Að gera það rétta rétt

2. okt. 2019

Rétt um einu ári hefur efnahagsástandið hér á landi breyst talsvert til hins verra. Í stað hagvaxtar hefur tekið við samdráttur.

Rétt um einu ári hefur efnahagsástandið hér á landi breyst talsvert til hins verra. Í stað hagvaxtar hefur tekið við samdráttur. Breytingin hefur komið niður á bæði heimilum og fyrirtækjum, m.a. í auknu atvinnuleysi og samdrætti í tekjum. Á sama tíma og stjórnvöld hafa nýtt ríkisfjármálin til að vinna á móti niðursveiflunni hefur peningastefnunefnd Seðlabankans lækkað stýrivexti bankans. Aðilar vinnumarkaðarins náðu kjarasamningum á almennum vinnumarkaði á fyrri hluta árs með áherslu á að halda verðbólgu lágri. Hagstjórnaraðilar hafa þannig gengið í takt í því verki að milda niðursveifluna og tryggja stöðugleika, sem er forsenda áframhaldandi velmegunar. Það er fagnaðarefni að hagstjórnaraðilar gangi í takt í hagstjórnaraðgerðum sínum. Það er einnig fagnaðarefni að sá taktur er nú betri en oftast áður í íslenskri hagsögu. 

Það er hins vegar ekki nóg að ganga í takt heldur verður takturinn að vera af áræðni og nægjanlega hraður til að mýkja efnahagssamdráttinn og skapa grundvöll fyrir nýju hagvaxtarskeiði. 

Huga þarf að öllum þeim þáttum sem kunna að mynda grunn að nýju hagvaxtarskeiði og hjálpa fyrirtækjum og heimilum að mæta efnahagssamdrættinum. Það er mikilvægt að forgangsröðun í opinberum fjármálum endurspegli þá meginþætti sem líklegastir eru til að efla samkeppnishæfni Íslands og undirbyggja þar með bætt lífskjör landsmanna litið til framtíðar. 

Ánægjulegt er að í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjárlaga sem nú er til umræðu á Alþingi er áhersla á nýsköpun, menntun og fjárfestingu í innviðum. Einnig eru þar áform um umbætur í starfsumhverfi fyrirtækja. Ráða þessir þættir miklu um samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. Verðmætasköpun er drifin áfram af vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli, traustum innviðum sem uppfylla þarfir samfélagsins og skilvirku, hagkvæmu og stöðugu starfsumhverfi. 

Mikilvægt er að gera réttu hlutina rétt. Gæta þarf að því að það fjármagn sem sett er í einstök málefni skili sér í bættri samkeppnishæfni og aukinni innlendri verðmætasköpun fyrirtækjum og heimilum til heilla. Mikilvægt er að huga að skilvirkni og kostnaðarlágmörkun í rekstri hins opinbera. Í því sambandi þarf að auka áherslu á árangur útgjaldaþátta hjá hinu opinbera. Með bættum árangurstengingum og forgangsröðun má tryggja betri nýtingu á skattfé landsmanna, losa um framleiðsluþætti, auka framleiðni og skapa svigrúm til skattalækkana. 

Við þessar aðstæður er hættulegt að ofmeta væntan viðsnúning hagkerfisins, eins og virðist því miður vera gert í spám sem undanfarið hafa verið lagðar til grundvallar ákvarðanatöku. Í þessum spám er gert ráð fyrir að eftir tiltölulega mildan samdrátt í hagkerfinu taki hagvöxtur nokkuð kröftuglega við sér á næsta ári. Forsendur þessa efnahagsbata sem spárnar gera ráð fyrir eru býsna bjartsýnislegar og líklegt hlýtur að teljast að frekari hagstjórnaraðgerða sé þörf ef viðsnúningur hagkerfisins á að vera hraður hér á landi á næstunni. 

Laun á vinnustund eru há hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Laun hafa á síðustu árum hækkað langt umfram innlendan framleiðnivöxt og laun í löndum helstu keppinauta innlendra fyrirtækja. Samkeppnisstaðan hefur því versnað til muna á við önnur lönd. 

Staðan er umhugsunarefni m.a. í ljósi þess að fyrirtækin þurfa nú að takast á við minni innlenda eftirspurn og hagvöxt. Hún er einnig umhugsunarefni í ljósi þeirrar áleitnu spurningu með hvaða hætti má knýja áfram hagvöxt næstu missera. Þörf er á að þessari stöðu sé mætt með því að dregið sé úr álögum á íslensk fyrirtæki. 

Mikilvægt er að tryggja íslenskum fyrirtækjum samkeppnishæfni þannig að framleiðni vinnuafls standi undir þessum launum og í leiðinni góðum efnahagslegum lífsgæðum hér á landi. Réttar aðgerðir í opinberum fjármálum og peningamálum skipta þar sköpum. 

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

ViðskiptaMoggi, 2. október 2019.