Horft um öxl
- Viðtal við Harald Sumarliðason vegna 10 ára afmælis SI -
Um þessar mundir eru liðin 10 ár frá því að sex félagasamtök í iðnaði tóku saman höndum og sameinuðust undir heitinu Samtök iðnaðarins. Þau voru Félag íslenskra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Meistara- og verktakasamband byggingamanna, Verktakasamband Íslands, Félag íslenska prentiðnaðarins og Samband málm- og skipasmiðja.
Einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Samtaka iðnaðarins var Haraldur Sumarliðason, húsasmíðameistari, en hann hafði lengi verið í forystusveit Landssambands iðnaðarmanna og forseti þess um árabil. Í kjölfar sameiningarinnar var hann kjörinn fyrsti formaður SI og gegndi því starfi í 6 ár þar til hann lét af formennsku á Iðnþingi árið 2001. Haraldur var fenginn til að segja frá tildrögum þess að Samtök iðnaðarins voru stofnuð og hvað varð til þess að það skref var stigið.
„Löngu áður en ég kom að þessu höfðu menn áttað sig á að þessi félög voru að ýmsu leyti að berjast fyrir sömu málum, ekki síst Landssamband iðnaðarmanna og Félag íslenskra iðnrekenda sem voru langstærst. Þrátt fyrir það sinntu félögin svipaðri hagsmunagæslu hvert í sínu horni. Með tímanum snerist hún æ meir um að bæta almenn starfsskilyrði iðnaðarins í stað einstakra sérhagsmuna. Áherslan var kannski aðeins mismunandi og ég tel að það hafi oftar en ekki orðið til þess að stjórnvöld áttu auðvelt með að stinga málum undir stól, m.a. með þeim rökum að iðnaðurinn væri sjálfur ekki sammála um leiðir.
Eftir að ég varð forseti Landssambandsins ræddi ég við flesta forustumenn hinna samtakanna, ekki síst Félags íslenskra iðnrekenda, um samstarf. Árið 1992 kom fram á aðalfundum margra félaganna að áhugi væri á að kanna einhvers konar samstarf eða samruna þar sem áherslumálin væru orðin svo lík. Þáverandi nýr formaður Félags íslenskra iðnrekenda, Gunnar Svavarsson, sýndi þessu mikinn áhuga og ég tel að Sveinn Hannesson, þáverandi framkvæmdastjóri FÍI og núverandi framkvæmdastjóri SI, hafi átt sinn þátt í að af sameiningunni varð enda hafði hann áður verið starfsmaður Landssambandsins og þekkti því hvor tveggja samtökin ákaflega vel,“ segir Haraldur.
Veikti stöðu iðnaðarins að vera ekki samstiga
„Ég vissi að það hefði mikil áhrif gagnvart stjórnvöldum að iðnaðurinn kæmi fram sem ein heild. Áður en Samtökin voru stofnuð kom fyrir að forustumenn þessara félaga kæmu hver á fætur öðrum í viðtöl við þingnefndir eða ráðherra en fengu minni hljómgrunn, beinlínis vegna þess að áherslur voru lítillega mismunandi. Eftir að þreifingar hófust um sameiningu fórum við að fara saman á slíka fundi og það bar sannarlega árangur að vera samstiga enda enginn ágreiningur um meginmál. Þetta varð síðan ásamt fleiru til að flýta formlegum viðræðum um samruna.“
Aðalatriðið að iðnaðurinn talaði einni röddu
Þegar málið var komið á þetta stig var nauðsynlegt að fá utanaðkomandi aðila til að vinna að undirbúningi sameiningar og því var fenginn ráðgjafi, Reynir Kristinsson, til að undirbúa hana enda erfitt fyrir sex formenn að stjórna viðræðunum. Einnig þurfti að vinna ýmis gögn í þessu sambandi sem hann og framkvæmdastjórar samtakanna sáu um. „Þegar ákveðið hafði verið að reyna sameiningu gekk furðu vel að mynda ný samtök. Formennirnir funduðu reglulega og lögðu línurnar en framkvæmdastjórar allra samtakanna áttu einnig fundi, ýmist sér eða með okkur ásamt ráðgjafanum. Reynir reyndist okkur ákaflega vel en mér er sérstaklega minnisstætt hvað framkvæmdastjórarnir unnu að þessu af miklum heilindum þótt þeir væru með því að taka mikla áhættu með eigin atvinnu,“ segir Haraldur.„Það sem sett var á oddinn var að væntanleg Samtök iðnaðarins töluðu einni röddu. Ég fann með þessu mikinn mun á ráðamönnum til hins betra þar sem ég þekkti hvort tveggja. Auðvitað náðum við baráttumálum okkar ekki fram í einu og öllu en viðmótið gerbreyttist til hins betra eftir að við fórum að tala í nafni SI og þannig náðum við frekar eyrum þeirra sem leita þurfti til.“
Sameiningunni fylgdi auk þess talsverður fjárhagslegur ávinningur því að félagsgjöld flestra félagsmanna lækkuðu talsvert. Einnig var unnt að fækka starfsfólki, einkum í þeim störfum sem tengdust sjálfum rekstri samtakanna. Skrifstofuhaldið var auðvitað sameinað og þar með losnaði heil hæð á Hallveigarstígnum þar sem LI og FÍI voru til húsa. Annar rekstrarkostnaður lækkaði einnig og um leið batnaði þjónustan við félagsmenn.
