Myndbandasafn

Kjósum betra líf

18. okt. 2017

Samtök iðnaðarins vilja leggja sitt af mörkum til umræðunnar í aðdraganda kosninga og vekja athygli á þeim málefnum sem brýnust eru. 

Verðmætasköpun sem byggir á öflugu, fjölbreyttu og samkeppnishæfu atvinnulífi er forsenda góðra lífskjara. Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar ræðst að miklu leyti af þeirri umgjörð sem stjórnvöld skapa.

Samtök iðnaðarins, sem hreyfiafl í íslensku samfélagi, vilja vinna með stjórnvöldum að umbótum til hagsbóta fyrir iðnaðinn, atvinnulífið og almenning í landinu. Nú þegar gengið er til kosninga er rétt að hafa í huga að miklu máli skiptir að ákvarðanir nýrra stjórnvalda leiði til umbóta á Íslandi, bæði fyrir fólk og fyrirtæki. Samtök iðnaðarins vilja leggja sitt af mörkum til umræðunnar í aðdraganda kosninga og vekja athygli á þeim málefnum sem brýnust eru.

Samkeppnishæft og stöðugt starfsumhverfi, öflugir innviðir, menntun og nýsköpun eru grunnur fyrir framþróun lífskjara hér á landi. Með árangri á þessum sviðum má áfram skapa Íslandi sæti í fremstu röð þeirra landa þar sem best er að búa.

Hér er hægt að nálgast PDF útgáfu af bæklingi með málefnunum.

Fundur SI með forystufólki stjórnmálanna

Samtök iðnaðarins fundaði með forystufólki stjórnmálanna þriðjudaginn 17. október í Kaldalóni í Hörpu. Málefnin fjögur, starfsumhverfi, innviðir, menntun og nýsköpun, voru til umræðu. Hér fyrir neðan er hægt að nálgast upptöku af fundinum:

 

https://www.youtube.com/watch?v=CpBVsdNft2s#action=share

 

 

Starfsumhverfi

Samkeppnishæft og stöðugt starfsumhverfi er ein lykilforsenda öflugs atvinnulífs og góðra lífskjara. Með stöðugleikanum skapast skilyrði til aukinna fjárfestinga, framleiðnivaxtar og hagvaxtar til lengri tíma. Það skiptir sköpum fyrir atvinnulífið að regluverk, skattkerfi og eftirlitskerfi sé einfalt og skilvirkt. Til að ná fram stöðugleika er mikilvægt að ráðast að rót vandans sem er fólginn í miklum raunvaxtamun við útlönd. Þá þurfa ríkisfjármál að vera í takt við hagsveiflurnar þegar sýna þarf aðhald á hagvaxtarskeiði og bæta í þegar hagkerfið dregst saman. Ein stærsta áskorun nýrrar ríkisstjórnar er að finna leiðir til að tryggja stöðugleika og samkeppnishæft starfsumhverfi sem laðar til landsins fólk og fyrirtæki.

 Við viljum    

  • Agaða hagstjórn og samstillt átak á sviði opinberra fjármála og peningamála til að auka stöðugleikann.
  • Endurskoðun á peningastefnu með það að markmiði að tryggja betur stöðugleikann við skilyrði lægri vaxta.
  • Almenn góð starfsskilyrði en þannig má best tryggja fjölbreytt efnahags- og atvinnulíf sem grundvöll stöðugleika.
  • Að dregið verði úr álögum, þar með talið íþyngjandi sköttum á fólk og fyrirtæki. Lækka þarf tryggingagjald án tafar.
  • Að lagaumgjörð, regluverk og eftirlit opinberra stofnanna verði einfaldað, gagnsærra og skilvirkara.
  • Að Ísland nái markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum með virkri þátttöku atvinnulífsins.

Innviðir

Innviðir landsins þarf að þróa og uppfæra í takt við þarfir samfélagsins og framtíð þess enda er uppbygging innviða forsenda þess að atvinnulíf blómstri um land allt. Fjárfesting í innviðum hefur verið of lítil á síðustu árum og það mun bitna á lífskjörum í framtíðinni verði ekki verulega bætt í. Samkeppnishæfni Íslands er í húfi enda verðum við að standa jafnfætis öðrum ríkjum sem við viljum bera okkur saman við til að ná þeim lífskjörum sem sóst er eftir. Fjárfesta þarf fyrir hundruð milljarða króna svo innviðir landsins séu nægilega sterkir og styðji við framtíðarvöxt. 

