• logo SI

18. sep. 2009

Vinnubrögð stjórnvalda valda töfum og tjóni

Stjórn Samtaka iðnaðarins samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í gær:

Samtök iðnaðarins gagnrýna harðlega vinnubrögð stjórnvalda í samskiptum við erlenda fjárfesta og uppbyggingu iðnaðar sem reiðir sig á nýtingu orkuauðlinda. Stjórnvöld eru ekki samstiga og senda frá sér misvísandi skilaboð.

Ekkert er brýnna um þessar mundir en að rjúfa kyrrstöðu og samdrátt sem eru að draga allan mátt úr stórum hluta atvinnulífsins og þar með mörgum heimilum.

Mikilvægur þáttur í því verkefni er að örva fjárfestingar og framkvæmdir sem leiða til nýtingar orkuauðlinda og starfrækslu fyrirtækja sem skapa vinnu og gjaldeyristekjur okkur til handa.

Dapurlegt er að fylgjast með vinnubrögðum stjórnvalda sem á köflum virðast hafa það að markmiði að tefja og helst koma í veg fyrir uppbyggingu í stað þess að gera allt sem unnt er til þess að hraða henni. Stjórnvöld eru ekki samstiga og senda frá sér misvísandi skilaboð. Þetta er sérlega áberandi þegar erlendir fjárfestar og nýting orkuauðlinda á í hlut. Gildir þá einu hvort fyrirtækin hafa starfað hér í áraraðir eða um nýja aðila er að ræða.

Nefna má fjölmörg dæmi í þessu samhengi, s.s. tafir og seinagang varðandi mat á umhverfisáhrifum línulagna til Helguvíkur, stækkunina í Straumsvík, tregðu til þess að endurnýja einfalda viljayfirlýsingu vegna framkvæmda við Bakka, seinagang við að skýra reglur vegna starfsemi gagnavers á Suðurnesjum og óvænt inngrip í fjárfestingar í orkugeiranum svo eitthvað sé nefnt.

Samtök iðnaðarins skora á stjórnvöld að taka þessi mál öðrum og fastari tökum. Það er of mikið í húfi til þess að hægt sé að una því að mikilvæg verkefni dragist úr hömlu eða fjárfestar hrökklist frá landinu.