• Eyjolfur-bergthora-katrin

28. sep. 2009

Farmers Market og Íslensk hollusta hlutu viðurkenningu úr Verðlaunasjóði iðnaðarins

Tvær viðurkenningar úr Verðlaunasjóði iðnaðarins voru veittar við hátíðlega athöfn í dag. Það voru Eyjólfur Friðgeirsson, líffræðingur í Íslensk hollusta og Bergþóra Guðnadóttir, hönnuður í Farmers Market sem hlutu viðurkenningu að þessu sinni. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra afhenti hvorum um sig eina milljón króna, verðlaunagrip og viðurkenningarskjal.

Verðlaunagripurinn heitir Hjólið og er tákn mannsins fyrir uppgötvun, framfarir og virkni.

Verðlaunahafar 2009.

Íslensk hollusta ehf. (áður Hollusta úr hafinu) er félag sem Eyjólfur Friðgeirsson líffræðingur stofnaði árið 2005 til að þróa og framleiða hollustufæði. Það hefur sett á markað hátt í tvo tugi vara: jurtate, krydd, sósur, osta, snakk, kryddlegin söl, berjasaft og baðefni.

Vörurnar eru neytendavænar og í háum gæðaflokki. Mikill og stóraukinn áhugi er á framleiðslu fyrirtækisins ekki síst meðal hótelrekenda og ferðamanna. Hugmyndafræði fyrirtækisins er skýr: Að nýta þær auðlindir sem finnast í íslenskri náttúru til manneldis og heilsubótar. Leiðarljós Eyjólfs er að nota hrein íslensk náttúruefni og láta þau njóta sín í eigin ferskleika og einfaldleika. Hann safnar hráefninu í vörurnar hérlendis og beinir með starfi sínu athygli að því að í náttúran sjálft er meiri matarkista en margur hyggur og stuðlar jafnframt að því að endurvekja þjóðlega íslenska matargerð.

Hönnunarfyrirtækið Farmers Market var stofnað haustið 2005 af hjónunum Bergþóru Guðnadóttur hönnuði og Jóel Pálssyni tónlistarmanni. Bergþóra hannar allar vörur fyrirtækisins, en hugmyndafræðin byggir á að nýta náttúruleg hráefni með sérstaka áherslu á íslensku ullina til að gera vörulínu af fatnaði og fylgihlutum sem hafi sterka skírskotun í íslenska arfleið og menningu. Hönnun Bergþóru undir merkjum Farmers Market hefur vakið mikla athygli bæði hér heima og erlendis og  eru nú vörur þeirra  í sölu í hönnunar- og tískuverslunum í 12 löndum,  m.a. í  borgum eins og Tokyo, Berlín, Madríd, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, New York og París. Á síðasta ári voru notuð um 10 tonn af íslenskri ull í vörulínuna.

Verðlaunasjóður iðnaðarins

Verðlaunasjóður iðnaðarins var stofnaður af Kristjáni Friðrikssyni í Últímu, eiginkonu hans frú Oddnýju Ólafsdóttur og fjölskyldu árið 1976.

Tilgangur hans er að örva til dáða á sviði iðnaðarmála og vekja athygli á afrekum einstaklinga og fyrirtækja sem vinna að iðnaði, hönnun og framleiðslu. Sjóðurinn er helgaður minningu þeirra fjölmörgu hugvits- og hagleiksmanna sem fyrr og síðar hafa lifað og starfað á Íslandi og notið mismikillar umbunar fyrir verk sín.

Verðlaunasjóður iðnaðarins hefur verið starfræktur í anda stofnenda hans í samstarfi við Samtök iðnaðarins og hefur með vissu millibili veitt viðurkenningar oftast fyrir frumkvöðulsstarf á sviði iðnaðar.

Kristján Friðriksson iðnrekandi var framsýnn athafna- og hugsjónamaður sem lét sig hag og farsæld þjóðarinnar öllu varða. Kristján stofnaði fyrirtækið Últíma árið 1941 og rak það til dauðadags. Í Últímu var í fyrstu verslun og saumastofa með klæðskerasaumaðan og innfluttan herrafatnað. Kristján hafði lengi haft áhuga á að vinna úr íslensku ullinni og sá í henni sóknarfæri fyrir íslenskan iðnað. Í upphafi sjöunda áratugarins hóf hann því rekstur vefnaðarverksmiðju þar sem framleidd voru áklæði, gluggatjöld og gólfteppi mestmegnis úr íslenskri ull. Áhugann má eflaust rekja til æskuheimilis hans þar sem mikið var lagt upp úr heimilisiðnaði og þá sérstaklega ullarvinnslu.  

Kristjáni fannst mikilvægi íslensks iðnaðar og uppbygging hans gleymast á uppgangstímum sjávarútvegsins. Hann þreyttist ekki á að tala um mikilvægi þess að viðhalda íslenskum iðnaði, þróa hann með langtímasjónarmið fyrir augum og gera samkeppnishæfan við innfluttar vörur. Íslensk framleiðsla þyrfti að vera fjölbreytt og byggja bæði á fornum hefðum, sérkennum og sérþekkingu en einnig nútímalegri tækni og framsýni. Þannig yrði stuðlað að jafnri og öruggri búsetu- og atvinnuuppbyggingu, sjálfbærni þjóðarinnar og verkmenningu. Hann taldi hagleik og verkfærni einn helsta þjóðarauð Íslendinga.

Val á verðlaunahöfum í ár hefði eflaust fallið Kristjáni vel í geð þar sem um er að ræða hugsjónafólk sem hefur með elju sinni og áhuga hafið framleiðslu á vörum úr alíslensku hráefni, m.a. íslenskri ull og jurtum, en Kristján var vel heima í flóru landsins og hafði mikinn áhuga á að nýta jurtir til lækninga, lyfjagerðar og manneldis. Báðir verðlaunahafar byggja vörur sínar á gömlum hefðum heimilisiðnaðar og matarmenningar en horfa einnig til nýrra notkunarmöguleika, rannsókna og útflutnings.