• Sement_verksmidjan

2. sep. 2009

Sögubækur og sement

Talsverð umræða hefur verið um sölu sements á Íslandi á liðnum vikum. Þar hefur m.a. verið reynt að gera Samtök iðnaðarins tortryggileg og fullyrt að þau vilji einokun á sementsmarkaði. Undir þessu verður ekki setið lengur.

Veljum íslenskt

Samtök iðnaðarins og framkvæmdastjóri þeirra hafa aldrei farið fram á neinar ívilnanir til handa Sementsverksmiðjunni, hvorki ríkisaðstoð né óskað eftir þvinguðum viðskiptum við hana. Þaðan af síður hafa þau með nokkrum hætti óskað eftir einokun á þessum markaði, hvorki íslenskri né danskri.

Samtök iðnaðarins gangast hins vegar fúslega við því, og bera af því engan kinnroða, að þau hafa hvatt til þess að velja íslenskt. Það hefur hins vegar aldrei hvarflað að nokkrum manni þar á bæ að gera það með boðum, bönnum eða þvingunum. Íslensk framleiðsla á að verða fyrir valinu vegna eigin verðleika og frjáls vals þess sem kaupir. Við hvetjum alla neytendur, einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til þess að íhuga vel áhrif vals þeirra á vörum og þjónustu.

Rangar fullyrðingar og ályktanir

Þó mönnum sé heitt í hamsi og þeir vilji ganga vasklega fram í að verja eigin hagsmuni er óþarft að snúa út úr orðum ímyndaðra andstæðinga, gera þeim upp skoðanir eða draga af þeim rangar ályktanir. Því miður er það raunin hjá framkvæmdastjóra Aalborg Portland. Óskandi er að hann láti af þessum málflutningi svo sögubækur framtíðarinnar verði ekki rangar að þessu leyti.

Síðast í dag er að finna þessa fullyrðingu í fréttatilkynningu sem er undirrituð af Bjarna Óskari Halldórssyni, framkvæmdastjóra Aalborg Portland á Íslandi:

„Það er dapurlegt að Sementsverksmiðjan skuli grípa til slíkra óyndisúrræða á sama tíma og ríkisstjórn Íslands ræðir opinbera aðstoð við verksmiðjuna að kröfu Skagamanna og ráðherrann Jón Bjarnason og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Jón Steindór Valdimarsson, lýsa opinberlega að þeir vilji íslenska einokun á sementi.“

Í blaðagrein í Morgunblaðinu í dag segir Bjarni Óskar ennfremur:

„Allt sem Aalborg Portland á Íslandi sumsé vill er heiðarleg samkeppni og að farið sé eftir settum reglum hins frjálsa markaðar en ekki heimóttarskap og einokun líkt og sjávarútvegsráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins boðuðu svo smekklega þegar þeir tylltu sér upp á kassa og hrópuðu að íslensk einokun væri betri en dönsk! Þau ummæli fara í sögubækur og þarna skilur á milli.“

Í fyrri fréttatilkynningu frá sama manni frá 26. ágúst segir:

„Forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins halda því fram að íslensk einokun sé betri en dönsk og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekur undir þau sjónarmið. Slíkur málflutningur er dapurlegur vitnisburður um ásetning þessara aðila um endurreisn íslensks atvinnulífs.
Öll samtök atvinnulífsins á Íslandi – líka Samtök iðnaðarins – hafa lagt áherslu á frjálsa samkeppni þrátt fyrir ofurvald ríkisins um þessar mundir. Þess vegna eru ummæli framkvæmdastjóra SI óskiljanleg og afar sorgleg. Aalborg Portland fer hvorki fram á ívilnanir né styrki heldur aðeins að hafðar séu í heiðri heiðarlegar leikreglur á markaði. Það mun gagnast íslenskri þjóð best.“

Ekkert tilefni til árása á Samtök iðnaðarins

Tilefni fullyrðinga Bjarna eru trúlega frétt á Stöð 2 þann 30. janúar sl. og frétt í Fréttablaðinu 26. ágúst þar sem m.a er rætt við undirritaðan. Rétt er að hafa í huga að þegar viðtalið á Stöð 2 var tekið voru í gildi miklar hömlur á viðskiptum með gjaldeyri og hann skammtaður með ströngum skilyrðum.

Stöð 2, 30. janúar:

Fréttamaður: Þegar gjaldeyriskreppa er gæti það komið mönnum ankannanlega fyrir sjónir að önnur stærsta steypustöð landsins, Steypustöðin sem er nú í eigu Glitnis og þar með ríkisins noti gjaldeyri til að kaupa sement frá Danmörku í gegnum Aalborg Portland Íslandi. Á Akranesi stendur hins vegar sementsverksmiðja sem getur framleitt tugi þúsunda tonn meira af sementi. 

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins: Við erum að tala um það að við þurfum að spara gjaldeyri og velja íslenskt og þá er ekki heppilegt að kaupa danskt sement.

Fréttamaður: En málið er kannski ekki alveg svo einfalt. Ef Steypustöðin keypti allt sitt sement frá sementsverksmiðjunni á Akranesi þar sem starfa um 45 manns þyrfti ekki að bæta við manni, hægt væri að auka framleiðsluna án þess. Steypustöðin er hins vegar langstærsti viðskiptavinur Aalborg Portland Íslandi. Þar hafa starfað um þrettán manns og þau störf gætu glatast ef Steypustöðin færi að kaupa íslenskt sement.

Jón Steindór Valdimarsson: En á móti má benda á að markaðurinn hefur dregist gífurlega mikið saman hér á landi, þannig að það gæti verið spurning um það hvort að Sementsverksmiðjan þarf að loka og þá eru miklu fleiri störf og hagsmunir í húfi. Þá yrði dönsk einokun hér á sementi.

Jón Steindór Valdimarsson: Ef það eru tveir kostir í boði, íslensk einokun eða dönsk. Þá vil ég þá íslensku.

Fréttablaðið 25. ágúst:

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir það skjóta skökku við að ríkisfyrirtæki kaupi innflutta vöru á sama tíma og íslensk fyrirtæki berjast í bökkum. „Við höfum beint því til landsmanna og okkar félagsmanna að versla hverjir við aðra. Það gildir um þetta líka.“

Jón leggur áherslu á að í sjálfu sér sé ekkert út á kaup fyrirtækja á innfluttu sementi að setja. Málið snúist frekar um það hvort verksmiðjan verði sett í gang aftur og hvort hér verði dönsk einokun á sementi þegar fram í sækir. „Þetta ættu menn að hafa í huga þegar þeir ákveða hvar þeir kaupa inn,” segir Jón.

---------------------------------------------------------

Framangreindar tilvitnanir ættu að taka allan vafa af um að Samtök iðnaðarins og framkvæmdastjóri þeirra eru ekki boðberar einokunar eða viðskiptaþvingana af neinu tagi.