshópur vann bakgrunnsskýrslu um stöð íslenskra nemenda og framtíðarþarfa samfélagsins og síðan aðgerðaráætlun en skýrslurnar er hægt að nálgast hér

Meistaranemi er ráðinn til verkefnisins og hefur það hlutverk að vera tengiliður við skólana og veita þeim upplýsingar um fyrirtæki sem hægt er að leita til og ýmis önnur áhugaverð verkefni og keppnir sem hægt er að nýta til að styðja betur við nemendur í raunvísinda og tæknigreinum. Hægt er að hafa samband við verkefnastjórann í netfangið gert@si.is og kynna sér verkefnið á vefsíðunni gert.menntamidja.is.

Verksmiðjan

Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13 til 16 ára, þar sem hugmyndir og uppfinningar verða að veruleika. Að verkefninu standa Samtök iðnaðarins, RÚV, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Fab Lab, menntamálaráðuneytið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rafmennt og Listasafn Reykjavíkur. 

Með það fyrir augum að slá nokkuð margar flugur í einu höggi kviknaði hugmyndin að Verksmiðjunni sem ætlað er að ná til ungmenna í 8.-10. bekk grunnskóla. Þetta er hugmynda- og uppfinningakeppni þar sem krökkum gefst tækifæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika með aðstoð leiðbeinenda, fagfólks, fyrirtækja og hvetjandi sjónvarpsefnis. Fimm sjónvarpsþættir um Verksmiðjuna, iðngreinar og nýsköpun verða sýndir á RÚV í vor. Tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson tekur virkan þátt í Verksmiðjunni og mun þróa hljóðfæri í samstarfi við Fab Lab. Fylgst verður með ferlinu á ungruv.is og einnig í sjónvarpsþáttunum.

Markmið Verksmiðjunnar er að:

  • hvetja ungmenni til að veita hugmyndum sínum og hæfileikum athygli
  • fjalla um iðn- og tæknimenntun á spennandi hátt
  • efla nýsköpun í íslensku samfélagi
  • vera vettvangur fyrir raddir ungs fólks

Þessi markmið fara vel saman við markmið í menntastefnu Samtaka iðnaðarins þar sem stefnt er að fjölgun iðn- og verkmenntaðra á vinnumarkaði m.a. með því að auka veg list- og verkgreina í grunnskólum.

Verk og tækninám, nema hvað!

Verkefnið hefur þróast hjá samtökunum frá árinu 2008 þegar bæklingur var sendur til allra grunnskólanema í 10. bekk. Þar voru iðngreinarnar kynntar á myndrænan hátt af áhugaverðum fyrirmyndum. Í dag fá nemendur í 9. Bekk sent póstkort með vísun á vefsíðu þar sem iðn- og verkgreinar eru kynntar í stuttum myndböndum þar sem nýútskrifaðar fyrirmyndir segja frá reynslu sinni af náminu. Hér er hægt að fara inná vefinn nemahvad.is.

Boxið - framkvæmdarkeppni framhaldsskólanna

Samtök iðnaðarins standa fyrir keppnin í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Þá hefur mennta- og menningarráðuneytið veitt stuðning við gerð sjónvarpsþáttar um keppnina. Keppni fór fyrst fram árið 2011 og verið haldin árlega síðan.

Markmiðið er að kynna og vekja áhuga á iðn- verk- og tækninámi og störfum hér á landi en verulegur skortur er á fólki með þessa þekkingu.

Fyrirtæki úr ólíkum greinum innan Samtaka iðnaðarins hanna, setja upp og útvega efni í þrautir sem lagðar verða fyrir keppnisliðin. Fræðimenn frá HR aðstoða fyrirtækin eftir þörfum. Framhaldsskólar landsins senda 5 manna lið til þátttöku. Keppt er á nokkurskonar þrautabrautum og  fara liðin á milli og leysa hverja þraut. Þrautirnar reyna á hugvit og verklag. Sjá nánar hér á vefsíðu keppninnar.

Hér er hægt að nálgast myndefni frá fyrri keppnum:
BOXIÐ 2014
BOXIÐ 2013
BOXIÐ 2012
BOXIÐ 2011

Íslandsmót iðn- og verkgreina

Íslandsmót hefur verið í hinum fjölbreyttu iðn- og verkgreinum í fjölda ára. Félagið Verkiðn var stofnað árið 2010 með það markmið að halda Íslandsmót í iðn- og verkgreinum og tengjast með  þeim alþjóðlegum- og/eða Evrópumótum í iðn- og verkgreinum þannig að keppendur fái tækifæri til þátttöku í þeim. Þessar keppnir eru haldnar undir nöfnunum SkillsIceland, EuroSkills og WorldSkills og þannig tengist Ísland  alþjóðlegum samstarfsnetum, keppnisreglum og viðmiðum. Hefð er fyrir því að Íslandsmótið sé haldið annað hvert á á sléttu ártali.

