• Stjórn 2009 Helgi

6. ágú. 2010

Köstum tækifærunum ekki frá okkur

 

Framkoma íslenskra stjórnvalda við þau fáu erlendu fyrirtæki sem vilja fjárfesta hér á landi er algerlega óviðunandi að mati Samtaka iðnaðarins. Framkoma stjórnvalda við fyrirtæki eins og Magma Energy og Alcoa á Íslandi er með þeim hætti að orðspor þjóðarinnar út á við skaðast og líkur á samstarfi við erlenda fjárfesta minnkar til mikilla muna einmitt á þeim tíma þegar við þurfum mest á öflugu og farsælu samstarfi við erlenda fjárfesta að halda.

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, segir að Íslendingar séu í varnarbaráttu og þurfi að sameina alla krafta til að endurreisa hagkerfið fljótt og vel. Það verður ekki gert án hagvaxtar og aukin verðmætasköpun í iðnaði og öðrum atvinnugreinum er lykillinn að því að atvinnuleysi verði eytt og að lífskjör landsmanna geti batnað til muna.

Til þess að erlendir fjárfestar vilji vinna með okkur og til þess að þeir geti forsvarað að leggja áhættufé í íslenskan atvinnurekstur og telji óhætt að lána til Íslands þarf aukinn stöðugleika og aukinn trúverðugleika af hálfu stjórnvalda og annarra sem koma að samskiptum við erlenda aðila. Fjárfestar bíða hér ekki í röðum og það er fylgst með því sem fram fer í landinu. Orð og yfirlýsingar stjórnmálamanna og annarra áhrifaaðila eru þýdd af erlendum fréttastofum og sendiráðum og þeim dreift víða um heim. Stóryrtar og óábyrgar yfirlýsingar geta því valdið varanlegum skaða og komið í veg fyrir samstarf Íslendinga við alþjóðlegar lánastofnanir og fjárfesta. Þannig er ljóst að framkoma margra stjórnmálamanna í Magma-málinu er ekki til þess fallin að auka traust á íslensku samfélagi og verður ekki til þess að hraða endurreisn efnahagslífsins hér á landi.

Helgi segir að það hafi valdið vonbrigðum að heyra iðnaðarráðherra segja í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi, 5. ágúst, að það væri helst við Alcoa á Íslandi að sakast hversu hægt miðaði atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Ráðherra sagði að Alcoa hafi ekki sýnt þann áhuga sem búist var við varðandi nýtt álver á Bakka. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Samtök iðnaðarins hafa er þetta ekki rétt mat því Alcoa hefur þvert á móti sýnt atvinnuuppbyggingu á svæðinu mikinn áhuga um langt skeið og varið umtalsverðum fjármunum til rannsókna og undirbúnings. Hins vegar þurfa stjórnvöld að upplýsa hve mikil orka verður í boði á svæðinu og á hvaða verði. Enginn fjárfestir getur ráðist í verkefni í orkufrekum iðnaði án þess að hafa fullvissu fyrir því að orka sé til staðar á samkeppnishæfu verði. Boltinn er því hjá stjórnvöldum.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, hefur í starfi sínu lagt sig fram um að koma góðum málum í höfn og hún hefur sýnt skilning á mikilvægi iðnaðaruppbyggingar í landinu. Samtök iðnaðarins treysta því að hún greiði fyrir því að svör fáist sem fyrst við því hve mikil orka geti verið til ráðstöfunar í Þingeyjarsýslum og á hvaða verði. Með því móti er unnt að hraða framvindu mála og nýta tímann framundan til að fá svör við því hvaða tækifæri eru til iðnaðaruppbyggingar í Þingeyjarsýslum.