 Við viljum    

  • Að áhersla verði lögð á uppbyggingu og viðhald innviða, sérstaklega á sviði vegamála, fasteigna hins opinbera, fráveitna og raforkuflutninga en umtalsverð uppsöfnuð þörf er á þessum sviðum.
  • Að ástand vegasamgangna verði bætt til muna en þrátt fyrir stóraukna umferð hafa framkvæmdir á því sviði verið litlar undanfarin ár.
  • Nægt framboð raforku um land allt svo atvinnulíf geti vaxið og dafnað en fjárfestinga- og viðhaldsþörf hefur verið ábótavant í dreifingu raforku.
  • Að einkaaðilar komi að uppbyggingu innviða enda er óraunhæft að hið opinbera geti eitt og sér staðið að allri þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er.
  • Nýta slaka sem reiknað er með að myndist í hagkerfinu á næstu misserum til að byggja upp innviði. Með því er dregið úr niðursveiflunni og byggt undir stoðir hagvaxtar til lengri tíma.
  • Bæta gagnatengingar Íslands við umheiminn. Gögn eru helsta hráefni fjórðu iðnbyltingarinnar sem mun að miklu leyti snúast um söfnun þeirra og úrvinnslu.


Menntun

Það verkefni bíður nýrrar ríkisstjórnar að marka skýra stefnu um það hvernig nemendur á Íslandi verða undirbúnir til að mæta kröfum framtíðarinnar. Að sama skapi þarf menntakerfið að mæta þörfum atvinnulífsins í meira mæli. Fjölga þarf þeim sem útskrifast úr iðn- og verknámi sem styður iðnaðinn í landinu á sama tíma og við undirbúum nýjar kynslóðir fyrir störf og starfsumhverfi sem eru ekki þekkt í dag. Menntakerfið þarf að laga sig að breyttum veruleika enda eru starfskraftar framtíðarinnar að mennta sig um þessar mundir. Í námi nemenda á öllum skólastigum þarf að leggja áherslu á vitneskju um tækniþróun, skapandi hugsun, greiningarhæfni og lausnamiðaða nálgun enda mun það skipta meira máli á tímum aukinnar sjálfvirkni en áður. 

Við viljum

  • Fjölga iðn-, verk-, tækni- og raungreinamenntuðum á vinnumarkaði.
  • Auka áherslu á sköpun og hugmyndaauðgi í menntakerfinu. Gera forritun að skyldufagi í grunn- og framhaldsskólum.
  • Efla þarf og breyta grunn- og endurmenntun kennara með sköpun, lausnamiðun, forritunarskilning og tækni að leiðarljósi.
  • Koma á fjölbreyttari námsleiðum til að styðja við og styrkja iðn-, tækni- og verknám þar sem sérstaklega er horft til fámennra iðngreina, byggðasjónarmiða og erlendra starfsmanna.
  • Aukið samstarf opinberra aðila og atvinnulífs með það að markmiði að auka fjölbreytni í rekstrarumgjörð menntaverkefna.
  • Koma á námi á fagháskólastigi og fjölga nemum sem velja raun- og tæknigreinar á háskólastigi.

Nýsköpun

Drifkraftur framfara á 21. öldinni á Íslandi verður hugvit á sama hátt og hagkvæm nýting á náttúruauðlindum var drifkraftur framfara á 20. öldinni.  Fjórða iðnbyltingin er hafin og framundan eru tækniframfarir sem munu hafa mikil áhrif á íslenskt atvinnulíf. Ísland á að vera í fremstu röð í heiminum þegar kemur að nýsköpun, enda mun hugvit og hagvöxtur haldast í hendur. Mæta þarf alþjóðlegri samkeppni á þessu sviði enda er hugvit án landamæra. Vinna þarf með markvissum hætti að umbótum í starfsumhverfi fyrirtækja til að hvetja til rannsókna og þróunar. Nýsköpunarlögin sem samþykkt voru á síðasta ári voru mikið framfaraskref en stefnumörkun og skýr sýn á þessu sviði getur haft mjög jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu. Halda þarf áfram á sömu braut. Umgjörð fyrir nýsköpun á Íslandi verður að fá veglegan sess í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar því öflug nýsköpun er lykill að aukinni hagsæld.

Við viljum

  • Ísland í fremstu röð og verði meðal fimm samkeppnishæfustu landa þegar kemur að nýsköpun.
  • Hækka endurgreiðsluhlutfall rannsóknar- og þróunarkostnað fyrirtækja úr 20% í 30% og afnema þök á kostnaðarviðmið við rannsóknir og þróun til að hvetja til slíkra verkefna enda hefur það nú þegar borið árangur þó við stöndum öðrum löndum að baki.
  • Skapa aukinn hvata, líkt og önnur lönd hafa gert, fyrir starfsmenn háskóla og rannsóknastofnana til að vinna með fyrirtækjum að hagnýtum rannsóknum.
  • Auðvelda erlendum sérfræðingum að starfa hér á landi þannig að þekking þeirra nýtist atvinnulífinu til frekari vaxtar.
  • Byggja brú milli vísinda og atvinnulífs þar sem rannsóknir eru hagnýttar þannig að úr verði tækifæri sem leiði til verðmætasköpunar.
  • Að hugvit sé nýtt til að skapa betri lausnir í heilbrigðis-, mennta-, orku- og umhverfismálum.