Aðilar að Verkiðn eru framhaldsskólar, atvinnurekendasamtök, launaþegasamtök og fagfélög en mikið vinnu og fjárframlag þarf til að halda svona mót og ekki síður ef senda á keppendur til þátttöku á mót erlendis. Verkefni Verkiðnar eru að hluta til greidd af ríkissjóði og er hefur stjórn Verkiðnar gert samning við Mennta- og menningarmálaráðuneytið um þessar greiðslur og skilmála. Sjá nánar á vefsíðu Verkiðnar.

NKG - Nýsköpunarkeppni grunnskóla

Samtök iðnaðarins hafa verið bakhjarlar keppninnar til margra ára ásamt fjölmörgum öðrum aðilum, sjá nánar á vefsíðu keppninnar. Nýsköpunarkeppnin hefur fyrst og fremst þann tilgang að styðja við sköpunargáfu barna í 5., 6. og 7. bekk og virkja þannig þeirra sköpunarkraft. Þannig gefst þeim tækifæri til þess að skila inn hugmyndum í í samkeppnina. Þeir sem komast í úrslit taka þátt í vinnusmiðjum sem haldnar eru í samstarfi við HR og HÍ. Úrslitin eru síðan tilkynnt í lokahófi að vori.

Þá er mikilvægur þáttur ef efla á nýsköpunarstarf í grunnskólum að vekja athygli á mikilvægi og hlutverki kennara, því hafa samtökin stuðlað að því að einnig eru veitt verðlaun til þeirra kennara sem sinna nýsköpunar- og frumkvöðlakennslu í sínu starfi.

Forritun

Samtök iðnaðarins telja það mikið hagsmunamál að efla íslenskt menntakerfi með forritunarkennslu, enda mikilvægt fyrir íslensk hugverkafyrirtæki og íslenskan iðnað. Forritun er jafnframt órjúfanlegur þáttur í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi á tímum örrar þróunar í uplýsinga- og samskiptatækni. Á undanförnum árum hefur þörf atvinnulífsins fyrir einstaklinga sem hafa tileinkað sér hæfni í forritun farið ört vaxandi. Sú þörf afmarkast ekki við fyrirtæki í tölvuiðnaðinum, heldur er vandfundin sú atvinnugrein þar sem tölvutækni kemur ekki við sögu.

Game Creator - keppni um besta tölvuleikinn

Samtök leikjaframleiðenda (IGI) sem starfa innan Samtaka iðnaðarins halda þessa keppni í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og nú síðast einnig Margmiðlunarskólann. Keppnin fer þannig fram að keppendur skrá lið sín til leiks og hafa rúman mánuð til að búa til tölvuleik. Yfir keppnismánuðinn er boðið uppá þrjár til fjórar vinnustofur sem eiga að styrkja keppendur í að búa til leikinn. Einnig hefur ýmsu gagnlegu efni verið safnað á vefsíðu keppninnar og þar er aðgangur að upptökum á vinnustofunum. Sjá hér vefsíðu keppninnar.

Ekkert aldurstakmark er á þátttöku og eru það eingöngu starfsmenn fyrirtækja innan IGI sem ekki geta tekið þátt.

Girls in ICT-Day - Stelpur og tækni

Tilgangurinn með stelpum og tækni er að kynna möguleika í tækninámi og tæknistörfum fyrir stelpum í 9. bekk grunnskóla, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tækni og opna augu þeirra fyrir framtíðarmöguleikum sem tæknigreinar bjóða. Dagurinn er haldinn af Háskólanum í Reykjavík í samvinnu við Samtök iðnaðarins, SKÝ og LS Retail. Fjölmörg tæknifyrirtæki innan vébanda SI bjóða stelpunum í heimsókn og gefa þeim innsýn í starfsemina og þau tækifæri sem þeim bjóðast að loknu tækninámi. 

Microbit verkefnið

Microbit verkefnið hófst haustið 2016 og er samstarfsverkefni SI, menntamálaráðuneytisins, Menntamálastofnunnar og RÚV. Micro:bit er forritanleg smátölva og er markmið verkefnisins að efla forritunarkunnáttu íslenskra barna, auka vitund þeirra um mikilvægi forritunar í daglegum störfum, efla rökhugsuns og stuðla að auknum áhuga á tækni og iðngreinum í samræmi við áherslur í aðalnámskrá grunnskóla. Forritunarvinna reynir ekki aðeins á rökhugsun heldur einnig hugmyndaauðgi, skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun nemenda.