Sameining VSÍ og VMS til mikilla bóta
Haraldur segir að SI hafi haft frumkvæði að því að viðræður hófust um sameiningu Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins „enda töldum við hana mjög tímabæra. Meðan hvor tveggja samtökin unnu að samningamálum kom iðulega fyrir að misræmi skapaðist milli launa á vinnumarkaðinum sem olli úlfúð og deilum. Við hjá SI töldum engin efni til að hafa þetta skipt og raunar voru þetta leifar frá þeim tíma þegar Samband íslenskra samvinnufélaga var stórveldi í íslensku atvinnulífi. Ég hef ekki orðið var við að sú sameining hafi valdið neinum vanda og tel þvert á móti að hún hafi skapað eðlilega festu í kjaraumræðuna auk þess sem kostnaður hefur lækkað. Ég er hins vegar ekki á því að lengra eigi að ganga í sameiningu á þessum vettvangi a.m.k. á þessu stigi. Sumir hafa þó haft á orði að sameina beri öll aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins undir þeirra hatti.“Inngangan í EFTA erfið á sínum tíma
Með inngöngunni í EFTA árið 1970 var leyfður óheftur innflutningur á iðnaðarvörum til landsins og það reyndist mörgum iðnfyrirtækjum stór biti að kyngja. „Þótt iðnaðurinn styddi aðild að EFTA var sumum iðngreinum þar með greitt rothögg. Ástæðan var sú að stjórnvöld sviku öll sín loforð um bætt starfsskilyrði iðnfyrirtækjum til handa svo að þau gætu staðist óheftan innflutning á iðnaðarvörum.“ Haraldur segir að krafan hafi jafnan verið sú að íslensk fyrirtæki búi við sams konar starfsumhverfi og erlendir keppinautar en á það hafi oft vantað. Í því ljósi hafi umræðan innan SI um inngöngu í ESB sprottið en huga verði vel að öllum hliðum þess máls áður en lengra verði gengið.Batnandi hagur iðnfyrirtækja með inngöngu í EES
„Inngangan í EES fyrir tíu árum hefur skapað iðnaðinum að mörgu leyti svipaðar aðstæður og þekkjast í nágrannalöndum okkar. Hagur iðnaðarins hefur því farið mjög batnandi. Með tilkomu EES samningsins er nú hægt að leita réttar síns ef þörf er á. Þetta vita stjórnvöld og því er ekki eins oft brotið á fyrirtækjum núorðið sem betur fer,“ segir Haraldur. „Ég tel því að EES samningurinn geti dugað okkur a.m.k. enn um sinn, hvað sem síðar kann að verða en við verðum auðvitað að fylgjast vel með því sem er að gerast hjá Evrópusambandinu. Krafan er sú að íslenskur iðnaður búi við sambærileg starfsskilyrði og keppinautarnir.“
Hvað er þér minnisstæðast frá þínum langa formannsferli?
„Eins og fram hefur komið var þetta orðinn nokkuð langur tími eða samtals 15 ár frá því ég tók við sem forseti Landssambands iðnaðarmanna og þar til ég hætti sem formaður Samtaka iðnaðarins og því er margs að minnast. Ég býst þó við að stofnun Samtaka iðnaðarins verði, eftir því sem frá líður, það sem stendur upp úr af þeim málum sem til umfjöllunar voru kannski vegna þess að ég tel að hún muni hafa mikil áhrif til góðs á þann árangur sem iðnaðurinn getur náð í framtíðinni. Vissulega mætti nefna sitthvað fleira en mér er efst í huga allt það góða og áhugasama fólk sem ég fékk tækifæri til að kynnast og starfa með á þeim vettvangi.“
Samtök iðnaðarins á réttri leið
En hafa Samtök iðnaðarins gengið til góðs götuna fram eftir veg að mati að þínu mati? „Samtökin hafa skilað miklu meira en flestir félagsmenn gera sér grein fyrir en afraksturinn er gífurlega mikill, sérstaklega hvað varðar starfsskilyrði iðnaðarins sem hafa batnað mjög á undanförnum árum og nálgast nú mjög það sem helstu viðskiptaþjóðir okkar búa við. Hins vegar er ég ósáttur við þá miklu áherslu sem Samtökin hafa lagt á aðild að ESB. Ég tel að þar verði menn að stíga varlega til jarðar og vinna heimavinnuna sína betur áður en farið verður í hugsanlegar viðræður um aðild. Ég tel að flest hafi gengið eftir sem stefnt var að en sakna þess að iðnmeistarar skuli ekki láta meira til sín taka í félagsstarfinu.“Björt framtíð íslensks iðnaðar
„Við lifum á miklum breytingatímum og ég geri ekki ráð fyrir að ég sjái, frekar en aðrir, hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég er þess þó fullviss að ef forusta og félagsmenn SI bera gæfu til að nýta þau tækifæri, sem ný tækni og breyttir tímar gefa tilefni til, þá verður framtíð Samtakanna og íslensks iðnaðar björt og bjartari en nokkurn tíma áður í sögu þjóðarinnar,“ segir Haraldur Sumarliðason.
©Samtök iðnaðarins, 30. janúar 2004