Viðburðir
17.02.2020 kl. 8:30 - 10:00 Hús atvinnulífsins, Borgartúni 35

Keðjuábyrgð aðalverktaka í opinberum samningum

Mannvirki og Samtök iðnaðarins standa fyrir opnum kynningarfundi um keðjuábyrgð í opinberum samningum mánudaginn 17. febrúar kl. 08.30-10.00 í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35. Allir félagsmenn SI eru velkomnir.

Þann 1. janúar sl. tók gildi breyting á lögum um opinber innkaup þar sem kveðið er á um að aðalverktaki skuli tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleiga fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Lögin leggja einnig skyldur á herðar opinberum aðilum um að hafa eftirlit með sínum viðsemjendum auk þess að þeim er nú heimilt að greiða vangoldnar verktakagreiðslur til undirverktaka og annarra starfsmanna, sem svara til launatengdra greiðslna á kostnað aðalverktaka standi hann ekki í skilum með slíkar greiðslur.

Vegna þessa hefur fjármálaráðuneytið gefið út leiðbeiningar um hvernig aðalverktakar geta tryggt að þeir hafi aðgang að upplýsingum hjá undirverktökum og starfsmannaleigum til að geta sinnt eftirlitsskyldu sinni. Í því felst að setja inn ákvæði í samninga við undirverktaka og hafa virkt eftirlit með því að þessum skyldum sé framfylgt. Fulltrúar Ríkiskaupa munu kynna leiðbeiningarnar og svara fyrirspurnum auk þess sem fulltrúi Framkvæmdasýslu ríkisins mun fara yfir framkvæmd ákvæðisins frá sjónarhóli verkkaupa.

Dagskrá

  • Dagmar Sigurðardóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs Ríkiskaupa, og Hildur Georgsdóttir, hdl. lögfræðisviði Ríkiskaupa.
  • Ármann Óskar Sigurðsson, sviðsstjóri verklegra framkvæmda hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.
  • Fulltrúi fjármálaráðuneytis verður viðstaddur.

Bókunartímabil er frá 9 feb. 2020 til 17 feb. 2020